Öryggisbragur (safety culture) á vinnustöðum myndgreiningarfólks hefur afgerandi áhrif á öryggi sjúklinga og þar með gæði þjónustunnar. Undanfarið hefur birst hér í fókusrammanum efni um öryggi sjúklinga, þar sem margt bendir til að því sé verulega ábótavant, jafnvel í þróuðum ríkjum eins og Íslandi.
Hin þekkta skýrsla „To Err is Human“ byggir á bandarískum rannsóknum en hvernig skyldu heilbrigðisstarfsmenn í Bandaríkjunum upplifa öryggisbrag á vinnustöðum sínum?
Svör nærri 340 þúsund heilbrigðisstarfsmanna
Nýlega birti stofnunin Agency for Healthcare Research and Quality (AHRQ), sem er undir bandaríska heilbrigðisráðuneytinu, viðamikla skýrslu sem byggir á svörum tæplega 340 þúsund starfsmönnum á 885 sjúkrahúsum við ítarlegum spurningalista um öryggisbrag.
Það besta og versta
Í samantekt er getið um þrjá flokka sem samkvæmt könnuninni fengu besta einkunn: Samvinnu innan deildar, áherslu og aðgerðir yfirmanna til að auka sjúklingaöryggi og stuðul sjúklingaöryggis (A-framúrskarandi, B-mjög gott o.s.fr.).
Einnig er getið þriggja flokka þar sem úrbætur eru nauðsynlegastar, skv. svörunum: Að geta tilkynnt um atvik án þess að eiga refsingu yfir höfði sér, færslu upplýsinga með sjúklingi milli deilda og fjölda atvika sem skráð eru.
Aðeins eitt af þessu kemur mér á óvart og það er að áhersla og aðgerðir yfirmanna til að auka sjúklingaöryggi skuli fá svona háa einkunn. Gæðavinna, t.d. markvissar aðgerðir til að auka öryggi sjúklinga, kostar tíma, tíminn er peningar og fæstir yfirmenn vilja auka kostnað á vinnustað sínum.
Hinir flokkarnir tengjast hver öðrum. Fá atvik eru tilkynnt, meðal annars vegna þess að fólk óttast einhverskonar refsingu ef það segir frá því sem aflaga fer. Samvinna innan deilda er góð en verri milli deilda, meðal annars vegna þess að ekki eru til vinnureglur um hvernig best er að skila sjúklingi og upplýsingum um hann til annarrar deildar. Síðast en ekki síst, samviskusamt heilbrigðisstarfsfólk stendur í þeirri trú að sjúklingar séu öruggir inni á heilbrigðisstofnun.
Litlar breytingar á tveim árum
AHRQ gerði samskonar rannsókn árið 2007 og nú skiluðu sér svör frá 321 sjúkrahúsi sem einnig tóku þátt þá. Af niðurstöðum má dæma að sorglega litlar breytingar hafi átt sér stað á þeim tveim árum sem liðu milli rannsókna. Það er einnig í takt við það sem sést hefur í öðrum rannsóknum.
Auðlesin og áhugaverð skýrsla
Mörgum finnst ógnvekjandi að ráðast í að lesa stóra skýrslu og flestir búast við að slíkt lesefni sé þungt og leiðinlegt. Svo er ekki með þessa skýrslu, hún er á vefsíðuformi og skipt í þægilega kafla, auk þess að vera skrifuð á „mannamáli“ og laus við hinn margfræga stofnanabrag.
Það er áhugavert fyrir hinn almenna myndgreiningarstarfsmann að sjá viðhorf heilbrigðisstarfsfólks úr öllum starfsstéttum til sjúklingaöryggis. Það vekur fólk til umhugsunar um öryggisbrag eigin vinnustaðar.
10.05.10 Edda Aradóttir ea@ro.is