Öryggi sjúklinga

Dagana 18. – 20. apríl var haldin, í Barcelona, ráðstefnan “International Forum on Quality and Safety in Health Care 2007”. Á vefnum er hægt að fylgjast með nokkrum fyrirlestrum frá ráðstefnunni og pallborðsumræðum tengdum þeim.

Í febrúar síðastliðnum stóð Landlæknisembættið fyrir málþingi hérlendis um öryggi sjúklinga, þar sem Sir Liam Neeson, formaður samtakanna World Alliance for Patient Safety, sem eru á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), var aðalfyrirlesari.
Um þetta málþing var fjallað í Arnartíðindum 12.02.07 og bent á slóð þar sem hægt var að fylgjast með upptökum frá því.

Ráðstefnan í Barcelona var stór í sniðum og nokkur þekkt nöfn á mælendaskránni. Þar bar hæst sjálfan Lucian Leape sem fjallaði um góðar og slæmar leiðir í samskiptum heilbrigðisstarfsmanna við sjúklinga sem orðið hafa illa úti vegna mistaka í heilbrigðisþjónustu.
Dr. Leape lagði t.d. áherslu á það einfalda atriði að sá sem gerði mistökin segði sjúklingnum hreint út hversu leitt honum þætti að atvikið skyldi hafa átt sér stað. Orsakir mistaka í heilbrigðisþjónustu liggja yfirleitt í vinnutilhögun en eiga ekki rót í vanhæfni ákveðins starfsmanns. Engu að síður finnst manneskju sem verður fyrir heilsutjóni af þessum sökum mikilvægt að sá sem framkvæmdi það sem olli tjóninu láti hana vita að hann taki þetta sárt.

Annan mjög athyglisverðan fyrirlestur flutti Donald Berwick og velti þar upp þeirri stóru spurningu hvort nokkurn tíma yrði hægt að tryggja fullt öryggi innan heilbrigðisgeirans. Ég vil sérstaklega benda fólki á pallborðsumræðurnar sem tengjast þessum fyrirlestri, þar koma fram margir athyglisverðir punktar.

Í heildina tekið er vel þess virði að verja tíma í að skoða efnið sem aðgengilegt er á vefnum, frá “International Forum on Quality and Safety in Health Care 2007”. Umræðan um öryggi sjúklinga hefur verið að opnast, sem er vel, og full ástæða fyrir myndgreiningarfólk að kynna sér vel framvindu mála. Einkum vil ég benda á mikilvægi þess að reikna út se-kreatinin úthreinsun þeirra sjúklinga sem það á við áður en þeim er gefið skuggaefni.

23.04.07 Edda G. Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *