Ómetanlegt.


Fyrir rúmlega fjórum árum birtist greinaflokkur hjá Minnu frænku (AuntMinne) um innstillingar. Höfundur greinanna er röntgenlæknirinn Naveed Ahmad sem meðal annars heldur úti vefsíðunni RadQuiz, tenglasíðu sem opnar margar leiðir til upplýsingaöflunar í myndgreiningu.
Þegar þessar greinar voru að birtast, á árinu 2003, var vakin athygli á þeim hér á raforninn.is, eins og glögga lesendur rekur áreiðanlega minni til!

Hvað telst ómetanlegt í Bandaríkjunum?

#img 2 #Nú hefur Minna frænka ákveðið að endurútgefa greinaflokkinn í heild sem heljarmikið pdf-skjal, X-Ray Patient Positioning Manual, og býður hverjum sem vill að hlaða því niður gjaldfrjálst.
Gefin er upp sú ástæða fyrir endurútgáfunni að geislafræðingar hafi látið vita að þessar greinar séu þeim ómetanlegar við dagleg störf.
Þetta eru, að mínu mati, prýðilegar greinar og hægt að læra ýmislegt af þeim en hef hinsvegar ekki fundið í þeim neitt sem er mér ómetanlegt í starfi, langt í frá. Reyndar eru þrjú eða fjögur ár síðan ég gluggaði í þær síðast.Hver er munurinn hér á landi?
Hvers vegna er faglegt efni sem kollegum mínum í Bandaríkjunum finnst ómetanlegt tiltölulega lítils virði fyrir mig?
Íslenskir geislafræðingar eru meira menntaðir en RT (Radiologic Technologists) í Bandaríkjunum, eru á svipuðu stigi og nýtilkomnir RA (Radiologist Assistants). Það skiptir að sjálfsögðu máli.
Ég hef margra ára reynslu sem geislafræðingur. Það skiptir líka máli en bandarískir RT öðlast a.m.k. jafn mikla reynslu með hverju ári og íslenskir geislafræðingar.
En… ég hef aðgang að Gæðavísi. Það skiptir höfuðmáli. Síðastliðin þrjú ár hef ég haft fullan aðgang að Gæðavísi, þar sem meðal annars er að finna vandaða umfjöllun um innstillingar, bæði í hlutanum “Leiðbeiningar við röntgenrannsóknir – Aðferðabók” og að sjálfsögðu í kennslu- og handbókinni Myndgát sem er innifalin í Gæðavísinum.

Vandað, notadrjúgt efni á móðurmálinu.

#img 1 #Stærsti hlutinn af mínu brauðstriti fer fram á myndgreiningardeild Sjúkrahússins á Akureyri og þar vinn ég daglega dags við að mynda sjúklinga. Almennar röntgenrannsóknir, það sem flest okkar kalla bein og lungu, eru alltaf stór hluti af starfsemi myndgreiningarstaða og í Gæðavísinum er efnið sem ég nota þegar ég þarf að rifja upp eitthvað um innstillingar.
Notadrjúgt efni á móðurmálinu, aðgengilegt á hvaða tölvu sem er. Það er e.t.v. það sem bandaríska myndgreiningarfólkið sér við greinarnar hans dr. Ahmeds.

Lifandi efni sem notendur hafa áhrif á.
Það sem innstillingaefnið í Gæðavísi hefur fram yfir greinar á vefnum er að það er uppfært þegar þess þarf og nýju efni bætt við. Dagný Sverrisdóttir hefur lagt feikimikla vinnu í þennan hluta Gæðavísis, eins og aðra hluta hans. Einnig er hægt, á stöðum sem hafa keypt fullan aðgang að Gæðavísi, að bæta við staðbundinni gæðahandbók sem notendur búa til og aðeins er aðgengileg á þem stað. Þar má setja inn tilbrigði við innstillingar og aðrar rannsóknaaðferðir sem tilheyra verklagi á viðkomandi stað. Enn einn kostur er að hvaða notandi sem er getur, undir nafni, sett inn athugasemd eða spurningu sem ritstjóri Gæðavísis sér strax og hann opnar kerfið. Þannig hafa notendur áhrif á hvað er til umfjöllunar og hverju er mögulega breytt.

Mín innstillingabók, minn X-Ray Patient Positioning Manual, sem mér finnst ómetanleg við dagleg störf er í Gæðavísi. 

31.03.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *