#img 1 #Fyrir fáum dögum rak ég augun í litla klausu á visir.is með fyrirsögninni “Fleiri sýklar á lyklaborði en klósettsetu”. Ég varð skyndilega mjög meðvituð um eigin hegðun þar sem ég sat við skriftir og litlu síðar stóð ég sjálfa mig að því að klóra mér í nefinu og skella fingrunum síðan aftur á lyklaborðið.
Vesalings lyklaborðið.
Skömmu síðar vék ég sæti fyrir syni mínum sem þurfti nauðsynlega að athuga hverju vitleysingar á bílum og vélsleðum hefðu nýlega bætt inn á YouTube. Pjakkurinn skemmti sér konunglega og lét ærlegan hnerra ekki trufla sig. Greip höndum fyrir munninn og lagði síðan aðra á tölvumúsina og hina á lyklaborðið. Í því kom
#img 2 #heimiliskötturinn inn af músaveiðum, stökk upp á skrifborðið og rak tunguna í tölvumúsina en dæmdi hana bragðvonda og spígsporaði burt – yfir lyklaborðið (syni mínum til lítillar ánægju)!
Þessi litla innsýn í heimilislífið hjá ritstjóra Arnartíðinda gefur til kynna hvað lyklaborð á heimatölvu og tilheyrandi mús geta þurft að þola á stuttum tíma. Hvað þá með öll þau lyklaborð og tölvumýs sem við notum í vinnunni? Til að hugsa aðeins meira um það er gott að líta á grein í Seminars in Roentgenology sem er aðgengileg um Science Direct.
Handhreinlæti í vinnunni.
#img 3 #Sjálfri mér til varnar tek ég fram að ég er mun meðvitaðri um ferðir handa minna í vinnuumhverfinu heldur en heimavið og ef mig klæjaði verulega í nefið mundi ég í flestum tilvikum átta mig á að skjótast á snyrtinguna, snýta mér og þvo mér um hendurnar. Því miður er ég ekki (alveg) fullkomin og gæti óafvitandi dreift sýklum um lyklaborð sem vinnufélagar mínir þurfa líka að nota.
Ég man líka alltaf eftir að spritta á mér hendurnar eftir að hafa sinnt sjúklingi, áður en ég fer í tölvuna til að velja næsta sjúkling af vinnulistanum. Ja, eða næstum alltaf.
#img 4 #
Erlendar rannsóknir hafa sýnt að aðeins helmingur venjulegs fólks þvær sér um hendurnar eftir klósettferð. Vonandi er hlutfallið hærra hérlendis, a.m.k. meðal heilbrigðisstarfsfólks. Ég bara trúi ekki öðru… en samt læðist að manni sú ógeðfellda hugsun að ef til vill gæti einhver af vinnufélögunum komið með fingurna á lyklaborðið beint af sínum leyndustu líkamshlutum.
Hugum betur að þrifnaði.
Ég veit að myndgreiningarfólk er upp til hópa mjög snyrtilegt og meðvitað um handhreinlæti en við erum mannleg og það þýðir að stöku sinnum gleymum við okkur. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að huga betur að þrifnaði á lyklaborðum, tölvumúsum og símum sem við notum í vinnunni.
Ræstingafólk á myndgreiningarstöðum fær mismunandi fyrirmæli en ég þori að fullyrða, eftir margra ára vinnu í faginu, að í flestum tilvikum felur “rútínu” ræsting ekki í sér að þrifin
#img 5 #séu lyklaborð, mýs og símar. Í það minnsta ekki öll þessi tól á hverjum degi, eins og þyrfti að vera.
Sótthreinsandi þurrkur geta gert gæfumuninn ef þær eru notaðar til að strjúka af lyklaborðum, músum og símum einu sinni á dag. Þær eru ekki dýrar, margar heilbrigðisstofnanir kaupa þær nú þegar, og kostnaðurinn ætti að skila sér margfalt í færri veikindadögum starfsfólks. Fyrir þá sem vilja gera stórhreingerningu á tölvunni og öllu sem henni tilheyrir þá er aðferðin hér!
13.05.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is