Ofbeldi

Myndgreiningarfólk sér í starfi sínu afleiðingar allskyns ofbeldis og er sjálft heldur ekki óhult fyrir ofbeldi við störf sín, frekar en aðrir heilbrigðisstarfsmenn. Aukið ofbeldi og ofbeldi sýnt í jákvæðu ljósi er nokkuð sem allir þurfa að vinna gegn.

Allt ofbeldi er óásættanlegt
Við höfum öll séð þetta. Glóðarauga og brotið kinnbein eftir “heiðarleg” slagsmál, loftbrjóst eftir hnífsstungu, marða framhandleggi og brotin rif í konu sem sambýlismanninum mislíkaði við, illskýranlega áverka á hræddu gamalmenni, misgömul beinbrot víða um líkama lítils barns, dauðvona mann sem hópur fólks misþyrmdi, skotsár……

Mér er sama hvaða tegund ofbeldið tilheyrir, það er óásættanlegt. Óásættanlegt! Andlegt ofbeldi ekki síður en það líkamlega. Sálin er brothætt ekki síður en beinin og brot á henni eru lengur að gróa, ef þau gróa þá nokkurn tíma. Við þurfum öll að vera vakandi og hlusta á það sem sjúklingarnir okkar segja. Það er ekki einkamál bráðamóttöku eða geðdeildar að taka eftir grunsamlegum áverkum og/eða orðum sem benda til að ofbeldi sé með í spilinu. 

Markviss viðbrögð
Það er líka óásættanlegt að geta ekki sinnt vinnunni sinni óttalaus. Athugið að ég geri greinarmun á varkárni og ótta. Við þurfum að vera varkár, fara eftir öryggisreglum og afla okkur þekkingar á viðeigandi viðbrögðum ef okkur stafar hætta af einhverjum skjólstæðinga okkar. Með markvissum varúðarráðstöfunum hvers vinnustaðar, á að vera hægt að takmarka áhættu starfsmanna svo þeir mæti óttalausir til vinnu. Rétt eins og að aka í bíl með réttan öryggisbúnað og beltin spennt, meðvitaður um hætturnar í umferðinni en án þess að vera sífellt hræddur um að lenda í slysi.

Þarna er “markviss” lykilorðið. Bæði fyrirtæki og einstaklingar þurfa að marka sér stefnu varðandi ofbeldi og fylgja henni markvisst. Stjórnendur þurfa að kynna stefnu vinnustaðarins, bæði leið starfsfólks til að tilkynna ef það hefur grun um að skjólstæðingur hafi verið beittur ofbeldi og einnig öryggisreglur fyrir starfsfólk og fræðslu sem því býðst um viðbrögð við mögulegu ofbeldi í starfi. Hver starfsmaður þarf einnig að taka ábyrgð á sjálfum sér, leita sér upplýsinga og skipuleggja viðbrögð sín.

Víða eru upplýsingar
Í samstarfi Barnaverndarstofu, Barnaverndar Reykjavíkur og Landspítala hafa verið unnar verklagsreglur um tilkynningarskyldu heilbrigðisstarfsfólks til barnaverndarnefnda, ef grunur er um ofbeldi gegn barni. Einnig má sjá í Læknablaðinu, 3. tbl 90. árg. 2004, innihaldsríka grein frá málþingi um ofbeldi gegn börnum, sem haldið var á Læknadögum.
Viðbrögð og baráttu varðandi kynbundið ofbeldi er til dæmis hægt að kynna sér hjá Stígamótum og á vefsíðu verkefnisins Blátt áfram eru nefnd nokkur samtök sem vinna gegn ofbeldi á Íslandi.

Hvað starfsfólkið varðar gaf nefnd á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, árið 2002, út tillögur um forvarnir og viðbrögð vegna ofbeldis gegn heilbrigðisstarfsfólki. Þetta eru ýtarlegar tillögur og ættu að geta nýst vel sem grunnur að markvissri stefnu heilbrigðisstofnana í málinu en mér hefur ekki tekist að finna hvort eitthvað hefur verið unnið í framhaldi af þeim.
Þegar leitað er á vef LSH finnast upplýsingar um námskeið fyrir starfsfólk í vörnum og viðbrögðum gegn ofbeldi en þau eru eingöngu ætluð starfsfólki geðsviðs.

Aldrei að gefast upp fyrir vandanum
Aldrei má líta á ofbeldi sem sjálfsagðan hlut. Ofbeldi er óásættanlegt. Við þurfum öll, ekki eingöngu sem heilbrigðisstarfsmenn heldur sem manneskjur, að berjast gegn því viðhorfi að ofbeldi sé bara hluti af þjóðfélaginu, eðlilegt í sumum tilvikum og jafnvel jákvætt eða fyndið. Það er aldrei ásættanlegt að niðurlægja og/eða meiða aðra manneskju undir því yfirskini að það sé “bara grín” eða “hann átti það skilið”.

Það er óendanlega mikilvægt að tryggja þeim sem láta vita af ofbeldi góða vernd, svo ekki sé hægt að standa við hótanir um enn meira eða verra ofbeldi ef „þú kjaftar frá“. Við eigum rétt á að lifa án stöðugs ótta við ofbeldi og besta leiðin er að afla sér þekkingar, gera viðeigandi öryggisráðstafanir og að allir taki á sig þá ábyrgð að bregðast við til hjálpar hvenær sem rökstuddur grunur vaknar. 

25.04.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *