Nýtum Röntgendaginn

 
Röntgendagurinn, 8. nóvember, er næsta laugardag. Myndgreining hefur blómstrað undanfarið og hver stórviðburðurinn rekið annann. Nýtum meðbyrinn til að vekja athygli á faginu.

Við hjá Arnartíðindum höfum hvatt myndgreiningarfólk mjög til þess að taka höndum saman og nota Röntgendaginn sem tækifæri til kynningar og mannfagnaðar. Oft hefur verið mikið um að vera á þessum árstíma og má til dæmis nefna opnunarhátið Hjartaverndar á síðasta ári, þar sem fólk í faginu kom saman, kynntist nýjungum og skemmti sér. Einnig buðu margar myndgreiningareiningar skjólstæðingum sínum upp á kaffi eða aðrar veitingar og höfðu uppi við efni sem veitti fólki innsýn í okkar rökkvaða heim, eins og sjá má dæmi um í fókusgrein ritstjóra frá svipuðum tíma í fyrra.

Samvinna um hátíðahöld
Nú á laugardardaginn heldur Tækniháskóli Íslands hátíð fyrir geislafræðinga, nema og aðra sem koma að námsbraut í geislafræði. Af auglýsingu frá skólanum að dæma gæti þetta orðið árlegur viðburður og þá hið ágætasta innlegg í hátíðahöld Röntgendagsins. Hugmyndir þær sem viðraðar hafa verið hér á vefsetrinu snúast um sameiginleg hátíðahöld fyrir allt myndgreiningarfólk. Einhverskonar ráðstefnu eða opið hús þar sem ríkir engin stéttaskipting, enginn munur er gerður á ríki og einkageira og ekkert kynslóðabil er fyrir hendi. Auðveldlega mætti tímasetja slíka ráðstefnu og hátíðahöld Tækniháskólans þannig að það styddi hvort annað eða jafnvel tengja þessa tvo viðburði á einhvern hátt.

Kynning, kynning, kynning
Það sem máli skiptir er að nota hvert tækifæri til að auka hróður fagsins, fagmennsku innan þess og samheldni myndgreiningarfólks. Einnig að gera okkur sýnilegri í þjóðfélaginu, ekki síst svo fleira ungt fólk leiti í nám tengt myndgreiningu. Í kjölfar kynningarstarfs og umfjöllunar um námsbraut í geislafræði hefur aðsókn að henni aukist mjög og stefnir nú í að innan fárra ára geti um 10 nýir geislafræðingar útskrifast á ári. Samkvæmt mannaflakönnun sem Dagný Sverrisdóttir, geislafræðingur, tók saman árið 2002 dugir það eingöngu til að halda sama fjölda geislafræðinga á vinnumarkaðinum og nú er. Betur má ef duga skal því myndgreiningareiningum fjölgar og rannsóknafjöldi eykst einnig. Hvað röntgenlæknana varðar er brýnt að fá fleiri unga lækna til að velja myndgreiningu sem sérgrein og nauðsynlegt að vinna að því með öllum tiltækum ráðum. Því hefur oft heyrst fleygt að þeir sem á annað borð kynnist myndgreiningunni láti ekki hvarfla að sér að fara í annað sérnám og af því má ráða að kynningarstarf sé það sem við gætum grætt mest á.

Draumurinn lifir
Nú er enn komið að Röntgendegi og draumaráðstefna Arnartíðinda ekki á dagskrá þetta árið, enda gróska í myndgreiningu slík að fólk hefur átt fullt í fangi með að fylgjast með atburðum undanfarið. Hugmyndavinna er hinsvegar alltaf í gangi og allar ábendingar mjög vel þegnar, til dæmis í pósti til ritstjóra. Eitt af því sem skemmtilegt væri að eiga er einkennismerki („lógó“) fyrir myndgreiningu í heild. Merki sem myndgreiningarfólk gæti sameinast um og nýttist til að einkenna alla staði sem myndgreining fer fram á, eitthvað áþekkt hugtakinu „x-ray“ sem skilst mjög víða erlendis. Jákvætt merki sem ekki vekur upp geislahræðslu og almenningur leggur ekki að jöfnu við „aðgangur bannaður“. Listamenn og/eða tölvusnillingar í hópi myndgreiningarfólks geta spreytt sig á að teikna merki en þeir sem vilja heldur koma hugmyndum frá sér í orðum geta komið þeim til ritstjóra, annað hvort í pósti eða í gegnum síma. Einnig viljum við enn einu sinni hvetja allt myndgreiningarfólk til að gera sér dagamun og kynna skjólstæðingum sínum fagið sérstaklega, til dæmis næstkomandi föstudag. Svo höldum við ótrauð áfram!

03.11.03. Edda Aradóttir
  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *