Nýtt efni frá ICRP og IAEA.

Undanfarið hafa birst fréttir á vef Geislavarna ríkisins um nýtt efni frá Alþjóða geislavarnaráðinu (ICRP) og á vefsíðu Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA). Full ástæða er fyrir myndgreiningarfólk til að verja tíma í að renna yfir þetta efni, þarna er ýmislegt áhugavert að finna sem hristir upp í manni varðandi geislavarnir í daglegri vinnu.

Léttara en virðist við fyrstu sýn.
Það verður aldrei af þessum stofnunum skafið að þær senda frá sér langan, þurran texta og óárennilega útreikninga. Efni frá þeim dregur a.m.k. alltaf úr mér kjarkinn og ég viðurkenni hér með að fyrsta hugsun er yfirleitt: “Úff, ég nenni ekki að pæla í gegnum þetta allt saman”. Reynslan hefur þó kennt mér að efnið er ekki jafn erfitt aflestrar og virðist við fyrstu sýn og ég er alltaf mun fróðari eftir lesturinn.
Vefsíðan sem IAEA heldur úti, um geislavarnir sjúklinga, er á hinn bóginn vel upp sett og notendavæn með auðskiljanlegu efni.

Geislavarnaritið í gegnum Science Direct.
Það er tvennt sem hefur birst núna nýlega: Rit um geislavarnir í læknisfræði (sjá frétt á vefsíðu GR), sem tengist nýjum meginleiðbeiningum ICRP sem komu út fyrir stuttu, og nýtt efni á nýuppfærðri vefsíðu IAEA (sjá aðra frétt frá GR).
Ritið um geislavarnir í læknisfræði er aðgengilegt gegnum Science Direct, þar sem því er skipt í kafla svo styttri tíma taki að opna skrárnar. 

Vefsíða IAEA er mjög góð.
Ég vil sérstaklega hvetja myndgreiningarfólk til að skoða vefsíðu IAEA og þar sem geislavarnir barna hafa verið mjög í fókus undanfarið er ekki úr vegi að benda á “Children” hluta vefsíðunnar sem er mjög góður.

05.10.08 Edda Aradóttir  edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *