Nýárskveðja 2005

Raförninn óskar öllum sínum viðskiptavinum gleðilegs nýs árs og þakkar samskiptin á liðnum 20 árum.

Það er hefð að staldra við um áramót, horfa um öxl og fram á veginn. Okkar þjóðfélag hefur notið efnahagslegrar velsældar á síðustu árum og flestir telja að fátt geti snúið þeirri þróun á næstunni. Ljóst er þó að raunveruleikinn er ekki eingöngu háður línulegum þekktum breytum, heldur koma þar til ýmis öfl sem breytt geta öllum forsendum frá degi til dags.

Þakkir til vina og velunnara
Raförninn átti 20 ára afmæli á síðasta ári og við það tækifæri þáði fjöldi vina og velunnara, um 150 manns, heimboð til okkar í Suðurhlíðina. Vil ég sérstaklega þakka öllum sem tóku þátt í afmælisdeginum með okkur.

Einkenni velsældar fyrr og nú
Þeir sem nú lifa eru ekki fyrsta mannfólkið á jörðinni til að njóta velsældar. Það gerðu áður yfirstéttir ýmissa þjóða. Þá áttu menn auðvitað ekki kost á öllu því sem okkur býðst í dag en hliðstæðurnar eru sláandi.
Það sem er mest áberandi núna er mikil ásókn í “upplifun” hverskonar. Á mektartímum Rómarveldis gilti það sama. Menn drukku góð vín, höfðu gnægð þræla og köstuð fólki fyrir ljón til að drepa tímann eða flýja gráan hversdagsleikann
Vínsalan okkar eykst nú um 20% á ári og vínspekingar mæltu fyrir þessi jól með víni sem kostaði allt að 17,500 kr flaskan sem góðum kaupum. Reikna má með að eftirspurn eftir vímuefnum hverskonar lúti svipuðum lögmálum. Þau þurfa að vera í tísku og mega gjarnan vera dýr. Við flytjum inn láglaunafólk frá framandi ströndum sem aldrei fyrr í störfin sem ekki standast íslenskar kröfur um upplifun. Í verslunum má fá kjöt ýmissa dýra frá öllum heimshornum og ofuráhugi er á öllu sem viðkemur matreiðslu. Það er samhljómur við eina uppáhalds tilvitnun mína úr Dilbert, þar sem menn fara á veitingastað á kostnað fyrirtækisins og segja “I want the endangered species kabob grilled over moon rocks”
Í raunveruleikasjónvarpinu styttist síðan í að fólki verði kastað fyrir ljón.

Góð heilsa – nauðsyn til að njóta
Í heilbrigðisbransanum eru áhrifin greinileg. Áhugi á heilsu og heilsuvernd fer vaxandi. Menn þurfa jú heilsu til að njóta. Einhver stærsti sigur lyfjaiðnaðarins á síðustu árum er Viagra lyfið sem hefur leitt til þess að miklu fleiri karlar geta notið kynlífs fram á efri ár. Greinileg merki um að Viagra nýtur mikilla vinsælda er að nýgengi AIDS meðal eftirlaunaþega er víða hátt, sem nýlegar tölur frá Florida bera t.d. vitni. Eldra fólk er ekki mjög uppnæmt fyrir “safe sex” áróðri yfirvalda, sem það telur eingöngu beint til eiturlyfjaunglinga. Við þetta bætist að algengt er að 4 konur séu um einn karl á eftirlaunaaldri, enda sagði einn vinur minn með tilhlökkun “think if one could make it to that age” og sá fyrir sér samfellda sælutíð.
Sala heilsu og fæðubótaefna er mikil og vaxandi. Reglur Evrópusambandsins um sölu slíkra efna verða t.d. rýmkaðar árið 2006. Allt eykur þetta heilbrigðisáhuga og umsvif, sem er fagnaðarefni.

Upplifun nútíma myndgreiningar
Myndgreiningargeirinn okkar er á krossgötum. Greiningargetan eykst, valkostum fjölgar og afköst aukast stöðugt með bættri tækni og aukinni þekkingu og sérhæfingu.
Eftirspurnin hefur vaxið stöðugt í áratugi og engin teikn um niðursveiflu á þeim markaði. Á þessu ári verður að mestu lokið við að koma myndgreiningu á stafrænt form hérlendis. Hluti af þeim fasa mun snúast um fjargreiningu, sem þýðir að minni aðilarnir geta valið sér samstarfsaðila á nýjum forsendum. Hvenær menn byrja að nýta starfskrafta í öðrum löndum með fjartækni er óljóst en vonandi skoða menn það sem fyrst.
Við þurfum líka að svara “upplifunarþörfinni” eins og allur þjónusturekstur. Við þurfum að skilja að við erum ekki bara að reka nauðþurftaþjónustu fyrir veika fátæklinga eins og var á þeim tímum þegar grunnurinn var lagður að núverandi heilbrigðiskerfi, þótt enn sé til fátækt fólk og fólk í bráðri lífshættu.
Nú er skylda stjórnenda að hyggja náið að bæði upplifun viðskiptavinanna og starfsfólksins og leitast við að standa þar undir væntingum. Hér geta menn ekki bara treyst á tilfinninguna og eigin fordóma heldur verður með marktækum hætti að meta og mæla þessa eftirspurn þannig að henni verði svarað með réttum hætti. 

Íslensk arfleifð gefur tóninn 
Ég held að hefðbundinn íslenskur hugsunarháttur falli vel að kröfum fyrsta hluta nýrrar aldar. Okkar forfeður voru allir fyrir upplifun og spennu. Þeir sigldu með aleigu sína út í óvissuna til að kanna ný lönd. Þar sem þeir komu ýmist keyptu þeir eða stálu því sem til þurfti. Í þeirra himnaríki börðust menn af kappi allan daginn og risu síðan upp frá dauðum að kvöldi og héldu til drykkju. Samfelld sælutíð! Á leið til landsins var alsiða að taka þræla, til að vinna erfiðisvinnuna sem ekki féll í kramið á þeim tíma. Ekki veit ég hvort þrælar unnu að fyrstu stórframkvæmd á vegum hins opinbera hérlendis, þegar Öxará var veitt ofan í Almannagjá, en tel það líklegt (hvað hefur breyst á 1000 árum?).

Skemmtileg upplifun fyrir myndgreiningarfólk
Ég legg til að við í myndgreiningarbransanum komum okkur upp einum sameiginlegum atburði. Þetta er árleg pílagrímsferð til Wurtzburg í Þýskalandi, þar sem prófessor Röntgen fann upp geislann. Þetta er mjög fallegt ferðamannasvæði. Tilvalið að vera í bænum í 2 daga, í skipulagðri dagskrá. Við hjá Arnartíðindum erum tilbúin til að skipuleggja svona ferð ef áhugi er fyrir hendi.

Með ósk um farsæld á nýju ári

03.01.05
Smári Kristinsson
    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *