Nýárshugleiðing 2006

Jól og áramót eru tími endurreisnar og því kjörið tækifæri til að líta í eigin huga, þó ekki væri nema til að endurraða eigin fordómum.
Hversu frjáls erum við? Erum við löngu föst í eigin hugarfari?

Dýr en ekki börn

Lífshættir breytast ört. Í okkar heimshluta velur fjöldi fólks að eiga gæludýr í stað barna til að auka sér frelsi og einbeita sér að starfsframa eða sköpun af einhverju tagi.
Úrkynjun segja sumir. Ég hrökk reyndar við þegar ég heyrði þetta orð notað  um fólk sem velur dýr í stað barna, því flestir hafa skilið að máttur nútíma þjóðfélags byggir á óendanlegri fjölbreytni og vissum skilningi á því að ekkert sé útilokað og þar með að öll hugsun sé gjaldgeng nema hennar eini tilgangur sé að skaða meðborgarana.

Þrælsóttinn er mönnum erfiður
Það hefur verið mér töluverður lærdómur að fá að vinna lítið eitt að þróunarmálum í fjarlægu smáríki. Að sjá hvernig klafahugsun fátæklinga sem áður voru þrælar kemur í veg fyrir framfarir. Hvernig landlægur óheiðarleiki og spilling bremsar alla auðsköpun. Það sem verst er, þróunaraðstoðin er svo misnotuð að færa má rök fyrir því að hún tefji eðlilagar framfarir því hún festir í sessi ónýta stjórnendur og þeirra viðhengi. Ég mæli með að menn taki að sér verkefni í þróunarlandi til að skerpa skilning sinn á mannlegu samfélagi.

Óttinn við frelsið
Frelsi mannsins og mannshugans er mönnum hugleikið þessi árin. Íslendingar hafa á síðustu árum séð hvílíkir ógnarkraftar og auðlegð leysast úr læðingi þegar atvinnugreinar eins og bankarekstur eða verslun fá frelsi frá pólitískri rétthugsun og samtryggingu stjórnmálaaflanna.

Frá því að sögur hófust hefur mönnum staðið ógn af frjálsri hugsun, sérstaklega einræðisöflum og harðstjórum. Elsta stjórnmálaaflið sem til er enn þann dag í dag, kristin kirkja, brenndi menn á báli fyrir ranghugsun og rak pyntingabúðir sem enn eru frægar fyrir þá hugmyndaauðgi sem notuð var til að pynta og limlesta fólk fyrir ranghugsun eins og þá að jörðin væri ekki flöt. Á Íslandi voru menn höggnir, brenndir og þeim drekkt í nafni krists.
Í austur Evrópu var um áratugaskeið á síðustu öld ráðandi stjórnmálaafl í mörgum löndum sem sendi það fólk á geðveikrahæli sem vék frá póitískri rétthugsun. Margar ríkisstjórnir banna enn frjálsa hugsun að viðlögðum dauðarefsingum.

Jafnvel í okkar heimshluta stendur leiðtogum mest ógn af frjálsri hugsun og reyna með ýmsu móti að koma á hana böndum og sveigja hana að sínum stundarhagsmunum. Á sama tíma er kristalljóst að frjáls hugsun, ásamt frelsi til orðs og atafna, er það skapandi afl sem knýr vísindi, listir og umfram allt auðssköpun mannsins. Menn gera sér líka ljóst að frjó hugsun getur stundum af sér tortímingarmátt og er sá ótti óspart notaður við að smíða hugfjötra heilum þjóðum, jafvel stórþjóðum hins vestræna heims.

Í dag eru fjölmiðlar taldir stýra hugsun og þar með hegðun og neyslu fólks í okkar heimshluta. Barátta valdamanna og fjármagnseigenda hér stendur því um aðgang og yfirráð yfir fjölmiðlum. Þar stendur nú slagurinn um frelsið. Barist er á mörgum vígstöðum eins og við höfum fengið að kynnast í návígi hérlendis á síðustu árum.

Klafi menntunar
Það er ljóst að flest menntun miðar að ákveðinni rétthugsun og dregur því oft úr möguleikum manna til frjálsrar og frumlegrar hugsunar og þar með nýsköpunar. Nýsköpunarrisar heimsins óháð starfsvettvangi hafa enda margir ekki enst lengi á skólabekk og oft lent mjög á kant við þrúgandi andlegt ofbeldi þeirrar rétthugsunar sem skólar beita.

Frelsi barnanna okkar
Aukin velmegun leiðir til frjálsari hugsunar, enda flestar stórhugmyndir komnar frá þokkalega stæðu millistéttarfólki en ekki því fólki sem sér tæpast til næstu máltíðar.
Það er augljósara með hverju ári að með auknu vægi frjálsrar hugsunar í þjóðfélaginu verða skólarnir okkar, sérstaklega grunnskólinn, sífellt úreltari. Afburðanemendur eru til “vandræða”. Þar verða þó einna verst úti tápmiklir drengir sem ekki falla að þeirri feminisku rétthugsun sem skólarnir hafa hafnað í. Frávikatilfelli eru meðhöndluð með geðlyfjum rétt eins og í Sovéska Gulaginu.

Ég og fleiri trúum því að meðal þessar frávikatilfella felist sá efniviður sem reynst hefur mannkyninu nauðsynlegur í fortíðinni til að lifa af þann breytileika með óvæntum uppákomum sem raunheimar bjóða upp á hvern einasta dag. Ríkisskólinn okkar er nefnilega eitt af fáum fyrirtækjum sem geta spunnið sína eigin veröld og þá einkum sér til hægðarauka og komist upp með það.

Þótt við höfum séð að frelsun bankanna hefur á stuttum tíma skilað ótrúlegri auðlegð, þá er engin hávær krafa um frelsun skólanna til að auka andlega auðlegð barnanna okkar. Hér slæst einstaka foreldri eitt við ofureflið, hrjáð af þeirri skömm sem fylgir því að eiga vandræðabarn sem annað hvort er of gáfað, tornæmt eða of tápmikið fyrir hinn staðlaða ríkisskóla.

Frelsi er innflutt
Þó Ísland byggði upprunalega frjálst og frelsisunnandi fólk, þá missti þjóðin frelsi sitt og þurfti síðan að endurreisa það. Hugarfar okkar mótast sem betur fer enn af anda frumbyggjanna því við höfum að hluta varðveitt hugsun þeirra í tungumálinu. Vísindin hafa sannað að frelsi til hugsunar er háð því tungumáli sem menn hugsa á.
Aukið frelsi til orðs og athafna á Íslandi hefur að verulegu leiti komið að utan. Á þeirri braut hefur þurft að beygja heimarík íslensk stjórnvöld til frjálsari hugsunar. Þar hafa öflugir landar okkar staðið í eldlínu og barist fyrir frelsi til orðs og æðis sem ráðamenn hafa reynt að hefta. Athafnafólk á öllum sviðum hefur síðan byggt vaxandi auðsköpun á þessum grunni. Hér hefur sannast að okkar dómstólar þurfa stuðning alþjóðasamfélagsins til að tryggja viðunandi réttaröryggi landsmanna.

Af hveru beita menn frelsinu ekki víðar?

Í þeirri þroskabylgju sem okkar atvinnulíf hefur gengið í gegnum hefur starfsemi ríkisins og stjórnmálaflokkanna setið eftir, þótt forsendur framfaranna eigi sér upprunalega stórnmálalegar rætur. Allstaðar blasir við pólitísk þröngsýni með stundarhagsmuni flokkanna að leiðarljósi öðru fremur.
 
Það er ljóst að með vaxandi verðmætasköpun á mann verður atvinnurekstur flóknari og meiri verðmætasköpunar er krafist á hverja vinnustund. Hverskonar hömlur, klíkuskapur eða spilling verður jafnframt skaðlegri. Af þessu leiðir að tjón sem leiðir af beinum ríkisrekstri eykst nú með ári hverju.

Forræðishyggjan er lífseig.
Okkar þjóðkjörnu fulltrúar halda okkur ómyndugum á ýmsum sviðum. Þeirra markmið er að móta hugsun okkar í farvegi sem teljast “eðlilegir” Þannig er okkur gert að reka ríkisfjölmiðla undir forystu stjórnmálamanna og okkur leyfist ekki að kaupa matvöru eins og vín í matvörubúðinni. Allskonar skattar og gjöld stýra neyslunni, að vísu helst þeirra efnaminni (forræðishyggja gagnvart fátækum er í miklu dálæti hjá stjórnmálamönnum), í þá átt sem landsfeður og mæður telja einboðið af sinni háþróuðu þröngsýni.
 
Opin fangelsi
Öll þessi kerfi með svokölluðum jaðaráhrifum halda síðan þjóðfélagshópum í “réttum” dilkum eins og rollum í rétt því refsingar við “brotum” eru orðnar mjög þróaðar þannig að helst minnir á lýsingar frá Lubjanka (mjúkt en skilvirkt ofbeldi). Þannig hafa vísindin sýnt að það er einungis á færi ofurmenna að brjótast út úr fátæktargildrum velferðarkerfa hinna ríku þjóða. Þarna er fólk sett i ósýnilegt fangelsi og lyklinum fleygt. Tannlausir fjölmiðlar japla síðan yfirborðsfréttir af þessu alla daga og horfa þá gjarnan á einstök atvik þar sem leitað er að einstökum mistökum og fólki til að hengja. Orskana er þó næstum alltaf að leita í fjötrum þeirra hugsana sem kerfið hvílir á sem aftur styðjast við rótgróna fordóma.

Þekkingariðnaður á leið úrlandi
Framsæknasti hluti atvinnulífsins er nú á leið úr landi vegna þeirrar meinloku ráðamanna að láta ríkið standa að nýiðnvæðingu með fókus á málmbræðslur í anda Stalins. Á tímum Stalins var málmbræðsla reyndar undirstaða auðs og hafði svipaðan sess og þekkingariðnaðurinn í dag. Þannig erum við að losa okkur við fyrirtæki sem sem hafa einna mesta burði til að standa undir hagvexti framtíðarinnar.

Reynum að frelsa eigin huga
Ég hvet alla til að frelsa sinn eigin heila frá rétthugsun eigin og annarra á nýju ári. Aðeins með frjálsan huga að vopni getum við tekist á við málefni samtímans og framtíðarinnar þannig að við eigum von um sæmilegan sigur og skemmtilegt og spennandi líf.

Gleðilegt nýtt ár. 

Smári

 01.01.06 Smári Kristinsson smari@raforninn.is      

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *