Ný skýrsla um CT og geislaálag

Umræðan um geislaálag af CT rannsóknum var enn áberandi á RSNA 2007. Áhersluatriðin voru notkun straummótunarbúnaðar, lögun rannsóknar að hverjum sjúklingi og, hjá sumum fyrirlesurum, fækkun CT rannsókna, innan skynsamlegra marka. Á sömu nótum er ný og einstaklega vönduð skýrsla sem birtist nýlega í New England Journal of Medicine.

Hópleit getur fallið innan marka
Fækkun rannsókna fellur að sjálfsögðu ekki í kramið hjá þeim sem vilja nota CT í hópleit (screening) hjá einkennalausu fólki en orðalagið “innan skynsamlegra marka” getur falið í sér að skera ekki niður vel ígrundaða notkun CT rannsókna til leitar hjá fólki í áhættuhópum.

Frábærlega framsett efni
Í fyrrnefndri skýrslu er farið markvisst yfir einfaldar skýringar á tölvusneiðmyndatöku og þeim rannsóknum sem gerðar eru. Síðan koma nákvæmari skýringar á geislaálagi og áhrifum geislunar á vefi líkamans. Niðurstöðurnar sem raktar eru síðast gefa skýra mynd af stöðunni eins og hún er, ásamt möguleikum til að bæta úr.
Skýrslan er sérlega aðgengileg með fjölda tafla og hlekkja til að kynna sér dýpra það efni sem verið er að fjalla um.

Nýtum tæknina án ágalla
Talsvert af efni tengdu geislaálagi í CT hefur birst hér á www.raforninn.is undanfarið og má þar nefna umfjöllun um grein í Diagnostic Imaging um möguleika á að nota upplýsingar úr kalkmælingu til að minnka geislaálag við CT kransæðarannsóknir og frétt um nýtt rit frá ICRP um geislavarnir í CT. 
Það er greinilegt að myndgreiningarfólk um allan heim þarf að taka sig rækilega saman í andlitinu til að hægt sé að nýta alla hina dásamlegu kosti CT tækjanna, sem bjóða upp á sífellt fleiri möguleika, án þess að auka geislaálag á sjúklinganna úr hófi fram.

10.12.07 Edda Aradóttir  edda@raforninn.is  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *