Ný ríkisstjórn.

Í dag tekur ný bráðabrigðaríkisstjórn við völdum á Íslandi. Fjármálakerfi landsins er í rústum og mikil óvissa um framtíðina því engin veit hvaða fyrirtæki eða einstaklingar verða hruninu næst að bráð.
Nýr heilbrigðisráðherra er Ögmundur Jónasson sem er maður mikilla ríkisafskipta og andstæðingur einkarekstrar, enda er maðurinn líka formaður BSRB.

Almenningur er reiðubúinn að leggja mikið á sig.
Íslendingar eru áhlaupafólk og menn vilja gjarnan ráðast grimmilega á kreppuna. Fram til þessa hefur vantað alla burði hjá forystufólki okkar til að fylkja liði að baki nauðsynlegum ákvörðunum.
Ég held að almenningur væri tilbúinn að leggja mjög mikið á sig, núna strax, og standa vörð um samhjálpina og skólana ef þokkaleg tilfinning væri fyrir því að rétt sé gefið.

Í heilbrigðiskerfinu þarf að hagræða af skynsemi.
Heilbrigðiskerfið er umfangsmikið og þar þarf örugglega að spara stórar fjárhæðir á þessu og næsta ári. Aldrei má þó gleymast að heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum hvers þjóðfélags, án öflugs heilbrigðiskerfis verður íslenskt þjóðfélag minna virði. Okkar kerfi verður að standast alþjóðlegan samanburð og vera í nánu samstarfi við heilbrigðisrekstur í nálægum löndum. Ef það hrynur verður enduruppbyggingin dýr og líklegt að verulegur hluti flóknari þjónustu færðist til útlanda.
Talið er að meira en þriðjungur af framleiðslu íslenska heilbrigðiskerfisins sé rekinn af einkaaðilum og fyrir því er löng hefð. Tryggingakerfið nær að mestu til allrar þjónustu, hvort sem hún er veitt af ríki eða einkaaðlium. Takmörkuð þekking er til á hagkvæmni einstakra rekstrareininga sem gerir mönnum erfitt fyrir í allri hagræðingu.

Minnkandi greiðslugeta sjúklinga.
Heilbrigðisgeirinn verður þessar vikurnar var við minnkandi greiðslugetu viðskiptavina sinna sem sumir hætta við rannsóknir, jafnvel í þeim tilfellum þar sem hlutur sjúklings nemur smáum upphæðum. Á þessu er erfitt að taka því það er mjög einstaklingsbundið hvort fólk setur eigið heilbrigði í forgang. Þess vegna getur verið erfitt að beina hjálpinni til þeirra sem hana þurfa, sem er gömul og ný saga.
Það hefur lengi verið opinbert leyndarmál, að illa staddir einstaklingar hafa ekki haft
efni á þeirri þjónustu heilbrigðiskerfisins þar sem krafist er greiðsluþátttöku, enda reglurnar væntanlega settar þeim til höfuðs, því eitt af markmiðum með greiðsluþátttöku er neyslustýring.

Jón og séra Jón.
Í Bandaríkjunum eru frjálsar heilbrigðistryggingar sem stýra að miklu leiti heilbrigðiskerfinu. Bandaríska tryggingakerfið þykir óréttlátt og dýrt og þegar
okkar stjórnmálamenn gagnrýna það enda þeir yfirleitt á að fullyrða að við búum við besta heilbrigðiskerfi í heimi. Ég hef samt á tilfinningunni að þeir sæki hlutfallslega meiri heilbrigðisþjónustu til útlanda en almennt gerist.

Hvernig er hægt að hjálpa þeim sem verst eru staddir?
Til að draga úr óréttlæti kerfisins eru lang flestir heilbrigðisrekstraraðilar í Bandaríkjunum með kvóta fyrir fólk sem ekki getur greitt fyrir þjónustu. Ég hef heimsótt myndgreiningardeildir þar sem deildirnar úthluta kvótanum á læknana sem senda til þeirra, vegna þess að þeir eru oft í mikilli nálægð við sjúklinginn og þekkja hagi hans vel.
Hér á landi gegna sjúkrasjóðir verkalýðsfélagana því hlutverki að taka þátt í heilbrigðiskostnaði sem Tryggingastofnun greiðir ekki, en bætur þeirra til sjúklinga hafa lengst af verið einn af skattstofnun ríkisins og hafa um það mál oft verið líflegar umræður, þar sem sýnt er fram á að stór hluti tiltölulega lítilla bóta rennur beint í ríkissjóð. Í kringum þetta allt er skriffinnska og vesen sem bágstatt fólk er ekki endilega fært um að standa í.
Í sumum nálægum löndum er engin greiðsluþátttaka sjúklinga en þar er stýringing eftir öðrum leiðum, sem einnig eru vafasamar, t.d með því að úthluta heimilislæknum kvótum fyrir sérfræðiþjónustu.
Þetta er mál sem nýr heilbrigðisráðherra þarf að taka á með skýrum hætti.

Tvö höfuðatriði.
Það er einkum tvennt sem menn verða að hafa í huga við hagræðingu í heilbrigðiskerfinu.

1) Að allar aðgerðir styrki heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið.

2) Að að ásættanlegt réttlæti gildi varðandi allan aðgang að þjónustunni.

Við óskum nýrri ríkisstjórn velfarnaðar. 

02.02.09 Smári Kristinsson  smari@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *