Nordic Congress 2007


Norræn ráðstefna myndgreiningarfólks, Nordic Congress, verður haldin í Malmö dagana 9. – 12. maí 2007. Íslendingar koma að ráðstefnunni, bæði skipulagningu og fyrirlestrahaldi og íslenskt myndgreiningarfólk er hvatt til að sækja þessa áhugaverðu ráðstefnu.

Norræn samvinna
Alþjóðanefnd Félags geislafræðinga kemur að undirbúningi ráðstefnunnar, eins og verið hefur undanfarin ár, en ráðstefna sem þessi er haldin á tveggja ára fresti og til skiptis á hverju norðurlandanna. Norrænn fulltrúi Félags íslenskra röntgenlækna er einnig í sambandi við undirbúningsnefnd en í ár er það sænskt myndgreiningarfólk sem ber hitann og þungann af Norrænu rásðstefnunni og axlar þá ábyrgð greinilega með miklum metnaði. Dagskráin er einstaklega fjölbreytt og áhugaverð fyrir allar starfsstéttir.

Gösta Forssell lecture
Ef rennt er yfir það sem í boði er og einungis nefnd örfá atriði, þá stöldruðu augu mín að sjálfsögðu við Forssell fyrirlesturinn sem er einn af föstum punktum hverrar Norrænnar ráðstefnu, í ár haldinn af Nic Gourtsoyiannis og fjallar um segulómun bólgusjúkdóma í smágirni. Sama dag, miðvikudaginn 9. maí, væri til dæmis einnig áhugavert að fylgjast með fyrirlestrinum “Radiographers profession and development”.

Nýburar, hjartarannsóknir, mammó og PET
Á fimmtudeginum 10. maí er mjög margt athyglisvert í boði og ég ætla að nefna fyrirlestra með yfirskriftunum “The very young patient”, “The heart – diagonosis and treatment”, “Breast tomosynthesis” og “PET – CT”. Vinnubúðir um gæðatryggingu í stafrænni myndgreiningu, “Workshop – Kvalitetssäkring inom digital radiology” hljómar líka mjög spennandi. 

Íslendingar til sóma
Hvað föstudaginn 11. maí varðar er dagskráin heldur ekki af verri endanum og Íslendingar komast ekki hjá því að taka eftir nafni eins af fyrirlesurum dagsins en það er Jónína Guðjónsdóttir, geislafræðingur hjá Röntgen Domus, sem flytur erindið “Radiation doses and optimizing”. Það er frábært að sjá sífellda aukningu á framlögum íslensks myndgreiningarfólks til ráðstefna á erlendri grund og full ástæða til að þakka og hrósa þeim sem leggja mikla vinnu í rannsóknaverkefni og fyrirlestra sem eru okkur til sóma hvar í heiminum sem er.

Gæðamál í víðu samhengi
Af öðrum áhugaverðum fyrirlestrum þennan dag má nefna umfjöllun um geislavarnir “Strålskydd” og einnig um gæðastýringarkerfi “Quality management system”. Franskir fyrirlesarar segja frá reynslu af verkefni í Afríku “Supporting African radiographers over a period of twelve years” og enn verður komið að gæðamálum í erindinu “Ultraljud – QA och utveckling”. Tveir fyrirlestrar um stjórnun og samvinnu “Turbulent times in managing imaging departments” og “Kommunikation, motivation och samarbete” gefa áreiðanlega tækifæri til að velta þeim málum fyrir sér og sjá sitt eigið vinnuumhverfi frá nýjum sjónarhóli.

Skuggaefni og öryggi sjúklinga
Laugardagurinn 12. maí státar af glæsilegri dagskrá, til dæmis er fjallað um forritið “Omnivis” sem gerir útreikninga á hæfilegu magni skuggaefnis fyrir hvern sjúkling einfalda og örugga. Þetta forrit hefur verið nefnt í Arnartíðindum í tengslum við umfjöllun um skuggaefni, ekki síst í skrifum Viktors Sighvatssonar, röntgenlæknis.
Yfirskriftir nokkurra annarra áhugaverðra atriða þennan dag eru “New ultrasound Doppler techniques”, “Diagnostic imaging of soft tissue tumors and tumorlike masses”, “MDCT -radiation dose and image quality. How to balance them?”, “CT in skeletal trauma”, “Geriatric radiology” og “Klinisk funktionell MR”.

Hér hefur einungis verið tæpt á örfáum atriðum í metnaðarfullri og spennandi dagskrá. Það er svo sannarlega full ástæða til að hvetja íslenskt myndgreiningarfólk til að sækja Nordic Congress í Malmö þetta árið til að halda við fagþekkingu sinni og auka hana.

26.02.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *