Einn af hápunktum RSNA ár hvert eru “New Horizons” fyrirlestrarnir sem fluttir eru á setningarhátíðinni. Í ár talaði Dr. Sanjiv S. Gambhir um byltingu í krabbameinsgreiningu og Dr. Atul Gawande um notkun einfaldara gæðaverkfæra, s.s. gátlista. Dr. Gawande hefur ódrepandi áhuga á aðferðum til að hjálpa fagfólki sem ber ábyrgð á flóknum verkefnum að einfalda daglega vinnu og auka öryggi.
Leggja þarf áherslu á snemmbúna greiningu
Sanjiv Sam Gambhir er prófessor við Stanford University og yfirmaður sérstakrar stofnunar á vegum háskólans, Canary Center for Cancer Early Detection, sem heldur utan um rannsóknir varðandi greiningu krabbameina á byrjunarstigi.
Grunnurinn í hugmyndafræði hans er að sú áhersla sem hefur verið lögð á að finna og lækna langt komin krabbamein þjóni sjúklingum ekki nægilega vel. Hann sagði í fyrirlestri sínum að 100 sinnum meiri fjármunum væri varið í meðhöndlun langt genginna sjúkdóma heldur en sjúkdóma á frumstigi, einkum þegar um krabbamein væri að ræða. Þessu væri mikilvægt að breyta, til hagsbóta fyrir sjúklinga.
Nýjar greiningaraðferðir til viðbótar þeim eldri
Dr. Gambhir lýsti nýjum aðferðum til að greina krabbamein á frumstigi, m.a. notkun örsmárra, segulmagnaðra agna til að merkja prótein sem gefa vísbendingar um krabbamein. Þessa aðferð sagði hann bæði vera tiltölulega ódýra og fljótlega.
Hann sagði einnig frá notkun ómtækja til að magna og staðsetja þau merki sem greina þarf, auk þess sem hann lýsti enn einni nýjung þar sem notað er samspil ljóss og hljóðs til að búa til mynd af krabbameinssameindum.
Hann lagði áherslu á að engin ein aðferð mundi nokkurn tíma duga til að sigra í kapphlaupinu um að greina krabbameinsfrumur áður en þær ná að ógna lífi einstaklingsins. “Þetta snýst ekki um hvaða aðferð sé best”, sagði Gambhir. “Til að greina krabbamein á frumstigi þarf að vinna saman um að nýta kosti margvíslegra aðferða.”
Byltingarkenndur árangur með einföldum og þrautreyndum aðferðum
Atul Gawande er yfirmaður skurðdeildar Brigham and Womens Hospital en starfar einnig á fleiri stöðum, meðal annars sem yfirmaður átaks WHO til aukins öryggis við skurðaðgerðir. Auk þess er hann fastapenni hjá tímaritinu New Yorker og hefur gefið út þrjár bækur. Sú nýjasta heitir “The Checklist Manifesto” og fjallar um gæði í heilbrigðisþjónustu, öryggi sjúklinga og einföld gæðaverkfæri eins og gátlista. Aðferðafræðin er m.a. sótt til fluggeirans, þar sem gátlistar hafa verið notaðir áratugum saman.
Á vefsíðu hans er hægt að hlusta á brot úr hljóðútgáfu bókarinnar og einnig er áhugavert að líta á dæmi um gátlista og gátlista um það sem þarf að hafa í huga þegar gátlisti er búinn til!
Lykillinn felst ekki í meiri kennslu eða þjálfun
Í fyrirlestrinum á RSNA talaði Dr. Gawande út frá því atriði sem hann er þekktastur fyrir, gátlista sem notaður er áður en skurðaðgerð fer fram. Hann sagði að frá því hann kom gátlistanum í umferð á eigin vinnustað hafi með notkun hans verið komið í veg fyrir eitthvert vandamál í hverri einustu viku og það undirstriki enn einu sinni þann einfalda sannleika að enginn er fullkominn.
Það er ekki hægt að skapa hámarks öryggi með endalausri fræðslu og þjálfun. Heilbrigðisstarfsfólk almennt hefur yfirdrifið nóga þekkingu til að sinna starfi sínu en enginn er undanskilinn því að gleyma stöku sinnum einhverju, ruglast í ríminu eða gera önnur mistök sem, þó þau séu lítil í sjálfu sér, geta haft alvarlegar afleiðingar. Við þurfum verkfæri eins og gátlista til að draga úr sóun og ganga úr skugga um að við séum að taka rétt næsta skref, sagði Dr. Gawande.
Hann fullyrti einnig að umbætur í heilbrigðisrekstri mundu á næstu áratugum bjarga fleiri mannslífum en öll sú læknisfræðilega vísindavinna sem fram fer á rannsóknastofum heimsins!
Aukin gæði og minni kostnaður
Kostnaður er flestum í heilbrigðisþjónustunni ofarlega í huga og Dr. Gawande lagði áherslu á að gæði heilbrigðisþjónustu héldust ekki í hendur við kostnaðinn. Í rannsóknum á kostnaði og gæðum í heilbrigðisþjónustu koma fram s.k. normalkúrfur, með útjöðrum sem markast af fáum dæmum um það besta og versta en mesta fjöldanum um miðbikið. Það athyglisverða er að hæsti kostnaðurinn og mestu gæðin eru ekki á sömu stöðum á kúrfunni. Þar sem sjúklingarnir fá besta þjónustu er kostnaðurinn ekki hæstur og þar sem mest er lagt í fullkominn tækjabúnað og annað sem kostar mikla peninga er samt verið að veita ófullkomna þjónustu.
Rannsóknir innan heilbrigðisgeirans sýna líka að öruggari stjórnkerfi þýða þar eins og annarsstaðar minni sóun, færri óhöpp og lægri rekstrarkostnað
Gæðaverkfæri lögð að jöfnu við mikilvæg lyf
“Ef ég hefði fundið upp lyf sem fækkaði fylgikvillum við skurðaðgerðir jafn mikið og gátlistinn gerir væri ég marg-milljarðamæringur,” sagði Dr. Gawande. Hann undirstrikaði að einföld gæðaverkfæri, t.d. gátlistar, verklagsreglur og vinnuleiðbeiningar geti gert gagn á við mörg af þeim lyfjum sem markað hafa tímamót í sögu læknisfræðinnar. Það sem þarf er breyting á viðhorfum og því hvernig við hugsum um það sem við gerum.
Ég þakka Smára Kristinssyni og Eiríki Þorbjörnssyni fyrir þeirra innlegg.
06.12.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is