Námskeið um sameindamyndgreiningu

 
Námskeið um sameindamyndgreiningu, sem haldið var á vegum Endurmenntunar HÍ 10 nóvember sl., var sérlega áhugavert. Aðalfyrirlesari var Mark van Buchem en ekki var síður gagnlegt að heyra sjónarhorn krabbameins- og hjartalækna. Pallborðsumræður voru mjög faglegar og svöruðu mörgum spurningum.

Vilmundur Guðnason, læknir í Hjartavernd, hafði umsjón með námskeiðinu, ásamt Sigurði Sigurðssyni, geislafræðingi.

Í örstuttu máli
Kynningartexti námskeiðsins gefur einfalda mynd af tækninni:
Sameindamyndgreining (Molecular Imaging) er notuð til að greina og mæla líffræðilegar breytingar á frumu – eða sameindastigi í líkamanum. Í blóðrás er sprautað kanna (probe) sem leitar uppi ákveðnar frumur eða sameindir, t.d. þar sem byrjandi sjúkdóm er að finna. Líffærafræðileg staðsetning sjúkdómsins er svo mynduð með segulómun, PET (Proton Emission Tomography), tölvusneiðmyndun (TS) eða PET samtengdu TS. Helsti ávinningur sameindamyndgreiningar er uppgötvun og greining sjúkdóms á byrjunarstigi áður en líffærafræðilegar breytingar eiga sér stað og jafnvel áður en sjúklingur fær einkenni.
Þessir eiginleikar tækninnar eru taldir leiða til gríðarlegrar fjölgunar myndgreiningarrannsókna á næstu árum vegna skimunar, t.d. á vel afmörkuðum hópum fólks sem hefur aukna áhættu á að þróa með sér krabbamein og hjarta- og æðasjúkdóma.

Grein um sameindamyndgreiningu
Einnig má benda á fróðlega grein eftir Sigurð Sigurðsson sem birtist hér á vefsetrinu fyrir rúmu ári.

Evrópsk rannsóknamiðstöð
Í frétt Arnartíðinda 02.10.06, um breytingar á Evrópusamstarfi röntgenlækna, kom fram að stofnuð hefur verið ný rannsóknamiðstöð um sameindamyndgreiningu, European Institute for Biomedical Imaging Research (EIBIR). Á vefsíðunni www.eibir.org er að finna ýmsan fróðleik fyrir þá sem áhuga hafa.

Námskeiðið
Fyrstan kynnti Vilmundur prófessor Mark van Bucheim frá Háskólasjúkrahúsinu í Leiden í Hollandi sem undanfarið hefur kynnt sér allt það nýjasta í sameindamyndgreiningu, við Harvard háskóla.

Marsbúinn og njósnarinn
Prófessor van Bucheim var fljótur að gera fólki grein fyrir mismun sameindamyndgreiningar og hefðbundinnar myndgreiningar. Hann tók dæmi af einhverjum úti í geimnum, Marsbúa, sem vildi vita hvar Háskóli Íslands væri. Marsbúinn hefur tvær leiðir færar: Hann getur notað “Black Bird” njósnaflugvél sem tekur geysinákvæmar myndir af allri jörðinni og hægt er að þrengja leitarsvæðið næstum óendanlega. Hinsvegar getur hann ráðið njósnara sem dulbýr sig sem fyrirlesari á leið til að halda námskeið í HÍ og lætur segja sér til vegar.
“Black Bird” aðferðin er sambærileg við hefðbundna myndgreiningu. Við miðum á líklegt svæði, þrengjum það sífellt og vonumst til að rekast á meinið. Gallinn er sá að það getur dulist innan um ótal eðlileg atriði, eins og HÍ innan um önnur hús, og e.tv. finnum við það aldrei.
Njósnarinn líkist sameindamyndgreiningu. Við getum sent efni inn í líkamann sem “þykjast” eiga heima í meinsemdinni og þau sýna okkur nákvæmlega hvar hún er.
Eftir sérlega góða umfjöllun prófessors van Bucheim um efni sem nothæf eru í kanna og myndgreiningaraðferðir sem nýtast til að fylgja ferð kannans um líkamann var komið að Ólafi Kjartanssyni, röntgenlækni.

Myndgreiningarfólk má ekki sofna á verðinum
Hann flutti stutt erindi, ekki síst til að skapa umræðugrundvöll, þar sem hann sagði meðal annars að nú stefndum við frá líffæramiðaðri myndgreiningu til sjúkdómsmiðaðar. Einnig lagði hann áherslu á að ef myndgreiningarfólk aflar sér ekki viðeigandi þekkingar á sameindamyndgreiningu er raunveruleg hætta á að myndgreining glati sessi sínum sem einn af máttarstólpum heilbrigðiskerfisins. Mikilvægt er að hvetja yngri kynslóðir myndgreiningarfólks á þetta svið, ásamt því að ýta undir rannsóknir og aðstöðu til þeirra. Ólafur sagði samvinna heilbrigðisstétta jafnvel mikilvægari við sameindamyndgreiningu en annarsstaðar innan myndgreiningar og þá ekki síst við sameindalíffræðinga.
Teikn í viðskiptaheiminum bera einnig vott um mikilvægi sameindamyndgreiningar og nefndi Ólafur að sameining GE og Amersham Bioscienes (í GE Healthcare) og svo Siemens við Bayer Diagnostics sýndi að þessi fyrirtæki væru að búa sig undir sprengingu í sameindamyndgreiningu.

Myndgreining krabbameina
Þá var komið að Helga Sigurðssyni, prófessor í krabbameinslækningum, sem gaf innsýn í möguleika og væntingar fólks í sinni grein varðandi sameindamyndgreiningu.
Hann sagði ný krabbameinslyf gefa góða von um raunverulega byltingu í meðhöndlun krabbameina. Þessi lyf eru svokölluð “targeted drugs” sem bindast aðeins ákveðnum viðtökum á frumum og halda sjúkdómnum niðri, ef meðhöndlun er hætt fer hann aftur af stað. Helgi sagði mánuðarskammt af slíkum lyfjum kosta um 500 000 kr. og því augljóslega mikilvægt að geta séð fljótt hvort þau eru í raun að ná takmarki sínu. Við sameindamyndgreiningu er hægt að nota merkt efni sem bindast sömu viðtökum og lyfin til að sjá hvort þau skila sér á réttan stað og krabbameinsfrumurnar eru að láta undan.

Sjúklingar sendir frá Íslandi
Æxli er í raun ekki sjúkdómurinn, hann er genabundinn og takmarkið er, sagði Helgi, að meðhöndla krabbamein sem krónískan sjúkdóm. Þá þarf nauðsynlega að vera hægt að fylgjast með áhrifum lyfja til að stilla meðferð alltaf rétt. Bylting í meðhöndlun krabbameina þarfnast líka byltingar í myndgreiningu krabbameina. PET CT hefur gert gott gagn og í hverjum mánuði eru 2 – 3 sjúklingar frá Íslandi sendir erlendis í slíka rannsókn. Mun fleiri mundu hafa gagn af því og sem dæmi um áhrif sameindamyndgreiningar nefndi Helgi að í Danmörku hefðu rannsóknir sýnt að heil 70% þarlendra krabbameinssjúklinga fengju að einhverju leyti breytta meðferð eftir slíka rannsókn.

PET CT til Íslands?
Talsverðar umræður sköpuðust að þessu loknu og meðal annars kom fram hjá Ólafi Kjartanssyni að Landspítali – Háskólasjúkrahús sækti nú fast að fá aðstöðu og tæki til PET CT rannsókna og vonast væri til að af því yrði þegar nýja hátæknisjúkrahúsið verður að veruleika.

Myndgreining hjartasjúkdóma
Guðmundur Þorgeirsson, hjartasérfræðingur, sá um að greina frá sjónarhorni sinnar sérgreinar. Hann sagði að sama mætti segja um kransæðaþrengsli og krabbameinsæxli, þau eru ekki sjúkdómurinn sjálfur heldur í raun einkenni. Mjög mikilvægt væri að geta vitað hvar væri hætta á að fita losnaði úr skellu (plaque) í æðavegg og yrði að blóðtappa. Þessar óstöðugu skellur sagði hann að sýndu yfirleitt sýkingareinkenni og með sameindamyndgreiningu ætti að vera auðvelt að finna þær.

Einnig er mikilvægt að sjá breytingar í æðaveggjum á frumstigi. Það getur breytt meðferð eða orðið til þess að henni er beitt. Ef til vill væri þá beitt blóðfitulækkandi lyfjum og sýklalyfjum. Vegna þess að vandinn sæist fyrr gæti meðferðin orðið önnur en í dag.

Pallborðsumræður
Í pallborðsumræðum kom fram hjá Vilmundi Guðnasyni að rannsóknir Hjartaverndar sýndu að 80% alvarlegra hjartasjúkdóma verða hjá fólki í þeim áhættuhópi sem telst hafa “moderate risk”. Þetta er hópurinn sem flestir Íslendingar lenda í. Það vantar leið til að finna hverjir það eru sem koma til með að veikjast illa.
Mark van Bucheim sagði að sumar atherosclerotiskar breytingar væri nú þegar hægt að rannsaka með sameindamyndgreiningu. Það væri þó mest í hálsæðum, slíkar rannsóknir fyrir kransæðar væru styttra á veg komnar en stöðug þróun í gangi.

Nýtist á mörgum sviðum
Sameindamyndgreining nýtist í fjölmörgum öðrum tilvikum en við krabbamein og hjartasjúkdóma. Eitt af þeim sviðum eru rannsóknir á Alzheimers sjúkdómi, þar sem hægt væri að greina breytingar allt að 15 árum áður en þær greinast t.d. með segulómun.

Kembileit
Einnig var rætt um kembileit (screening) með sameindamyndgreiningu, kosti hennar og galla. Vel mætti t.d. hugsa sér að þegar Human Genome verkefnið verðu komið enn lengra og hægt verður að kortleggja genamengi hvers og eins, án óþolandi kostnaðar, væri kerfisbundið leitað að þeim sjúkdómum sem hver og einn ætti helst hættu á að fá og þeir meðhöndlaðir á frumstigi.
Kembileit býður þó að vissu leyti upp á vandamál því, eins og Helgi Sigurðsson sagði, þá viljum við t.d. alls ekki vita um öll krabbamein. Hann sagði stóran hluta fólks sem komið væri um og yfir miðjan aldur hafa krabbamein einhversstaðar í líkamanum sem aldrei nokkurn tíma mundi gefa nein einkenni. Kembileit gæti því mögulega valdið ástæðulausum ótta og leitt til ofmeðferðar.

Höldum áfram
Í þessari grein hefur aðeins verið tæpt á því helsta sem fram kom á námskeiðinu þann 10.11.06. Ég vil eindregið hvetja myndgreiningarfólk til að kynna sér sameindamyndgreiningu sem best og vinna kerfisbundið að því, með hjálp þeirra sem mundu nýta sér þjónustuna, að hægt verði að bjóða upp á slíkar rannsóknir hérlendis innan fárra ára. 

13.11.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *