Myndgreiningarmarkaðurinn heldur áfram að vaxa.


Í nýrri skýrslu frá Global Markets Direct er heimsmarkaður fyrir myndgreiningartækni metinn á 15.8 milljarða bandaríkjadala og reiknað með 7% árlegum vexti (compound annual growth rate). Það þýðir að árið 2015 verðum við hluti af markaði upp á 24.6 milljarða dala!

Uppbygging heilbrigðisþjónustu og krafa um rafrænar sjúkraskrár.
Höfundar skýrslunnar sjá uppbyggingu nýrra sjúkrahúsa í Kína, Indlandi og Bandaríkjunum sem helsta drifkraft heimsmarkaðsins næstu árin. Einkareknum myndgreiningarstöðum muni einnig fjölga hratt og stjórnvöld í mörgum löndum þrýsta fast á um aukna notkun á rafrænum sjúkraskrám.

Ómun og PET á mikilli siglingu.
Myndgreiningarmarkaðnum í heild er spáð þessum mikla vexti á krepputímum en í skýrslunni kemur fram að líklegur ársvöxtur þess sem tengist ómun verði tveim prósentustigum hærri, eða 9% CAGR næstu 7 árin. Spáð er að sameindamyndgreining auki markaðsvirði með hraðanum 9% CAGR, fyrst og fremst vegna aukinnar notkunar PET í Evrópu og meiri greiðsluþáttöku ríkisins í Bandaríkjunum vegna PET rannsókna. 

Vanmetum ekki möguleika okkar.
Þetta er glæsileg spá fyrir fagið okkar á erfiðum tímum og kemur eins og vítaminsprauta inn í allar niðurskurðar- og kreppufréttirnar. Það er mikilvægt að myndgreiningarfólk sjái tækifærin sem okkur bjóðast, umfram aðrar heilbrigðisstéttir, og nýti sér þau.
Hugsum út fyrir þennan margfræga kassa og leitum leiða, bæði innan lands og utan, til að skapa bjarta framtíð.

12.10.09 Edda Aradóttir ea@ro.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *