Myndgreiningardeild Hjartaverndar


Bylting í myndgreiningu í Hjartavernd
Myndgreiningardeild Hjartaverndar var sett á laggirnar í beinum tengslum við Öldrunarrannsóknina sem hófst á vordögum árið 2002. Umsvif Hjartaverndar jukust mikið með tilkomu Öldrunarrannsóknarinnar og varð að flytja starfsemina í um 3000 m2 húsnæði að Holtasmára í Kópavogi en áður, allt frá stofnun Hjartaverndar árið 1967, var fyrirtækið í um 400 m2 húsnæði í Lágmúla í Reykjavík. Fyrir Öldrunarrannsóknina fór reyndar fram myndgreining í tengslum við Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar sem takmarkaðist við röntgenmyndatökur af lungum sem fram fóru um nokkurt skeið. Það var því stórt skref að opna stóra, velútbúna myndgreiningardeild sem var sú fyrsta filmulausa á Íslandi. 

Sérstaða fólgin í vísindarannsóknum
Lengst af var myndgreiningardeildin eingöngu rekin í tengslum við Öldrunarrannsóknina sem er samstarfsverkefni Hjartaverndar og bandarísku Öldrunarstofnunarinnar (NIA) en undanfarin tvö ár hefur einnig farið fram myndgreining í annarri vísindarannsókn sem kölluð er Áhættuþáttakönnunin og felur í sér fjölda mælinga á áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma í um 3000 einstaklingum. Bæði Öldrunarrannsóknin og Áhættuþátttakönnunin eru faraldsfræðirannsóknir þar sem í vísindaskyni er leitast við að rannsaka stóra hópa einstaklinga og kanna breytileika á milli einstaklinga í hópunum. Breytileikinn getur verið afar lítill og því þarf nákvæmar rannsóknir á miklum fjölda einstaklinga til að fanga hann. Í hefðbundinni myndgreiningu sem fram fer á sjúkra- eða heilsustofnunum eru myndir venjulega teknar og röntgenlæknir lýsir því í orðum sem sést á myndunum. Slík aðferð hentar illa í faraldsfræðirannsóknum þar sem reynst getur erfitt að bera saman niðurstöður þúsunda einstaklinga. Þess í stað eru myndir teknar og leitast við að breyta þeim í tölur sem endurspegla ástand þess líkamsvefs sem rannsóknin beinist að hverju sinni. Á þennan hátt er auðveldara að bera saman niðurstöður og koma auga á mynstur þegar tengt er við aðrar rannsóknarniðurstöður. Er þessi háttur hafður á í nærri öllum myndgreiningarrannsóknum í Hjartavernd en í því sambandi má nefna magngreiningu kalks í ósæð og kransæðum með TS, magngreiningu beinþéttni og vefjasamsetningu líkamans með TS, sjálfvirka magngreiningu heilavefja á segulóm-myndum með ofurtölvu og mælingar á þykkt hálsslagæða með ómun svo eitthvað sé nefnt.

Tilgangur útaf fyrir sig að framleiða eins lágt staðalfrávik og hægt er
Í myndgreiningu er kappkostað að framkvæma hverja myndatöku eða mælingu eins á hverjum einstaklingi og það nákvæmlega til að hámarka samanburðagildi rannsókna. Mjög víðtækt starf á mörgum ólíkum sviðum fer fram á myndgreiningardeildinni og utan hennar til að tryggja einsleitni gagna og samanburðargildi rannsókna. Í þessu sambandi má nefna öflugt gæðaeftirlit á tækjabúnaði og á mælingum sem starfsmenn gera. Á segulómtæki og TS tæki eru gerðar mismundandi stöðugleikaprófsmælingar á hverjum degi og stundum oft á dag. Sérfræðingar og ráðgjafar endurmæla stóran hluta af þeim mælingum sem starfsmenn gera á myndum til að kanna hvort mælingar séu gerðar rétt. Eins framkvæma starfsmenn reglulega endurteknar mælingar á sömu myndum/rannsóknum til að prófa endurtekningarhæfni. Tækjabúnaður er einungis uppfærður eða honum breytt ef algjöra nauðsyn ber til því smávægilegar breytingar t.d. í hugbúnaði segulómtækis geta leitt til stórrar skekkju í rannsóknaniðurstöðum sem erfitt getur reynst að leiðrétta. Allir þessir þættir eru útfærðir svo staðalfrávik mælinga tilkomið vegna mælióvissu verð eins lágt og mögulegt er. Lykillinn að því að það heppnist er öflugt starfsfólk en Hjartavernd hefur á að skipa frábæru starfsfólki sem leggur mikinn metnað í þá krefjandi rannsóknarvinnu sem fram fer á myndgreiningardeildinni.

Úrvinnsla mynda í höndum geislafræðinga
Að minnsta kosti helmingur þeirrar vinnu sem geislafræðingar inna af hendi á myndgreiningardeildinni snýr að úrvinnslu mynda. Þessi vinna felur ýmist í sér merkingar og mælingar á ákveðnum vefjum eða túlkun á útliti og ásigkomulagi vefja. Hann er því í minnihluta sá tími sem geislafræðingar nota til myndataka sem venjulega er aðalstarf geislafræðinga á öðrum vinnustöðum.

Áframhald á Öldrunarrannsókn Hjartaverndar til ársins 2012
Nýverið voru undirritaðir samningar af hálfu Hjartaverndar og bandarísku Öldrunarstofnunarinnar um að ráðist skyldi í 2. áfanga Öldrunarrannsóknarinnar. Eins og kunnugt er hófst fyrsti áfanginn árið 2002 og lauk í upphafi árs 2006. Áætlað er að gagnasöfnun 2. áfanga Öldrunarrannsóknarinnar fari fram frá apríl 2007 til ársloka 2011. Stefnt er á að bjóða öllum þátttakendum úr 1. áfanga rannsóknarinnar að taka þátt í 2. áfanga. Búist er við að mögulegt verði að skoða 4000-4500 einstaklinga. Þeir sem þiggja boðið verða kallaðar inn í sömu röð og í 1. áfanga Öldrunarrannsóknarinnar. Þannig mun að jafnaði líða um 5 ár á milli rannsókna í 1. áfanga og 2. áfanga Öldrunarrannsóknarinnar hjá hverjum þátttakanda. Í megin atriðum verða flestar þær mælingar sem gerðar voru í 1. áfanga endurteknar í 2. áfanga, þar með taldar myndgreiningarrannsóknir. Þannig verða áfram gerðar víðtækar rannsóknir á heila, hjarta og stoðkerfi með segulómun, TS og ómun. Eins er stefnt að framkvæmd fjölda myndgreiningarrannsókna á sérvöldum hópum innan Öldrunarrannsóknarúrtaksins þar sem notuð verður önnur tækni en á allan hópinn. Hvað varðar myndgreiningu verður svipaður fjöldi starfmanna og í 1.áfanga. Búast má við að við Öldrunarrannsóknina verði um 40 starfsmenn þar af um 15 við myndgreiningu. 

04.06.07 Sigurður Sigurðsson  sigurdur@hjarta.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *