Segja má að myndgreiningardeild FSA sé enn einu sinni á tímamótum, í margþættum skilningi. Frá röntgenfilmum yfir í stafrænar myndir, frá pappírsbeiðnum yfir í rafrænar beiðnir, nýr forstöðulæknir og yfirgeislafræðingur, nýir starfsmenn, ný tæki o.m.fl.
Al-stafræn og al-filmulaus deild:
Frá miðju ári 2004 höfum við geymt stafrænar myndir úr tölvusneiðmyndum, segulómun og skyggnibúnaði þar sem notast var við e-film hugbúnað við skoðun og úrlestur.
Í maí 2006 var stigið það stóra skref á myndgreiningardeild FSA að gera deildina allt að því al-stafræna. Var það gert með kaupum á Kodak CR búnaði (sem tengdist tveimur röntgenstofum og einu brjóstamyndatökutæki) og Kodak PACS hugbúnaði með tilheyrandi vinnustöðvum, fjórum talsins, ásamt stafrænni gagnageymslu. Þar með eru yfir 95% rannsókna á deildinni orðin stafræn en eftir eru ísótóparannsóknir og myndir teknar á skurstofu-skyggnimagnara. Í janúar 2007 samþykkti spítalastjórn FSA að tengja þessar tvær loka-einingar við stafræna kerfið og þar með ljúka ferlinu og gera deildina al-stafræna. Starfsmenn tæknideildar spítalans eru nú að festa kaup á þessum búnaði. Í kjölfarið verður hætt að nota laser-filmuprentara og þar með hættir deildin allri filmuútprentun. Gera má ráð fyrir að deildin verði því al-stafræn og al-filmulaus sumarið 2007. Þess má geta að filmuarkíf deildarinnar hefur þegar verið flutt af deildinni.
Pappírslaus deild:
Á sama tíma og deildin varð nær filmulaus, eða í maí 2006, gerðumst við einnig pappírslaus deild. Flestar beiðnir sem berast deildinni eru nú rafrænar og þær fáu pappírsbeiðnir sem enn berast eru skannaðar beint inn í kerfið við komu og fer því pappír ekki í umferð á deildinni, sem einfaldar allt verklag verulega.
Þegar er hafin vinna við að flytja eldri gögn sjúklinga, sem voru á pappírsformi, í sameiginlega geymslu spítalans og lýkur þeirri vinnu nú í apríl 2007.
Rafrænar beiðnir:
Frá breytingunni í maí 2006, höfum við lagt mikla áherslu á að hækka hlutfall rafrænna beiðna. Í dag er hlutfall rafrænna beiðna frá læknum innan FSA yfir 80% og ef litið er á allar beiðnir sem berast deildinni er hlutfallið komið yfir 60%.
Gerum við ráð fyrir að í árslok 2007 verði yfir 90% beiðna frá læknum innan FSA rafrænar, og 80% allra beiðna.
Heilbrigðisstofnanir á Egilsstöðum, Neskaupstað, Húsavík og Sauðárkróki hafa nú þegar möguleika á að senda rafrænar beiðnir og nú á vordögum gerum við ráð fyrir að Heilsugæslan á Akureyri (HAK), Dalvík og Ólafsfjörður bætast við.
Aðgengi að röntgenrannsóknum og röntgensvörum:
Þeir sem geta sent rafrænar beiðnir eiga einnig tök á að skoða myndir, hlusta á skyndisvör og lesa staðfest röntgensvör á fljótlegan hátt. Með tilkomu Kodak PACS hugbúnaðar opnaðist mjög öflugur vef-myndaskoðari sem er að koma einkar vel út.
Kodak-RIS bókunar kerfi uppfært:
Einnig réðumst við í að uppfæra Kodak-RIS kerfið upp í svokallað „study-level“ sem gerir okkur t.a.m. kleift að bóka hægri og vinstri og gera þannig úrlestur og uppsetningu upphengiprótkolla í PACS mun vandaðari og fljótlegri. Að frumkvæði okkar hafa og munu verða gerðar fjölmargar aðrar breytingar á Kodak-RIS kerfinu í góðri samvinnu við tölvudeild FSA svo og Tölvumiðlun.
Þess má einnig geta að deildin er með útstöðvar í RIS-dagbókar-kerfinu þar sem Egilsstaðir, Neskaupstaður, Sauðárkrókur og Húsavík bóka beint í okkar RIS-dagbók, og eru þar fleiri að bætast í hópinn.
Tækjabúnaður:
Deildin er fjölbreyttasta myndgreiningardeild á landinu með hefðbundin röntgentæki, færanlegt röntgentæki, brjóstamyndatökutæki, beinþéttnimæli, skyggnibúnað, skurðstofu-skyggnibúnað, ísótóparannsóknir, ómskoðanir, tölvusneiðmyndir og segulómrannsóknir.
Flaggskip deildarinnar er nýlegt segulómtæki frá Siemens sem einnig er með fullkomnum svæfingabúnaði, sérhönnuðum fyrir sterkt segulsvið.
Í byrjun þessa árs, 2007, voru lagðar beiðnir til heilbrigðisráðuneytis um kaup á nýju 64 sneiða tölvusneiðmyndatæki, DR röntgenbúnaði, ómtæki, beinþéttnimæli svo og skurðstofuskyggnibúnaði. Þess utan má vænta DR brjóstamyndatökutækis í kringum áramótin 2007-2008 í samvinnu við Krabbameinsfélag Íslands.
Það má því segja að myndgreiningardeild FSA, svo og stjórn spítalans, séu stórhuga í að efla myndgreiningardeildina og því FSA enn frekar.
Mönnun deildarinnar:
Eftir heldur svart útlit um tíma hefur heldur betur birt til hvað varðar mönnun röntgenlækna. Haustið 2007 kom á deildina nýr röntgenlæknir, Gaurav Khera, sem er indverskur og hefur reynst mikill fengur fyrir deild jafnt sem spítala og von er á einum röntgenlækni til viðbótar nú í sumar.
Mönnun geislafræðinga er viðunandi í dag, með 8 stöður setnar af 9, en laus er ein staða geislafræðings sem ekki hefur tekist að ráða í þrátt fyrir auglýsingar innanlands. Næsta skref er að auglýsa einnig í nágrannalöndum okkar. Vil ég benda á áhugasömum geislafræðingum að hafa samband við undirritaðan (elvar@fsa.is).
Með kveðju
Elvar Örn Birgisson
Yfirgeislafræðingur á FSA
Unnið 28.03.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is