Topp fimm ástæður fyrir að velja myndgreiningu sem sérgrein: Hugleiðingar verðandi röntgenlæknis…
Númer fimm:
Engir leiðinlegir sjúklingar…
Hljómar verr en það á að gera, en það er staðreynd að einhverjir velja myndgreiningu sem sérgrein til þess að sneiða hjá því að hitta sjúklinga dags daglega. Sennilega eru það líka einhverjir sem velja ekki myndgreiningu af sömu ástæðu. Ungir læknar eru oft uppteknir af hugsjóninni að lækna og bjarga heiminum, en það er líka hægt að gera það með myndgreiningu, með því að stuðla að því að sjúklingar fái rétta greiningu á fljótan og öruggan hátt. Svo eru nú einnig stundaðar lækningar á röntgendeildum, við röntgenlæknar sinnum ýmsum inngripum og í starfi mínu hef ég undið ofan af garnaflækju í bugðuristli, víkkað þrengingu í fistli ætluðum til nota við blóðskilun, lagt inn legg í nýrnaskjóðu og tæmt út ígerðir í ýmsum holrýmun svo fátt eitt sé nefnt, ásamt því að opna stíflaðan eggjaleiðara, en það var nú meira svona skemmtileg hjáverkan. Reynsla mín er sú að þeir sjúklingar sem ég hitti í daglegu starfi mínu eru almennt lítið meðvitaðir um að til sé stétt lækna sem sinni myndgreiningu, margir setja röntgenlækna í samband við berklana og þá aðallega eldra fólk, en yngra fólk heldur gjarnan að geislafræðingar sinni bæði myndgerðinni og myndgreiningunni. Það væri að æra óstöðugan að ætla einni starfstétt að sinna báðum þáttum, vegna hraðrar þróunar tækninnar á báða bóga. Vissulega þurfa bæði geislafræðingar og röntgenlæknar að þekkja vel til starfssviðs hvers annars og ekki síst þurfa röntgenlæknar að kunna vel takmarkanir og möguleika myndgerðarinnar, enda er það röntgenlæknirinn sem ber lokaábyrgð á röntgensvarinu, röntgenrannsókn er sérfræðiálit en ekki passamyndataka.
Númer fjögur:
Mikið af skemmtilegu samstarfsfólki…
Það er gulls ígildi að eiga að góðan geislafræðing, bæði í hinu daglega starfi og ekki síst á vöktum þegar næturnar geta verið langar og reynslan skilar manni í mark á lokametrunum. Í starfi mínu hitti ég marga aðra lækna, bæði aðstoðarlækna, deildarlækna og sérfræðinga í öllum sérgreinum. Að mínu mati var samstarf við margar sérgreinar, ásamt tækninni, einn stærsti kosturinn við að velja myndgreiningu sem starfssvið, að leysa vandamál hefur alltaf höfðað til mín og snúnar greiningar eru með því allra skemmtilegasta sem ég lendi í. Oft þarf maður að leita til samstarfsfólks sem hefur fjölbreytta þekkingu og sitja og fletta upp í bókum og leita á netinu til að komast að niðurstöðu þegar um sjaldgæfa sjúkdóma er að ræða, en það gerir starfið bara skemmtilegt. Ég held að fólk sem starfar við myndgreiningu eigi auðvelt með að tileinka sér nýja þekkingu og hæfni, sem endurspeglast í stöðugri framþróun myndgreiningarinnar.
Númer þrjú:
Fjölskylduvænn vinnutími…
Auðvitað getur teygst úr vinnudeginum á röntgendeildinni eins og á öðrum deildum, en það er auðveldara að láta ólesnar rannsóknir og bráðarannsóknir í hendur á vakthafandi en að eiga eftir að skrifa 20 dagála og ganga stofugang klukkan hálffimm, meðan börnin bíða á leikskólanum þreytt og ergileg og svo á eftir að hafa til kvöldmat og svo á að skella sér í leikfimi og saumaklúbb og vakna svo snemma næsta dag til að undirbúa röntgenrond. Vaktavinna fylgir starfi á sjúkrahúsum, en röntgenlæknar vinna líka á einkareiknum myndgreingardeildum og geta því lagað vinnutímann að eigin þörfum. Álag á vöktum fer vissulega eftir starfseminni, þar sem bráðaþjónustu er sinnt eru auðvitað eitthvað um næturvinnu og næturútköll, en venjulega eru um bakvaktir að ræða og hægt að lifa nokkuð eðlilegt lífu sem röntgenlæknir. Með vinnutímatilskipun Evrópusambandsins er manni svo gert að taka út hvíldaryfirvinnu, þannig að það er orðið nokkuð erfitt að vinna yfir sig.
Númer tvö:
Mikið af dýrum tækjum sem maður fær að leika sér með…
Það eru ekki neinar deildir á sjúkrahúsunum sem eru dýrari í rekstri en röntgendeildir… Fyrir fólk sem er tæknilega sinnað er myndgreining alveg kjörin sérgrein, tölvutæknin er aðalástæða hinnar gríðarlegu framþróunar myndgreiningar á síðustu árum og verður engan veginn séð fyrir endann á henni, næstu skrefin getur enginn séð fyrir, sameindamyndgreining og starfræn segulómun voru fyrir nokkrum árum fjarlægur draumur en eru í dag orðin blákaldur veruleiki, eða réttara sagt eldheitur möguleiki.
Númer eitt:
Endalausir möguleikar varðandi sérhæfingu, vinnutilhögun, endurmenntun… Vinnutilhögun getur verið á marga vegu, nú færist mjög í vöxt að sinna fjargreiningu, auðvitað þarf að hafa geislafræðing á hverjum stað til að sinna algengustu röntgenrannsóknum, en myndgreiningu er hægt að sinna í fjarvinnu með hjálp tölvutækninnar, enda eru flestar röntgenrannsóknir nú orðnar stafrænar. Aðrar rannsóknir gera röntgenlæknar með aðstoð geislafræðinga, en röntgenlækna má færa úr stað, það er ekkert sem segir að maður þurfi að vera hlekkjaður við sama skrifborðið öll 35-40 árin af starfsævinni! Varðandi sérhæfingu innan myndgreiningarsviðsins, þá þarf auðvitað vissa stærð af röntgendeild til að slíkt geti gengið, en á almennum röntgendeildum tíðkast oft sérhæfing eftir tækninni, þ.e.a.s. ómskoðun, tölvusneiðmyndun, segulómun, inngrip o.þ.h., frekar en sérhæfing eftir líffærakerfum. Ef menn hafa áhuga á rannsóknum er af nógu að taka, röntgenlæknar koma að mörgum klíniskum rannsóknum í samstarfi við aðra lækna og hafa að mínu mati sinnt slíku af full miklu fálæti, sem kannski orsakast af mannfæð í greininni. Kennsla er einnig mikilvægur hluti af starfinu, bæði kennsla geislafræðinga, aðstoðarfólks og ekki síst læknanema, þar sem myndgreining er víða orðin hluti af sérmenntun annarra stétta, svo sem hjartalækna og æðaskurðlækna og er sjálfsagt að nota ekkert tækifæri ónýtt til uppfræðslu kolleganna hvað varðar geislavarnir og nýtingu myndgreiningar. Óhætt er að segja að atvinnumöguleikar fyrir lækna eru sennilega hvað bestir á sviði myndgreiningar, dauða hennar hefur oft verið spáð, en eins og fuglinn Fönix rís myndgreining ávallt úr öskunni með nýjar hugmyndir og aðferðir til hjálpar sjúklingum okkar.
Kær kveðja frá Svíþjóð,
Maríanna Garðarsdóttir, læknir, Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu, Gautaborg.
23.10.06