Í marshefti Hold Pusten, fagtímariti norskra geislafræðinga, áhugaverð grein um námskeið sem menaðarfullur geislafræðingur skipulagði, til að auka þekkingu geislafræðinema á slysamóttöku. Nú fá íslenskir geislafræðinemar styttri tíma í verklegu námi en áður og ástæða gæti verið til að skipuleggja námskeið af þessu tagi. Mikilvægt er að myndgreiningar- og bráðamóttökufólk skilji og virði vinnu hvers annars.
Fyrirlestrar og verklegar æfingar.
#img 1 #Um var að ræða fyrirlestra sem sérfræðingar í bráðalækningum héldu, þar með taldir skurð-, svæfinga- og bæklunarlæknar. Einnig æfingu í frum-úrlestri rannsókna af slösuðum, undir stjórn röntgenlæknis, og verklegar æfingar með teymi frá slysamóttöku. Sett var á svið móttaka slasaðs manns, með röntgenmyndatöku á slysadeild og meðferð fram að þeim tímapunkti að sjúklingurinn fór í tölvusneiðmyndatöku. Tekið skal fram að allt fólkið sem kom að námskeiðinu gaf vinnu sína!
Þessi nemahópur taldi tuttugu og fjóra og verklegu æfingarnar voru endurteknar fjórum sinnum, fyrir og eftir hádegi á tveim dögum, með sex nema í hvert skipti. Nemahópar hérlendis eru (því miður) miklu minni og hægt væri að láta tvö skipti nægja. Námskeiðið gæti þá t.d. tekið tvo daga með fyrirlestrum fyrri daginn og verklegum æfingum þann seinni.
Móttaka úr hópslysum og öðrum slysum.
Þegar tekið er á móti mikið slösuðu fólki er tíminn dýrmætur og mikilvægt að allt gangi sem snurðulausast fyrir sig. Til að svo megi verða þarf hver og einn að vita hvert hlutverk hans er og hafa þekkingu og reynslu til að sinna því. Hópslysaæfingar eru haldnar á sjúkrahúsum sem sinna slysamóttöku, þar sem farið er eftir hópslysaáætlun sem þessar stofnanir eru skyldugar til að eiga og allir hlutar sjúkrahússins virkjaðir. Venjuleg slysamóttaka er hinsvegar hvergi æfð hérlendis, ekki einu sinni hvað skal gera ef margir koma slasaðir inn í einu en eðli málsins er þannig að ekki er talin ástæða til að virkja hópslysaáætlun.
Myndgreiningarfólk hluti af bráðateymi.
Þetta efni var einmitt til umræðu á fræðslufundi læknaráðs FSA föstudaginn 12. sept. sl.
#img 2 #þar sem Jón Steingrímsson svæfingalæknir fjallaði um móttöku slasaðra og sérstaklega um tilfelli þar sem níu slasaðir einstaklingar komu í einu inn á slysadeild FSA, úr tveim bílslysum sem urðu nær samtímis örskammt frá sjúkrahúsinu. Fyrirlestur hans er aðgengilegur á vefsíðu FSA (leitið í Category Föstudagsfundir með leitarorðinu Móttaka).
Jón vitnar meðal annars í gæðaskjal frá Ullevall sjúkrahúsinu í Svíþjóð, þar sem koma fram verklagsreglur fyrir móttöku slasaðra. Það vakti athygli mína að í þessum verklagsreglum eru röntgenlæknir og geislafræðingur skilgreindir sem hluti bráðateymis og gert ráð fyrir að þeir taki frá upphafi fullan þátt í skipulaginingu þegar verið er að taka á móti mikið slösuðum sjúklingi. Einnig er skilgreint að bráðateymið beri ábyrgð á sjúklingnum í sólarhring eftir að hann kemur inn og í því felst m.a. að allir í teyminu fá að fylgjast með því sem á dag(a) hans drífur innan þess tíma.
Oft skortur á upplýsingum til myndgreiningarfólks.
#img 3 #Þetta finnst mér gott til eftirbreytni því mín reynsla af myndgreiningu í slysatilvikum hefur sýnt mér að starfsfólk bráðamóttöku, skurð-, svæfinga- og gjörgæsludeilda vinnur í teymi en myndgreiningarfólkið stendur utan við það. Okkar hlutverk virðist eingöngu vera talið að stjórna tækjunum og röntgenlæknirinn á svo að skila svari eins og hvert annað tölvuforrit! Oft fáum við ekki að vita hversu margir eru slasaðir og/eða hversu mikið, ekki hvort um er að ræða fullorðna eða börn, ekki hvenær má reikna með að hver sjúklingur verði tilbúinn til myndatöku og jafnvel ekki hvort einhver þarf sérstakan forgang. Það er hringt og sagt að það þurfi trauma CT og síðan birtast beiðnirnar hver af annarri og því miður oft með misgóðum upplýsingum.
Mikilvægt að skilja vinnu hvers annars.
Mín skoðun er sú að bæði þurfi myndgreiningarfólk tækifæri til að skilja betur hvað felst í móttöku mikið slasaðra á bráðamóttöku og bráðamóttökufólk þurfi tækifæri til að skilja betur hvernig myndgreiningin er framkvæmd og hvað þarf að hafa í huga við undirbúning sjúklinga áður en það er henst með þá í CT. Einnig þarf, eins og áður sagði, hver og einn að vita til hvers er ætlast af honum. Þarna koma einfaldar verklagsreglur að góðu gagni og í þeim þyrfti að vera aðgangur að nákvæmari upplýsingum, sem fólk gæti kynnt sér í rólegheitum, þar sem fram kæmi hvers vegna þetta og hitt þarf að vera svona og svona.
Gæðavísir og gæðahandbækur sjúkrahúsa.
Landspítali er stærstur í móttöku slasaðra hérlendis en FSA tekur einnig á móti fjölda slasaðra og þarf sem varasjúkrahús landsins alltaf að vera búið undir stór slys. Bæði þessi sjúkrahús hafa gæðahandbækur á innra neti og myndgreiningardeildir eiga að setja verklagsreglur frá sér þangað inn, ekki eingöngu varðandi slysamóttöku heldur allt sem krefst samvinnu við aðrar deildir.
Þetta gildir um fleiri sjúkrahús og þægilegt væri ef myndgreiningardeildir notuðu
#img 4 #Gæðavísi til að halda utan um eigin verklagsreglur og síðan væru settir tenglar í gæðahandbækur sjúkrahúsanna við þær reglur. Þannig gætu myndgreiningardeildirnar oftar en ekki slegið tvær flugur í einu höggi, unnið eigin verklagsreglur og kynnt starfsemi sína fyrir öðrum deildum. Sparar vinnu og tíma og þar með peninga, frábært!
15.09.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is