#img 2 #Væri ekki gaman að vera leikari í CSI eða Law & Order? Myndgreiningin gæti átt vel heima þar, innan um aðra tækni sem notuð er til að ná vondu körlunum. Það þarf t.d. ekki nema eina CT rannsókn til að skilgreina dánarorsök og hvernig dauðann bar að.
Röntgen og réttarrannsóknir.
Vikublaðið RT-image birti í síðustu viku skemmtilega grein um CT-krufningar og fleira sem lýtur að notkun röntgengeisla við rannsókn sakamála. Greinin fjallar um starf prófessors í myndgreiningu, við læknadeild University of Maryland (UM) í Baltimore, Barry Daly. Rannsóknavinna dr. Daly snýst um myndgreiningu í réttarrannsóknum.
#img 1 #Áhugi hans vaknaði eftir fyrirlestur hjá einum af frumherjunum í þessari grein, dr. Byron G. Brogdon, fyrir margt löngu. Þar komst Daly að því hversu snemma myndgreining og réttarlæknisfræði tengdust órjúfandi böndum, eða innan árs eftir að Röntgen uppgötvaði geislana góðu sem veita okkur öllum vinnu. Það sem Daly hefur mestan áhuga á, notkun CT og MR í þessu skyni, hefur hinsvegar aðeins verið við líði í innan við tuttugu ár.
Hefðbundin- og sýndarkrufning.
#img 3 #Útgangspunkturinn í rannsóknavinnu Dalys voru „prótókollar“ gerðir af röntgen- og réttarlæknum, undir stjórn dr. Michaels Thali sem nú veitir forstöðu Institute of Forensic Medicine við háskólann í Bern. Áframhaldandi vinnu hefur hann síðan sinnt í félagi við David Fowler, yfir-réttarlækni Marylandfylkis.
Frá desember 2006 hafa þeir bætt CT krufningu við aðrar rannsóknaaðferðir í 55 tilvikum þar sem verið var að rannsaka dauðsföll af völdum höggs í slysatilvikum, t.d. umferðarslysum. Þegar um slíkt er að ræða fullyrðir Daly að CT krufningin gefi í engu eftir hefðbundinni krufningu og gæti fullkomlega komið í stað hennar. Við rannsókn morða eða dauðsfalla af óþekktum ástæðum þarf lögum samkvæmt (í Bandaríkjunum) að kryfja líkin á hefðbundinn hátt en Daly segir CT krufningu geta sparað tíma, t.d. með því að staðsetja aðskotahluti nákvæmlega. Með aðgangi að góðu tölvusneiðmyndatæki og færum röntgenlækni er hægt að framkvæma CT krufningu og skila niðurstöðu úr henni á u.þ.b. hálftíma, sem er stórum styttri tími en fer í hefðbundna krufningu. Ekki má heldur gleyma því að CT eða MR krufning er ásættanlegri fyrir aðstandendur en hefðbundin krufning, ekki síst þá sem vegna trúar sinnar eða menningararfs geta ekki hugsað sér að láta skera í lík ástvinar.
Gagnleg rannsóknavinna.
#img 4 #
Á síðasta ári fengu Daly og félagar rannsóknastyrk til verkefnis sem snýst um mat á ofbeldi gegn öldruðum. Ætlunin er að rannsaka á tveim árum áttatíu lík fólks sem hefur látist á hjúkrunarheimilum eða í þjónustuíbúðum, í leit að ummerkjum ofbeldis.
Einnig er á döfinni að gera tilraunir með notkun CT til að bera kennsl á lík af tönnum þeirra, sem mundi verða mun einfaldara og minna ógeðfellt en að réttarlæknir þurfi að rannsaka tennurnar með hefðbundnum aðferðum.
Áhugaverð umfjöllun.
#img 5 #
Greinina í heild má lesa í vefútgáfu RT-Image og ég vil sérstaklega benda lesendum á klausu í gráum ramma, til hægri á síðunni, „The History of Forensic Radiology“.
Í Radiology Today er mjög áhugaverð grein um svipað efni og í vefútgáfu Radiology er hægt að fræðast um þátt myndgreiningar í að bera kennsl á líkamsleifar eftir hryðjuverkaárásirnar 11. September 2001. Í The British Journal of Radiology er einnig að finna grein um myndgreiningu í réttarrannsóknum og til skemmtunar fylgir hér með tengill við uppskriftina að því hvernig maður getur fengið vinnu við þetta áhugaverða fag!
21.04.08 Edda G. Aradóttir edda@raforninn.is