Útdráttur úr fyrirlestri Kolbrúnar Benediktsdóttur um bráða sjúkdóma tengdum görnum á Læknadögum, 2004
Myndgreining gegnir meginhlutverki í greiningu bráðra sjúkdóma í kviðarholi. Með þróun hennar á síðari árum og aðgengi að nýrri og fullkomnari tækjabúnaði ásamt öflugri fagþekkingu eykst hlutdeild myndgreiningar sífellt. Þetta á við um sjúkdóma tengda görnum eins og um aðra sjúkdóma í kvið.
Meginviðfangsefni fyrirlestrarins var sjúkdómar í vélinda, maga, smágirni og ristli. Lítillega var rakin þróun í myndgerð á þessu sviði. Reynt var að veita innsýn í með hvaða hætti myndgreining er notuð til að greina sjúkdóma í fyrrnefndum líffærum, hvenær skal beita henni, hvenær og hvernig ber að túlka niðurstöður. Þá bar geislaskammta á góma og vísað var í skýrslugerð Geislavarna ríkisins frá 1999 og einnig nýlega grein er birtist í BMJ um lágskammtageislameðferð á börnum og áhrif hennar til langs tíma. Kynnt voru aðallega tilfelli er hafa rekið á fjörur röntgendeilda LSH, svo sem bólgubreytingar af ýmsu tagi, garnastíflur, garnarof, æxlis- og æðasjúkdómar, innihald og aðskotahlutir, áverkar og bráðir garnasjúkdómar, sérlega hjá börnum.
Ómun er í dag kjörrannsókn eða fyrsta rannsókn þegar bráðir sjúkdómar í gallvegum eru annars vegar, en annars ber tölvusneiðmyndatæknin höfuð og herðar yfir aðrar rannsóknir við skoðun á kviðarholi eins og staðan er í dag. Hún er oftast notuð við óþekkta bráða sjúkdóma í kviðarholi, til dæmis bólgusjúkdóma (diverticulita) og fleira, einnig fyrirferðir er gefa klínísk einkenni með nokkuð skyndilega hætti, áverka ofl. Hér undanskildi ég þó þvagfærin þar eð Ágústa Andrésdóttir læknir fjallaði um þann hluta síðar á þingingu. Hlutdeild yfirlitsmynda hefur minnkað en þær eru þó nothæfar til að greina frítt loft, jafnvel garnastíflu og t.d. aðskotahluti.
#img 1 #
#img 2 #
#img 3 #
#img 4 #
#img 5 #