Myndgreining án landamæra


Opnunarfyrirlestur RSNA 2004 hét “Globalization of Radiology: Myths and Reality” Hnattvæðing myndgreiningar: Satt og logið.


Hér kom fram að flest bendir til að hagvöxtur á næstu árum verði knúinn af þróun upplýsinga- og þekkingarkerfa. Þeir hagvaxtar möguleikar sem menn hafa nýtt síðustu 200 árin í æ ódýrari og hraðvirkari vöru og fólksflutningum sýnast nú að mestu tæmdir. Upplýsinga og þekkingar tæknin gefa möguleika á að flytja verkefni hvert sem er á hnöttinn, gegn vægu og sílækkandi gjaldi, en bjóða líka upp á aukna sjálfvirkni.

Framtíðin byrjar núna
Læknisfræðileg myndgreining þarf á öllu þessu að halda ef henni á að takast að uppfylla  skyldur sínar næstu áratugina. Þetta þýðir að þeir sem ætla sér sneið af framtíðinni þurfa strax að finna sér samvinnuaðila í öðrum heimshlutum, í hagstæðum tímabeltum, þar sem kostnaður er miklu lægri en heima fyrir. Hugsa má sér heimsþríhyrninga þar sem unnin er dagvinna 24 stundir á sólarhring.

Þeir fyrstu verða fyrstir
Þetta breytir öllu landslagi myndgreiningar bæði á Íslandi og í heiminum öllum. Ný lögmál munu ráða því hvar vöxtur verður og hverjir eflast og hverjir deyja. Töfraorðið er hraði og því munu þeir sem fyrstir ná tökum á að hagnýta sér framfarirnar til þess að auka afköst og gæði en lækka kostnað standa best að vígi. Eins og segir í góðri bók “náðu þar öngvir inngöngu þeir er seinir urðu”

Samræmt lagaumhverfi
Það er ljóst að öll tækni til myndfjargreiningar er klár í slaginn. Það sem haltrar er laga- og viðskiptaumhverfi. Óljóst er hvort menn finna lausnir innan núverandi lagaramma eða hvort almennt þarf ný lög til að leyfa fjargreiningu milli landa. Innan Evrópusambandsins er stefnt á samræmingu starfsréttinda og tryggingarréttinda m.a með útgáfu Evrópska heilsukortsins sem gefur rétt á læknishjálp í því Evrópulandi sem fólk er statt.

Möguleikar á markaðssókn
Hér liggja helstu vaxtarmöguleikar myndgreiningar á Íslandi. Markaðurinn er lítill og mikil þörf á stækkun til þess að auka hagkvæmni og sérhæfingu. Samkvæmt reynslunni frá Bandaríkjunum verða Íslendingar að koma upp íslenskum rekstri í öðrum löndum til þess að fjargreining milli landa gangi upp.

Íslenskt félag á alþjóða myndgreiningarmarkað
Nú þarf að koma fram íslenskt félag sem stefnir á alþjóðlegan myndgreingarmarkað. Eðlilegt er að byrja smátt. með því að setja upp eða kaupa rekstur nálægt okkur t.d. á Skotlandi. Þangað er stutt að fara, svipuð menning og enska notuð í öllum samskiptum. Þegar menn hafa fengið “proof of concept” þá má taka stefnu á austur Evrópu, Indland eða Kína. Ef vel tekst til gæti verið hægt að lækka kostnað verulega og ná mun meiri framlegð í myndgreiningarrekstur en nú þekkist. 

Betri vinnutími í hlýrra umhverfi
Einn skemmtilegur möguleiki er að fólk taki aðlögun að eftirlaunaaldrinum, með því að flytja til vinsælla og hlýrra láglaunasvæða. Ég bendi þar t.d. á ýmsar eyjar Karabíahafsins sem eru næstum vinnudegi á eftir okkur í tíma.

Látum verkin tala
Það eina sem er öruggt að framundan er samkeppni í myndgreiningu á heimsvísu. Hún mun fara frekar hægt af stað en þunginn er mikill.  Í þeim leik sem í hönd fer mun ýmsum finnast vitlaust gefið. Næsta víst er að lítt mun tjóa að kvarta og því aðeins verður tekið mark á þeim sem sigra. 

13.12.04 Smári Kristinsson, smari@raforninn.is   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *