Myndgreining á sinusum við rhinosinuit.

 
Frá haustinu 2009 eru ekki lengur teknar venjulegar röntgenmyndir af sinusum á FSA en í staðinn eru gerðar TS rannsóknir á sinusum, svokölluð lágskammta TS rannsókn. Markmið þessarar greinar er að bregða ljósi á ástæður þessarar breytingar. 

RHINOSINUIT
Ýmis nöfn hafa verið notuð fyrir sýkingar í sínusum eins og t.d. efri loftvega sýking, sinuitis, ennisholubólga, kinnholubólga svo eitthað sé nefn. Menn eru nokkuð sammála um að nota heitið rhinosinuit yfir þessi fyrirbæri. 

RÖNTGEN SINUSAR
Við venjulega röntgenrannsókn á sinusum er töluvert um falskt pósitívar og falskt negatívar rannsóknir og er tíðni falskra greininga óásættanlega há. Rannsóknaraðferðin er þokkaleg við rannsókn á sinus maxillaris en afleit við rannsókn á sinus frontalis, ethmoidalis og sphenoidalis og rannsóknaraðferðinni er tengd mikil óvissa með greininguna. Það er vel þekkt að hjá sjúklingum með eðlilega röntgenmynd af sinusum þá hefur TS rannsókn sýnt ýmsar breytingar sem skýra einkenni sjúklings. 

GÖMUL MÓTRÖK GEGN TS RANNSÓKN Á SINUSUM
Einstaka hafa verið mótfallnir þessari breytingu og nefnd eru eftirfarandi rök:
Að það sé svo erfitt að fá tíma í akút TS rannsókn, að biðin sé of löng fyrir tímapantaða rannsókn, að rannsóknin sé miklu erfiðari fyrir sjúklinginn en venjuleg röntgenrannsókn og að TS rannsóknin sé of dýr.
Lang oftast eru akút sjúklingar teknir beint á milli annarra sjúklinga án nokkurrar fyrirstöðu þar sem rannsóknin tekur svo stuttan tíma í dag. Hins vegar panta læknar oft tíma fyrir þessa sjúklinga og kemur það líka ágætlega út fyrir bæði sjúkling og myndgreiningareild. Rannsóknin tekur innan við eina mínútu eftir að sjúklingurinn er kominn á borðið og mjög sjaldan þarf að endurtaka myndir eins og gat gerst við venjulega sinusamyndatöku.
Áður fyrr þurftu sjúklingar að liggja á maganum með höfuðið kröftuglega reigt aftur, sem var erfitt fyrir marga sjúklinga og gekk oft ekki með eldra fólk og börn. Í dag, þegar notuð eru fjölsneiðatæki, er sjúklingur liggjandi á bakinu þegar rannsóknin er gerð og er hún þannig án óþæginda fyrir sjúklinginn.
Það er rétt að TS rannsóknin er dýrari. Það er hins vegar hlutur sem þarf að leiðrétta og lækka þarf verðið fyrir þessa TS rannsókn. Það gildir um margar röntgen rannsóknir að leiðrétta þyrfti verðið á þeim.

Mynd 1:
Eðlileg mynd af sinusum. Örin bendir á ostio-meatal komplexinn.
Lágskammta rannsókn.


#img 1 #
MDCT (multidetector CT) – LÁGSKAMMTA TS RANNSÓKN

Tækni –
Í dag eru notuð fjölsneiða TS tæki á flestum spítölum landsins. Notast er við sneiðar sem eru um 1 mm á þykkt. Rannsóknin er gerð með lágri spennu (kV) og straum (mAs). Teknar eru axial sneiðar með sjúklinginn liggjandi á bakinu. Það hefur marga kosti. Er mun þægilegra fyrir sjúklinginn. Gefur mun minni geislaskammt á skjaldkirtil og augastein og engir myndgallar eru frá tannfyllingum. Myndirnar eru síðan endurhannaðar í axial og coronal plani með sömu myndgæðum í báðum plönum og hægt er að bæta við fleiri sneiðplönum ef þurfa þykir.

Kostir –
Kostir TS umfram venjulega röntgenrannsókn eru margir. Auk þess að gefa góðar upplýsingar um slímhimnur og bein, sem er aðalrannsóknarefnið við rannsóknina, sjást vel margir struktúrar sem ekki eru dæmanlegir á röntgen en sjást vel við TS rannsókn. Þetta gildir um ostiomeatal komplexinn (sjá mynd 1), ethmoidal cellurnar ofl. Einnig fást mikilvægar upplýsingar um aukafund svo sem concha bullosum (sem getur verið orsakaþáttur í sinuitis) eða tilvist á Haller cellum sem geta valdið þrengslum í infundibulum eða það sést periodont sýking (sjá mynd 2). Einnig er unnt að meta postoperativar breytingar og stundum sjást breytingar í sella turcica eða beineyðing vegna sýkingar í beini. Slíkar breytingar greinast ekki við venjulega röntgenrannsókn.

Mynd 2:
Odontogen maxillaris suinuitis. Örin bendir á beineyðingu vegna sýktrar tannrótar.


#img 2 #
Geislaskammturinn við lágskammta TS rannsókn á sinusum er í öllum tilfellum lægri en við venjulega sinusarannsókn. Það fer eftir tækjum og stillingum hversu miklu minni geislaskamturinn er. Í einu tilfelli (1) var geislaskammtur við venjulega röntgen sinusarannsókn 0,05 mSv en var 0,02 mSv við lágskammta TS sinusrannsókn.
Það er ekki bara lækkunin á spennu og straumi (kV – mAs) sem hefur áhrif á geislaskammtinn heldur einnig sneiðþykktin, snúningstími gantrys og færsluhraði borðs.
Geislaskammtur við lágskammta TS rannsókn á sinusum er um 1% af þeim skammti sem gefinn er við venjulegt TS á heila.
Lágskammta TS rannsókn á sinusum er í flestum tilfellum nægilega góð rannsókn til að nota sem preoperativa rannsókn fyrir FESS aðgerð (Functional Endoscopic Sinus Surgery). Lágskammta TS rannsókn er einnig oft notuð við grun um brot í andlitsbeinum. Þetta gildir aðallega við minniháttar áverka. Sé um háorkuáverka að ræða er mælt með venjulegri TS rannsókn á andlitsbeinum.

Takmarkanir-
Lágskammta TS rannsókn á sinusum er ófullnægjandi rannsókn þegar spurt er um sýkingu í orbita út frá ethmoidit. Þá þarf venjulega TS rannsókn með hærri geislaskammti til að fá betri aðgreiningu á mjúkpörtum Sama gildir þegar spurt er um malignitet í sínusum eða aðlægum struktúrum.

Viktor Sighvatsson
Sérfræðingur í myndgreiningu.
04.02.2010.

Heimildir:
1. Lågdos-DT bättre än vanlig röntgen vid diagnostik av rhinosinuit. Roger Siegmund et al. Läkartidningen nr 41 2007 volym 104.
2. Multidetector CT of the Paranasal Sinus: Potential for Radiation Dose Reduction. Matthias H. Brem et al. Radiology: Volume 243 Number 3 – June 2007.
3. A new low-dose CT examination compared with standard-dose CT in the diagnosis of acute sinusitis. T. Hagtvedt et al. Eur Radiol (2003) 13:976-980.
4. Comparison Between Low-Dose and Standard-Dose Multidetector CT in Patients with Suspected Chronic Sinusitis. Denis Tack et al. AJR: 181, October 2003.
5. Radiation dose to the lens of eye and thyroidgland in paranasal sinus multislice CT. Zammit-Maempal et al. The British Journal of Radiology, 76(2003), 418-420. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *