Víða um land eru röntgentæki starfrækt án þess að til staðar séu geislafræðingar eða röntgenlæknar. Með vaxandi notkun stafrænnar myndtækni og fjargreiningar gefst tækifæri til að stýra starfseminni í það horf sem geislavarnalög gera ráð fyrir.
Því miður hefur í gegnum tíðina verið borin lítil virðing fyrir sérmenntun myndgreiningarfólks. Læknar án sérmenntunar í myndgreiningu hafa lesið úr myndum, jafnvel afleysandi heilsugæslulæknar með litla starfsreynslu, og fólk sem hefur enga grunnmenntun í myndgerð framkvæmt röntgenrannsóknir.
Röntgen – ekkert mál?
„
#img 1 #Þetta er allt svo auðvelt, þú hefur bara “ljósið” nógu stórt svo það sem á að mynda sé örugglega einhversstaðar inni í því, ýtir á takkann, stingur filmunni í framköllunarvél (sem er ekki notuð nema einu sinni í viku og eyðileggur flestar myndirnar) og gáir svo hvort það er svart strik í gegnum bein eða hvítur blettur í lunga á myndinni.
Stafræn tækni gerir þetta enn auðveldara, engin framköllunarvél, allt birtist fyrirhafnarlaust á skjá og ef myndin er ekki góð á “litinn” þarf bara að lýsa hana eða dekkja. Svo verða þær líka eiginlega alltaf góðar ef þú stillir kV og mAs nógu hátt. Ekkert mál!! Geislavarnir? Jú, þú setur litlu blýsvuntuna þarna yfir dinglumdanglið á körlunum.“
Falskt öryggi
Allt myndgreiningarfólk skilur nauðsyn vandaðra vinnubragða við rannsóknir, allt frá undirbúningi sjúklings til úrlestrar. Margir stjórnendur, t.d. heilsugæslustöðva, skilja það hinsvegar ekki, eða horfa framhjá því. Það hljómar vel í eyrum fólks sem sækir heilbrigðisþjónustu á staðinn að þar séu röntgentæki og alltaf hægt að taka myndir, til
#img 2 #dæmis ef veður hamlar samgöngum. Að sögn Guðlaugs Einarssonar, hjá Geislavörnum ríkisins, er hætt við því að tæknibúnaðurinn sem slíkur veiti aðeins falskt öryggi, það verður að vera til staðar starfsfólk sem kann og getur notað hann.
Röntgenrannsóknir gerðar víða
Guðlaugur segir að röntgenbúnaður á landsbyggðinni sé af mismunandi stærðum og gerðum, frá færanlegum smátækjum upp í röntgenstofur með röntgenlampa í loftvagni, borði og veggstandi. Víða
#img 3 #er verið að nota slík tæki án þess að til staðar séu geislafræðingur, svo sem í Borgarnesi, Ólafsvík, Stykkishólmi, Búðardal, Patreksfirði, Hólmavík, Hvammstanga, Blönduósi, Siglufirði, Dalvík, Ólafsfirði, Kópaskeri, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafirði, Egilsstöðum, Seyðisfirði, Reyðarfirði, Neskaupstað, Fáskrúðsfirði, Höfn, Klaustri, Vík, Hvollsvelli, Hellu, Laugarási og Þorlákshöfn. Hann áætlar að á þessum stöðum fari fram um 10% af öllum röntgenrannsóknum á landinu og þá mest útlimamyndir.
“Myndarar” standa sig vel
#img 4 #Á mörgum þessara staða eru þó starfandi “myndarar”, starfsmenn sem margir hverjir hafa sótt námskeið í geislavörnum og grunnatriðum myndgerðar hjá Geislavörnum ríkisins og sem Geislavarnir hafa í sumum tilfellum samþykkt sem ábyrgðarmenn fyrir viðkomandi stað. Guðlaugur segir ástæðuna þá að þeir séu yfirleitt lengur í starfi en tilfallandi heilsugæslulæknar og hafi betri tækifæri til þess að læra eitthvað um geislavarnir og myndatökur. Á öðrum stöðum er oftast viðkomandi heilsugæslulæknir ábyrgðarmaður og tekur þær myndir sem þarf en tíð mannaskipti gera það að verkum að þeir hafa ekki tækifæri til þess að sækja námskeið. “Myndararnir” eru í flestum tilvikum að skila vel unnu verki en öðru máli getur gegnt þegar komið er út fyrir dagvinnutíma og minna vanur eða óvanur starfsmaður tekur við.
Ábyrgðarmaður ber raunverulega ábyrgð
Samkvæmt geislavarnalögum og reglugerðum er mikil ábyrgð lögð á herðar ábyrgðarmanns röntgentækja á hverjum stað.
Lög nr. 44/2002 um geislavarnir
12. gr. „Ábyrgðarmaður skal uppfylla kröfur Geislavarna ríkisins hvað varðar menntun og þekkingu á eðli, eiginleikum og notkun jónandi geislunar sem og geislalíffræði og geislavörnum eftir því sem við á hverju sinni miðað við þá starfsemi sem um er að ræða.“
Samkvæmt þessari grein segir Guðlaugur að Geislavarnir geti samþykkt að á litlum stöðum með litla notkun og þar sem ekki fæst sérmenntað starfsfólk til starfa, geti aðrir starfsmenn en læknar og geislafræðingar verið ábyrgðarmenn. Í mörgum tilfellum hefur sú tilhögun reynst betur en að viðkomandi heilsugæslulæknir taki hlutverkið að sér. Hann segir einnig miklar vonir bundnar við 14. grein í sömu reglugerð (nr. 640/2003), um
#img 5 #samstarf við sérfræðinga. Vonast er til að hún leiði til þess að allir minni staðir með röntgenbúnað tengist stærri myndgreiningarstöðum og fái þaðan aðstoð varðandi úrlestur, gæðaeftirlit og þjálfun starfsmanna.
Reglugerð nr. 640/2003
14. gr. „Sé ábyrgðarmaður ekki sérfræðingur í geislagreiningu skal koma upp og viðhalda viðeigandi samstarfi við myndgreiningardeild eða sérfræðing í geislagreiningu um úrlestur og greiningu þeirra röntgenrannsókna sem framkvæmdar eru.“
Fjargreiningarsamningar sem stjórntæki
Þarna er tækifæri fyrir þá staði sem samið er við um fjargreiningu að fella inn í samninga ákvæði sem stuðla að vandaðri vinnubrögðum en tíðkast hafa á sumum minni stöðum.
#img 6 #Notkun vinnuregla frá greiningarstað er sjálfsögð krafa og innan þeirra geta rúmast ákvæði um notkun viðeigandi innstillinga- og gæðahandbóka, t.d. Gæðavísis, svo og viðeigandi geislavarna. Einnig má telja það eðlilegt að til að samningurinn haldist í gildi beri viðkomandi heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi að auglýsa eftir geislafræðingi a.m.k. einu sinni á ári.
Ef til vill mætti einnig setja sem skilyrði að þar sem ekki fæst geislafræðingur til vinnu skuli starfsmaður (“myndari”) sem sótt hefur grunnnámskeið í geislavörnum og fengið þjálfun í myndgerð framkvæma rannsóknir sem lesa á úr. Þá væri ekki leyfilegt að fela framkvæmdina heilsugæslulækni eða öðrum sem ekki hefur haft tækifæri til að sækja námskeið, nema ekki væri hægt að fá ”myndarann” á staðinn. Á móti mætti hugsa sér að greiningarstaður tæki að sér þjálfun „myndarans“.
Sjúklingurinn alltaf nr. 1
Það er mikilvægt að gleyma ekki þessum þætti þegar nota á þá dásamlegu möguleika
#img 7 #sem tæknin í faginu býður okkur upp á. Þjónusta við hinar dreifðu byggðir, eins og sagt er, getur tekið stórstígum framförum með hjálp stafrænna tækja og fjargreiningar en það er ekki nóg að eiga fínt tæknidót, það þarf líka einhver að kunna með það að fara. Nú er tækifæri fyrir röntgensérfræðinga að hafa áhrif á velferð enn fleiri sjúklinga, með því að bjóða ekki upp á fjargreiningu nema rannsóknir séu framkvæmdar á viðunandi hátt af fólki sem hefur a.m.k. lágmarksþekkingu á því sem það er að gera.
19.09.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is