Eins og fram hefur komið í Arnartíðindum verður MR-námskeið hjá Endurmenntun HÍ sömu helgi og RÖNTGENHÁTÍÐIN 2005 verður haldin. Forsvarsmenn námskeiðsins, Hildur Einarsdóttir og Sigurður Sigurðsson vilja hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til að fylgjast með í faginu.
Námskeið sem nýtist mörgum
Námskeiðið verður haldið 4. -5. nóvember 2005, í samstarfi við Félag geislafræðinga og Félag íslenskra röntgenlækna. Yfirskrift þess er: Sjúkdómsgreining með segulómun og grunntækni segulómunar fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.
Námskeiðið er fyrst og fremst ætlað geislafræðingum og röntgenlæknum en hluti þess hentar vel heilbrigðisstarfsmönnum sem sinna taugasjúkdómum og tækniþjónustu myndgreiningatækja.
Nýjar kröfur til myndgreiningarfólks
Segulómun er ekki lengur nýung heldur ómissandi hluti af rannsóknarframboði myndgreiningardeildar. Á þessu ári hefur segulómtækjum hérlendis fjölgað verulega og æ fleiri geislafræðingar og röntgenlæknar nota nú segulómun í daglegu starfi. Segulómrannsóknir gera að ýmsu leyti aðrar kröfur til þessara starfsstétta en aðrar myndgreiningarrannsóknir. Þótt allflestar segulómanir séu staðlaðar er oftast nauðsynlegt að sníða rannsókn að vandamáli sjúklings. Þetta gerir kröfu um aukna þekkingu geislafræðinga á sjúkdómafræði og röntgenlækna á segulómtækni.
Notkunartækni og útvíkkun ábendinga
Segulómun hefur mest verið notuð við rannsóknir á tauga- og stoðkerfi en rannsóknum á td lifur, grindarholi, hjarta og æðakerfi fjölgar. Megináhersla þessa námskeiðs verður sjúkdómsgreining þá sérlega með útvíkkun ábendinga og notkunartækni í huga en um fjórðungur námskeiðs verður helgaður grunntækni segulómunar.
Fjallað verður um segulómun af kvið og grindarholi, hjarta og æðarannsóknir, taugakerfi og stoðkerfi. Varðandi miðtaugakerfi verður lögð áhersla á nýungar svo sem flæðisrannsóknir (diffusion) spekturgreiningu og virknirannsóknir (fMRI). Sá hluti námskeiðs sem fjallar um miðtaugakerfi hentar vel heilbrigðisstarfsmönnum sem sinna taugasjúkdómum.
Fyrirlestrar og fyrirlesarar
Umsjónarmenn námskeiðsins eru Sigurður Sigurðsson , geislafræðingur í Hjartavernd, og Dr. Hildur Einarsdóttir, sérfræðingur í myndgreiningu á LSH.
Fyrirlesarar verða bæði innlendir og erlendir og er þar helst að nefna Prófessor Hans-Jörgen Smith, frá Ríkissjúkrahúsinu í Osló.
Tæmandi listi yfir fyrirlesara og fyrirlestra verður tilbúinn innan skamms og birtist þá á vef Endurmenntunar HÍ .
Gott tækifæri til að fylgjast með
Það er full ástæða til að hvetja sem flesta til að sækja þetta námskeið, einnig þá sem ekki vinna við segulómun í daglegu starfi því öllu myndgreiningarfólki er nauðsynlegt að fylgjast með framþróun í faginu, óháð vinnustað og starfssviði. Eins og fram hefur komið verður RÖNTGENHÁTÍÐIN 2005 haldin laugardagskvöldið 5. nóvember og er myndgreiningarfólk utan höfuðborgarsvæðisins hvatt til að flykkjast til borgarinnar, þar sem hægt verður að kynna sér allt það heitasta í myndgreiningunni í dag – faglega og félagslega.
05.08.05
Hildur Einarsdóttir, LSH.
Sigurður Sigurðsson, Hjartavernd.