MR metsölubók?

 
Í lok síðasta árs logaði allt í umfjöllun um Nóbelsverðlaunin, hvort hefði átt að veita frumherjum í segulómrannsóknum þau miklu fyrr, hvort “réttir” menn hefðu fengið þau og hvers vegna. Þegar litið er til baka virðist þetta allt hálf reyfarakennt.

Það voru Sir Peter Mansfield og Paul C. Lauterbur sem hlutu þessi merku verðlaun fyrir framlag sitt við þróun segulómrannsókna. Enginn dregur hæfni þeirra í efa og þegar litið er á t.d. www.nobel.se og vefsíður sem tengjast Mansfield og Lauterbur sést að þeir eru vel að verðlaununum komnir.

Val þeirra olli þó miklu fjaðrafoki vegna þess að þriðji aðili, Raymond V. Damadian, taldi sig a.m.k. jafn vel að þeim kominn og reyndar betur. Hann lét þá skoðun mjög svo skýrt í ljós, skrifaði bréf og greinar, birti auglýsingar í dagblöðum og sett var upp síða á vefsetri fyrirtækis hans, Fonar – The MRI Specialist, þar sem saga rannsókna hans var rakin og fólk hvatt til að senda Nóbelsverðlaunanefndinni áskoranir um að breyta ákvörðun sinni. Mörg þúsund manns urðu við þeirri áskorun en nefndin sat við sinn keip.

“Margt kemur upp þá hjúin deila” segir íslenskur málsháttur og eins er hér þó frekar sé nú um húsbændur en hjú að ræða. Ýmsir halda því fram, eins og t.d. má sjá í OpinionJournal – Wall Street Journal, að persónuleiki Damadians og trúarskoðanir hafi ráðið mestu um að hann fékk ekki Nóbelsverðlaunin og einnig að þetta sama sé ástæða þess að Nóbelsverðlaunin komu ekki mun fyrr í hlut einhvers sem tengist segulómun. Damadien hefur greinilega, af skrifum hans og annarra að dæma, framkomu sem aflar honum hreint ekki vinsælda og sú staðreynd að hann er bókstafstrúarmaður (creationist), og þar með þeirrar skoðunar að t.d. sköpunarsaga Biblíunnar sé heilagur sannleikur, bætir ekki úr skák.

Nú nýverið fékk Damadian „Bower Award for Business Leadership in the Field of Brain Research“ og á síðu sem Fonar fyrirtækið tengir við frétt hjá sér eru þau nefnd “Bandarísk Nóbelsverðlaun”. Að öðru leyti hefur hreinlega slokknað á umfjölluninni eftir að Nóbelsverðlaunin voru afhent. Á meðan á þessu stóð var hinsvegar mikið skrifað og mörgum heitt í hamsi, þetta væri hreinlega efni í spennusögu sem flétta mætti inn í átök, baktjaldamakk, trúarofstæki, stjórnmál, siðferðisbresti, hneykslanlega framkomu og ýmislegt fleira sem prýðir góða spennusögu. Vantar eiginlega ekkert nema svolítið af kynlífi, svona til að krydda með, en sl. fimmtudag birtist á AuntMinnie grein um nýjar MR – rannsóknir varðandi kynörvun fólks. Góður rithöfundur gæti áreiðanlega komið þeim á einhvernt hátt inn í handritið…
Uppskrift að metsölubók?

03.05.04 Edda Aradóttir.


        

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *