MÓSAR á móbílum.

Í ágústhefti CHEST, tímarits bandarískra lungnasérfræðinga (American College of Chest Physicians (ACCP)), birtust niðurstöður rannsóknar á því hversu mikið af sóttkveikjum fylgir geislafræðingi og öllum hans græjum við röntgenmyndatöku á gjörgæslu.
Rannsóknin snerist um sýklalyfjaþolnar bakteríur en gera má ráð fyrir að herdeild af minna hættulegum kvikindum fylgi með. 

Meiri samvinna, faglegri vinnubrögð.
Í greininni stendur m.a. að geislafræðingar séu venjulega ekki taldir hluti af teyminu sem sinnir hverjum sjúklingi á gjörgæslu. Hvað Ísland varðar má einfaldlega taka orðið “venjulega” úr setningunni. Geislafræðingar eru því miður ekki taldir hluti af neinu teymi utan myndgreiningardeilda hérlendis, hvorki á gjörgæslu, slysadeild né annarsstaðar.
Það sama gildir um röntgenlækna og mætti skrifa margar, harðorðar greinar um hvað vinnureglur annars heilbrigðisstarfsfólk nýta þekkingu og reynslu myndgreiningarfólks oft illa. Þetta er eitt af því sem ég minntist á í grein sem birtist hér fyrir tæpu ári.

Framkvæmd rannsóknarinnar og niðurstöður.
Í dag ætla ég að halda mig við rekkjumyndir (bedside myndir) og bakteríur. Í fyrrnefndri grein er sagt að þar sem geislafræðingar séu ekki hluti af gjörgæsluteyminu geti gleymst að láta þá vita af sérstökum hreinlætisreglum varðandi gjörgæslusjúklinga. Einnig sé ekki nægilega vel brýnt fyrir þeim mikilvægi handhreinlætis og þess að þrífa og sótthreinsa búnað sem kemst í snertingu við sjúklinga.

Í rannsókninni sem sagt er frá í CHEST var fyrst fylgst með geislafræðingum að störfum á gjörgæslu og skráð í hve mörgum tilvikum fullnægjandi sýkingavarnir voru notaðar. Í næsta hluta fengu geislafræðingar fræðslu um sýkingavarnir á gjörgæslu og hver geislafræðingur sem kom inn á gjörgæsludeildina minntur á þær. Aftur var skráð hversu oft vinnubrögð voru fullnægjandi. Þriðji hluti var framkvæmdur fjórum mánuðum seinna, á sama hátt og sá fyrsti. Hver hluti tók fjórar vikur og daglega voru tekin sýni af yfirborði röntgentækisins og athugað hvort og þá hvaða bakteríur ræktuðust úr þeim.

Niðurstöður fyrsta hluta leiddu í ljós sorglega léleg vinnubrögð, fullnægjandi sýkingavarnir voru aðeins notaðar við 1% af rekkjumyndatökum. Í öðrum hluta hækkaði hlutfallið snarlega í 42% en hafði lækkað aftur í aðeins 10% í þeim þriðja. Bakteríugróður fylgdi svipuðu munstri, minnkaði þegar sýkingavarnir bötnuðu, en var þó viðvarandi og niðurstöður bentu til að færanlega röntgentækið væri í hópi með t.d. lyklaborðum, krönum, stólum og rúmum sem geta verið menguð um lengri tíma.

Myndgreining á þátt í spítalasýkingum.
Myndgreiningardeildin er hjarta nútíma sjúkrahúss og nær allir sjúklingar sem leggjast inn þurfa á þjónustu hennar að halda. Þó umrædd rannsókn hafi snúist um færanleg röntgentæki má gera því skóna að sama máli gegni t.d. um CT og MR bekki. Á sjúkrahúsinu þar sem hún var framkvæmd, Hadassah Hebrew University Hospital í Jerúsalem, voru einnig tekin sýni af CT bekkjum og í ljós kom svipuð bakteríuflóra og á færanlega búnaðinum. Í framhaldinu var tekin upp sú vinnuregla að strjúka af bekkjunum með sótthreinsandi þurrkum á milli sjúklinga.

Það verður aldrei of oft brýnt fyrir heilbrigðisstarfsfólki hversu mikilvægt hreinlæti er, ekki síst handhreinlæti. Rannsakendur á Hadassah sjúkrahúsinu taka fram að sökum smæðar rannsóknarinnar sé nauðsynlegt að gera fleiri og stærri rannsóknir til að taka af allan vafa um þátt myndgreiningarinnar í spítalasýkingum á gjörgæslu. Niðurstöður þeirra benda þó til að rekkjumyndataka eigi marktækan þátt í að dreifa bakteríum sem valdið geta slíkum sýkingum.
Þeir mæla með að geislafræðingar séu virkir þátttakendur í þróun og framkvæmd sýkingavarna. 

Lokaverkefni fyrir geislafræðinema.
Það væri sérlega áhugavert að vita hvernig þessum málum er háttað á Íslandi. Ég vona svo sannarlega, og reikna reyndar með, að ástandið sé betra en hjá þeim í Jerúsalem. Að mínu mati væri spennandi fyrir metnaðarfullan geislafræðinema að gera litla rannsókn í þessum dúr sem lokaverkefni. Það gæti gefið hugmynd um stöðuna hérlendis og leiðir til að gera enn betur. 

18.08.09 Edda Aradóttir ea@ro.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *