Ýmislegt hefur verið reynt sem skuggaefni í meltingarveg fyrir tölvusneiðmyndir af kviðarholi; joðskuggaefni, mismikið þynnt barium, vatn, fitulausnir og jafnvel loft. Hvert um sig hefur sína kosti og galla hvað varðar gæði rannsóknarinnar, óþægindi fyrir sjúklinginn og verð. Þunn bariumlausn er víðast notuð og þykir gefa góðar myndir með ásættanlegum kostnaði en mörgum sjúklingum finnst hún bragðvond og fara illa í maga.
Nýmjólk sem skuggaefni.
Nýmjólk er eitt af því sem hefur verið reynt að nota í þessum tilgangi, t.d. birtist lítil klausa um það í Radiology árið 1999, og nýlega birtist grein í American Journal of Radiology þar sem lýst er niðurstöðum rannsóknar þar sem borin var saman nýmjólk (4% feit) og þunn bariumlausn (VoLumen frá Bracco, 0.1%). Forsvarsmaður rannsóknarinnar var dr. Chi Wan Koo, röntgenlæknir á St. Luke’s Roosevelt Hospital Center í New York City.
Nákvæmur samanburður.
Koo og félagar söfnuðu upplýsingum frá 215 sjúklingum sem fóru í tölvusneiðmyndatöku af kviðar- og grindarholi, frá og með júlímánuði árið 2005 til og með apríl 2007. Allir drukku þeir skuggaefni, 100 fengu barium og 115 mjólk. Myndir úr öllum rannsóknunum voru metnar með tilliti til þenslu á þörmum og hversu vel þarmaveggir sáust, sjúklingarnir svöruðu spurningalista um upplifun sína af skuggaefninu og kostnaður við skuggaefnisnotkunina skráður.
Þegar skoðaðar eru upplýsingar um VoLumen skuggaefnið sést að notaðir eru 450 ml. af því fyrir CT kviðarholsrannsókn en ég hef ekki fundið upplýsingar um hversu mikla mjólk sjúklingarnir í rannsókn dr. Koo og félaga voru látnir drekka. Líklegt má telja að það sé svipað magn og af skuggaefninu, u.þ.b. hálfur lítri.
Mjólk gefur jafn góða rannsókn og barium.
Enginn munur greindist á læknisfræðilegu gildi rannsókna hvort sem notað var barium eða mjólk, hvorki á þenslu þarmanna né sýnileika þarmaveggja og mjólkin fékk jákvæðari dóma hjá sjúklingunum hvað varðaði bragð, óþægindi í kvið, magakrampa, ógleði og niðurgang. Kostnaður á hvern sjúkling var 18 dollarar fyrir barium en aðeins 1.48 dollarar fyrir mjólk. Í stuttri grein í Diagnostic Imaging er tekið fram að ókostur við mjólkina sé að nokkur fjöldi fólks þoli ekki mjólkursykur.
Lýsi eftir svörun.
Mér finnst þetta mjög athyglisvert, ekki síst hvað kostnaðinn varðar, og lýsi hér með eftir skoðunum annars myndgreiningarfólks. Hefur einhver séð CT-abdomen gert með mjólk sem skuggaefni eða myndir úr þesskonar rannsókn? Hefur einhver kynnt sér þetta nánar eða heyrt af reynslu annarra? Veit einhver af ókostum sem gera notkun mjólkurinnar að slæmum valkosti? Finnst ykkur þetta raunhæfur kostur?
Reynt í Fossvogi fyrir mörgum árum.
Örn Thorstensen, röntgenlæknir í Orkuhúsinu, sendi svar og segist hann fyrir mörgum árum hafa reynt mjólk sem skuggaefni. Þá vann hann á Borgarspítalanum og hafði, eins og hann orðar það sjálfur, „…heyrt að þetta hefði verið prófað einhversstaðar“.
Örn segir mjólkina hafa reynst prýðilega sem skuggaefni en reyndin hafi orðið sú að fyrirhöfn af mjólkurnotkuninni var meiri en af handhægu bariumskuggaefni. „Þar að auki voru á þeim tíma engar samanburðar rannsóknir til sem hægt var að hafa sem leiðarljós“, segir Örn.
Þetta varð því aðeins skammtíma tilraun en árangursrík sem slík.
27.08.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is