Eins og sjá má í Arnartíðindum stóð Evrópuráðstefna myndgreiningarfólks, European Congress of Radiology, yfir dagana 3. – 7. mars. Á fyrsta degi ráðstefnunnar var formlega opnuð evrópsk útgáfa af hinni þekktu vefsíðu Aunt Minnie.
Sérstök ritstjórn fyrir Minnu frænku er nú staðsett í Evrópu og sér myndgreiningarfólki fyrir áhugaverðu efni með evrópskum fókus.
Efnisuppsetning sem hefur reynst vel
Útlitið austan hafs og vestan er næstum það sama en evrópska Minna frænka hefur uppáhald á bláum lit þar sem frænka í Ameríku notar fjólubláan. Efnisuppsetning er sú sama, enda fyrirkomulagið þrautreynt hjá AuntMinnie USA og engin ástæða til að ætla að það reynist verr fyrir Evrópubúa.
Þægilegur aðgangur
Þeir sem hafa búið sér til aðgang að AuntMinnie USA hafa hann sjálfkrafa að AuntMinnie Europe, með sama notandanafni og lykilorði. Það er líka þægilegt að ef fólk hefur valið sér áhugasvið á AuntMinnie USA eru þau sjálfvalin á AuntMinnie Europe þannig að fólk fær fréttabréf úr sömu flokkum (communities).
Nóg af áhugaverðu efni
Enn sem komið er eru færri efnisflokkar á AuntMinnie Europe en frænku hennar í Ameríku en reikna má með að þeim fjölgi eftir því sem frá líður. Samt sem áður er af nógu að taka, þarna birtast daglegar fréttir af sviði myndgreiningar í Evrópu, í tækjaflokkunum (Cardiac Imaging, CT, Healthcare Informatics, Practice Economics, Molecular Imaging, MRI, PACS og Women´s Imaging) er hafsjór af upplýsingum og hægt er að taka þátt í umræðum í “Forums”, svo eitthvað sé nefnt.
AuntMinnie Europe er áhugaverð viðbót í flóru myndgreiningarefnis á vefnum.
07.03.11 Edda Aradóttir edda@raforninn.is