Mikilvægur greiningarbúnaður

 Á RSNA 2005 var margt að sjá og heyra um nýjustu tæki og rannsóknaaðferðir. Tækjasýningin tók yfir fleiri þúsund fermetra og hundruð fyrirlestra o.þ.h. var í boði. Mitt í öllu þessu var bent á “lítið”, augljóst atriði, sem mörgum yfirsést.

Augun hafa úrslitaþýðingu
Dr. Nabile M. Safdar, prófessor við læknadeild University of Maryland, í Baltimore, gerði, ásamt fleirum, könnun á sjón röntgenlækna og breytingum á henni miðað við vinnuáag og þreytu. Hann undirstrikaði þá staðreynd að sjón röntgenlæknisins væri eitt stærsta grundvallaratriði myndgreiningarinnar og hefði úrslitaáhrif á meðferð sjúklinga.

Sjónskerpa mæld
Röntgenlæknar á þrem stórum sjúkrahúsum í Bandaríkjunum tóku þátt í könnuninni og var sjónskerpa þeirra mæld í 82 cm fjarlægð, fyrir 10:30, milli 12:00 og 15:30, og eftir 15:30, ákveðinn fjölda vinnudaga. Mælingin var gerð með gleraugum/linsum ef læknirinn notaði slíkt. Einnig gáfu læknarnir upplýsingar um aldur sinn, heilsufar, hvort þeir hefðu farið í augnaðgerðir og hvenær þeir hefðu síðast farið í sjónpróf. Þegar hver mæling var gerð var spurt hversu langan svefn viðkomandi hefði fengið nóttina áður.

Flestir með mjög góða sjón
Helstu niðurstöður voru þær að í 80% tilvika var sjónskerpa röntgenlæknanna yfir meðallagi en 20% þeirra höfðu skerta sjón, í sumum tilvikum svo mikið að sambærilegt var við að færa skjáinn sem lesið var af 50 cm fjær lækni með eðlilega sjón. Dr. Safdar sagði það hafa vakið undrun sína að meðaltími frá síðasta sjónprófi, hjá öllum læknunum, var 25.5 mánuðir, þ.e. meira en tvö ár. Honum fannst greinilega líða of langur tími milli þess sem læknarnir létu yfirfara þennan mikilvæga “búnað”.

Næturhvíld áhrifameiri en vinnuálag dagsins
Það fannst ekki merkjanlegur munur á sjónskerpu á mismunandi tíma vinnudags en nokkuð áberandi var, sérstaklega þegar sjónum var beint að yngri læknum (35 ára og yngri) hversu mikil áhrif nætursvefninn, eða öllu heldur skortur á honum, hafði á greiningarhæfnina. “Enginn getur lesið úr myndum þegar augun vilja helst lokast,” sagði Safdar. “Alveg sama hversu góða sjón manneskjan hefur óþreytt.”

Reglulegt eftirlit
Dr. Safdar sagði niðurstöður rannsóknarinnar leiða í ljós að full ástæða væri til fyrir stjórnendur myndgreiningarstaða að hvetja röntgenlækna til að fara reglulega í eftirlit hjá augnlækni. Einnig vildi hann benda röntgenlæknum á að þeir þyrftu, ekkert síður en t.d. flugmenn, að gæta vel að augum sínum og ekki síður svefni og hvíld.

Þarna er að sjálfsögðu verið að undirstrika nokkuð sem er afskaplega rökrétt og augljóst… þegar maður hugsar út í það.

12.12.05 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *