Mikilvægi pressu – Guðlaugur E, Ásmundur Br.


Erum við hætt að pressa sjúklinga?

Í nýlegu hefti sænskra röntgenlækna (Meddelande nr. 6 2003) kvartar Hasse Forsberg, röntgenlæknir, yfir því að ekki er pressað í þeim rannsóknum sem það á við, og er þá að benda á vinnubrögð á stafrænum röntgendeildum. Við rannsóknir á mjóhrygg, þvagfærum, mjaðmagrind, gallvegum, maga, ristli og fl., fást meiri myndgæði og lægra geislaálag ef mjúkvefir eru pressaðir. Með pressu minnkar geislað rúmmál og um leið minnkar dreifigeislunin sem hefur áhrif á myndgæðin. Í sumum tilfellum má minnka geislaálag sjúklings um allt að helming miðað við að nota ekki pressu. En hvers vegna er ekki pressað? Fyrir því eru sjálfsagt margar ástæður, en hvað varðar stafræna myndgerð (myndnemar eða myndplötur) þá hafa röng tökugildi ekki lengur áhrif á “svertu” myndarinnar sem birtist á skjánum, allar líta þær ágætlega út hvort sem þær voru lýstar með eða án pressu. En ekki er allt sem sýnist, með hærri tökugildum lækkar myndsuð sem þýðir meiri myndgæði upp að vissu marki, en hærri tökugildi þýða líka meiri dreifigeislun sem eykur myndsuð og minnkar myndgæðin. Aukin dreifigeislun við myndatöku hefur líka áhrif á kontrast myndarinnar og aðgreiningarhæfni, sem getur haft áhrif á sjúkdómsgreiningu. Einnig gæti ástæðan fyrir því að lítið er gert af því að pressa legið í að það er tímafrekt og pressubúnaðurinn óhentugur. Í sumum tilfellum má búast við að myndefnið aflagist ef ekki er gætt að sér. Á öllum tækjum fylgir sem staðalbúnaður hið hefðbundna pressuband sem sett er yfir sjúkling og síðan spennt. Til þess að koma í veg fyrir aflögun væri betra að nota þá aðferð að pressa beint niður með plötu.#img 1 #
Í hefti sænsku geislavarnanna nr. 2/2001 var fjallað um sænskan geislafræðing sem hannaði og prófaði nýja tegund af pressu sem hefur verið vel tekið í Svíþjóð. Sjá einnig grein sem hönnuðurinn skrifaði í Röret og auglýsingu frá fyrirtæki í Svíþjóð sem framleiðir og selur þennan búnað – Comp-x.

Þessi skrif eru til þess að minna á að pressun við rannsóknir á kviðarholssvæðinu eykur myndgæði um leið og það stuðlar að lægra geislaálagi sjúklings (sjá súlurit).


#img 2 #
Ásmundur Brekkan, Professor emeritus
Guðlaugur Einarsson, Geislavarnir ríkisins (http://www2.geislavarnir.is/
          

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *