Metnaðarleysi á myndgreiningardeildum leiðir af sér lélega þjónustu og aukinn kostnað. Deildin í heild er það sem skiptir máli en eftir höfðinu dansa limirnir og það getur enginn lagfært ástandið nema stjórnendur. Auðvitað eiga þeir ekki að vinna alla vinnuna sjálfir, til þess eru gæðageislafræðingar, gæðastjórar og þjónustufyrirtæki, en allir sem skrifa um gæðamál eru sammála um að án virkrar þátttöku stjórnenda sé einfaldlega vonlaust að auka gæði starfseminnar og/eða metnað almennra starfsmanna.
Status quo með auknum kostnaði.
Í nýrri grein á AuntMinnie er fjallað um gæða-átak sem gert var á Massachusetts General
#img 2 #Hospital (MGH) í Bandaríkjunum. Það sem ýtti mest við mér í þessari grein er frásögnin af viðbrögðum stjórnenda myndgreiningardeildar þegar þeim var sagt að vinna við að leiðrétta hverskyns villur í RIS og PACS kerfum deildarinnar væri farin að kosta tvo heila starfsmenn. Fyrstu viðbrögð voru að bjóða deildarstjóranum tvö auka stöðugildi geislafræðinga til að bjarga þessu!
Í stað þess að ráðast að rótum vandans ætluðu stjórnendur að taka þessu sem óumflýjanlegum hlut og auka kostnaðinn um tvenn árslaun geislafræðings. Það var ekki fyrr en deildarstjórinn sýndi þeim óhuggulegar tölur um aukningu leiðréttingavinnu, 40% á einu ári, og benti á að með þessu áframhaldi þyrfti innan tíðar níu manns í leiðréttingavinnuna eina sem samþykkt var að setja í gang verkefni til að fækka villunum.
Helstu villur á myndgreiningardeild Massachusetts General Hospital.
Ég ætla að leyfa mér að setja hér inn töflur á ensku, beint af vefsíðu Minnu frænku. Töflurnar sýna hvers konar villur voru algengastar á MGH:
Tafla 1.
Tafla 2.
Þegar horft er á þessar töflur liggur í augum uppi að hvorki sjúklingar né tilvísandi læknar hafa fengið góða þjónustu og þar að auki hefur skapast hætta fyrir sjúklingana vegna seinkaðrar eða rangrar meðhöndlunar. Þarna var metnaður stjórnenda ekki meiri en svo að þeir vildu frekar leggja í aukinn kostnað og halda ástandinu í sama horfi en að nota sömu peninga í það “vesen” sem þarf til að taka á svona málum.
Gæðavinna skilar sparnaði.
#img 3 #Ég veit að metnaður stjórnenda í myndgreiningu á Íslandi er meiri en þetta. Aukinn kostnaður er hinsvegar eitthvað sem enginn vill leggja í. Það hefur lengi loðað við heilbrigðiskerfið hérlendis að ekki megi leggja í kostnað við neitt sem ekki er áþreifanlegt. Gæðavinna skilar sparnaði, það er staðreynd, en myndgreiningarfólk hérlendis hefur fengið ákaflega fá tækifæri til að upplifa það vegna þess að ekki hafa fengist fjármunir í framkvæmd hennar. Allir reyna að reka sína myndgreiningardeild með sem minnstum kostnaði, sem þýðir sem fæst starfsfólk, sem þýðir að enginn fær tíma til að finna út hvað betur mætti fara, setja upp skýrar vinnureglur, kynna þær og halda þeim í því horfi að fólki þyki þæglegt að nota þær.
Í staðinn er slampast áfram á “þetta reddast” viðhorfinu og þessu gamla góða “það hefur nú aldrei neitt komið fyrir hjá okkur”.
Minniháttar og meiriháttar atvik.
#img 4 #Það ER alltaf eitthvað að koma fyrir. Allt frá rannsóknum tveggja sjúklinga sem í ógáti eru báðar merktar öðrum þeirra upp í fljúgandi stólinn á MR stofunni hjá Röntgen Domus. Sem betur fer “reddast þetta” yfirleitt alltaf. Það slasaðist enginn þegar stóllinn tók flugferð og það áttar sig yfirleitt einhver á að hann Jón getur ekki átt lungnamyndirnar með brjóstunum, þannig að þær eru færðar á nafn rétts sjúklings.
Sjálf þarf ég að lifa með því að hafa notað rangan “marker” við að taka mynd í leit að aðskotahlut og afleiðingar þess voru að ung kona var skorin upp á fótlegg að óþörfu. Mér líður illa yfir þessu og ég veit að geislafræðingarnir sem voru að vinna á MR-inu í Domus þegar stóllinn lenti í því hafa ekki sofið vært næstu næturnar. Hvernig haldið þið að þeim líði sem bera ábyrgð á mun alvarlegri atvikum en þessum? Jafnvel örkumlun manneskju eða dauða?
Það er svo einfalt að draga ótrúlega mikið úr hættu á mistökum. Skilgreina hvar áhættan er mest, búa til vinnureglur, þjálfa starfsfólkið í að fara eftir þeim, og svo eitt það mikilvægasta: Halda gæðastarfinu lifandi svo ekki sígi allt í sama farið.
Meiri gæðavinna, sjötíu prósent minni leiðréttingavinna.
Á Massachusetts General Hospital fækkaði villum í röntgenkerfunum um 72% eftir hálfs árs gæðaátak! Sjötíu og tvö prósent! Það þýðir heldur betur minni líkur á alvarlegum atvikum.
Klukkustundum sem varið var í leiðréttingavinnu fækkaði í samræmi við það, um 70%. Það þýðir heldur betur sparnað.
Meiri gæðavinna, betri þjónusta.
#img 1 #Að ógleymdri betri þjónustu við sjúklinga (hraðari þjónusta, færri endurtekningar, færri endurkallanir o.fl) og tilvísandi lækna (svör skila sér fyrr, færri svör eru röng eða ófullnægjandi o.fl.).
Að ógleymdu ánægðara starfsfólki sem er öruggara með sig í vinnunni og sáttara við dagsverkið.
Vinnureglur á vefnum eru aðgengilegar öllum, í Gæðavísi.
Hvar eru vinnureglur aðgengilegar fyrir alla? Á vefnum
Hvernig er hægt að uppfæra vinnureglur allra í einu? Með því að hafa þær á vefnum.
Hvernig er einfaldast að koma vinnureglum inn á vefinn? Með því að nota Gæðavísi.
07.09.09 Edda Aradóttir ea@ro.is