Meistaranám í geislafræði


“Fjallað var um umsókn þína um meistaranám á fundi rannsóknanámsnefndar
læknadeildar 2. apríl. Umsóknin þótti góð og áhugaverð…..”
Þannig hljómuðu fyrstu viðbrögð frá Háskóla Íslands varðandi umsókna mína í meistaranámið.
#img 1 #

Meistaranám er eftirsóknarvert
Það var svo haustið 2003 að ég innritaðist í læknadeildina. Síðan eru liðnar nokkrar andvökunætur, blóð, sviti, já og jafnvel nokkur tár. En þegar ég hugsa til baka þá var þetta mjög lærdómsríkur og skemmtilegur tími sem ég ráðlegg öllum geislafræðingum, ef þeir eiga þess nokkurn kost, að velja.
Ég hvet ykkur í meistaranám ekki síst vegna ánægjunnar sem það veitir að ljúka slíku námi en líka vegna þess að við þurfum fleiri geislafræðinga með meistaragráðu. Þá gildir einu hvar sú menntun er sótt, og þó ég mæli með HÍ þá eru ótal aðrir kostir í boði erlendis sem eru ekki síðri og jafnvel betri.

Efni rannsóknarinnar
Rannsóknarritgerðin mín fjallar um tengsl kalks í kransæðum, mælt með tölvusneiðmyndun, við staðsetningu hjartadrepa, mælt með segulómun. Ritgerðin heitir á frummálinu “The association of the quantity and distribution of coronary artery calcium with the location and extent of myocardial infarction”. Samskonar rannsókn hefur ekki verið framkvæmd áður, a.m.k. ekki samkvæmt leit í ritrýndum tímaritum.

Þátttakendur, meistaranefnd og prófdómarar
Í rannsókninni tóku þátt um 400 einstaklingar í tilviljunarkenndu úrtaki Öldrunarrannsóknar Hjartaverndar.
Leiðbeinandi minn var Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Hjartaverndar og aðrir í meistaranefndinni voru Sigurður Sigurðsson geislafræðingur og Thor Aspelund tölfræðingur sem báðir starfa í Hjartavernd. Prófdómarar í vörninni voru Guðmundur Þorgeirsson hjartalæknir og prófessor og Birna Jónsdóttir röntgenlæknir.

Niðurstöður
Í stuttu máli voru niðurstöðurnar þær að einstaklingar, bæði karlar og konur, sem greindust með hjartadrep hafa marktækt meira magn kalks í kransæðum, borið saman saman við þá sem ekki eru með hjartadrep. Einnig greindist minna magn kalks í kransæðum þeirra sem höfðu þögul hjartadrep og þeir voru einnig með minni hjartadrep. Flest hjartadrepin greindust síðan á svæði sem vinstri umfeðmings æð (left circumflex artery) nærir.

Þann 24. febrúar n.k. mun svo stoltur geislafræðingur skarta þjóðbúningi og sauðskinnskóm, þegar formleg útskrift fer fram í Háskóla Íslands.

Með kveðju
Gyða S. Karlsdóttir
19.02.07

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *