Má kynna heilbrigðisþjónustu?
Að undanförnu hefur talsvert verið rætt um kynningaraðferðir fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Þar hafa til dæmis komið við sögu Plastic Surgery Iceland og Lasersjón ehf.
Aðalfyrirsögn Fréttablaðsins s.l. fimmtudag var „Lasersjón hunsar tilmæli landlæknis“. Í undirfyrirsögn er síðna sagt frá því að landlæknir hóti jafnvel leyfissviftingu.
Ímyndarsköpun á vefnum
Verðmæti vöru og þjónustu í ríkustu löndum heims er nánast eingöngu háð þeirri ímynd sem seljanda tekst að skapa, því ímyndin ræður mestu um val kaupanda. Þetta þýðir að í stað gömlu auglýsinganna sem flestir eru orðnir leiðir á eru komnar mis vandaðar kynningar á vöru og þjónustu, með úthugsuðu ímyndasköpunarívafi. Vefurinn, sem ekki hefur orðið það sölutól sem sumir bjuggust við, verður sífellt öflugra ímyndasköpunartæki. Ef landlæknisembættið æltar að breyta þessu og ganga gegn straumi tímans er næsta víst að sá slagur er fyrirfram tapaður.
Upplýsingar þurfa að vera vandaðar
Ég skoðaði nokkrar heimasíður fyrirtækja í heilbrigðisgeiranum. Niðurstaðan er einfaldlega sú að þær eru misjafnar. Plastic Surgery síðan er verulega léleg, en mér finnst síðan hjá Lasersjón býsna góð. Hér koma fram nokkuð nákvæmar upplýsingar, bæði um verð og þjónustu.
Hvað er langt í að heilbrigðisstofnanir ríkisins veiti viðskiptavinum sínum upplýsingar af þessu tagi? Þar er oft ekki annað að hafa en gróusögur í stað gagnlegra upplýsinga.
Doktor.is er gott dæmi
Öflugasta ímyndarsköpunarsmiðjan í heilbrigðisgeiranum er doktor.is. Þar er um að ræða mjög metnaðarfullan vef sem kynnir aðferðir, lyf og heilbrigðisstarfsfólk. Almenningur leitar sér upplýsinga og kaupir í framhaldinu vöru eða þjónustu. Seljendur kaupa auglýsingar, eða skrifa greinar sem beina mönnum á ákveðna braut. Þetta er nútíma heilbrigðisþjónusta.
Fleiri dæmi um kynningarsíður nútíma heilbrigðisrekstrar má t.d. finna á eftirfarandi síðum:
http://www.bogi.is
http://www.anopic.no
http://www.carlanderska.se
http://www.volvat.no
Markaðslögmálin gilda í öllum rekstri
Forðumst alla einfeldni, markaðslögmálin virka jafnt í heilbrigðisþjónustu sem öðrum rekstri.
07.04.03, Smári Kristinsson.