Mamma geislafræðingur


Geislafræðingar eru í kvennastétt. Erlendis er hlutfall karla í stéttinni ögn hærra en á Íslandi og vonandi fáum við fleiri stráka, því karlar eiga ekkert síður að brjóta sér leið inn í hefðbundin kvennastörf heldur en konur inn í hefðbundin karlastörf.

Konurnar eru lengur heima

#img 1 #Hvort sem við erum karlar eða konur verðum við flest þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast börn en það eru konurnar sem ganga með börnin, fæða þau og, í flestum tilvikum, sjá þeim fyrir næringu fyrstu mánuðina. Konur eiga rétt á lengra fæðingarorlofi og hefð er fyrir því að móðirin sé heimavinnandi fyrstu mánuði, eða jafnvel fyrstu ár barnanna. 

Stutt á milli útskriftar og fæðingarorlofs
#img 2 #
Flestir eru u.þ.b. 25 ára þegar þeir útskrifast sem geislafræðingar og margir hafa frestað því að eiga börn þar til eftir að námi lýkur. Það þýðir að margar af konunum vinna aðeins við fagið í eitt til tvö ár, eða jafnvel skemur, og helga sig síðan fjölskyldunni um lengri eða skemmri tíma.

Mamma geislafræðingur
Það er heilmikið starf að vera foreldri og flestar mömmur einbeita sér fullkomlega að börnunum, a.m.k. fyrstu mánuðina. Vinnan er sett á “hold” en síðan kemur að því að mamma er tilbúin að vera líka geislafræðingur. Þróun í myndgreiningu er mjög hröð og gera má ráð fyrir að ýmislegt á vinnustaðnum hafi breyst á meðan mamma geislafræðingur var fjarri. Ef hún var þar að auki búin að vinna stutt í faginu fyrir barnsburðarleyfi hefur hún ekki verið búin að ná fullu sjálfsöryggi og hæfni í starfi.

Að mörgu að hyggja

#img 3 #Af þessu öllu leiðir að mamma geislafræðingur þarf að læra heilmikið þegar hún kemur aftur til starfa. Vinnufélagarnir eru dauðfegnir að fá fleiri til vinnu, enda meira en nóg að gera á myndgreiningarstöðum, og mamma geislafræðingur er áköf í að gera gagn og sanna færni sína. Fyrir vikið veigrar hún sér við að fara fram á endurþjálfun, gerir sitt besta og reynir að spyrja sem minnst. Einnig er hugurinn að hluta bundinn heimilinu og öllu því ofurskipulagi sem útivinnandi foreldrar þekkja. Afleiðingarnar geta orðið þær að mamma geislafræðingur sé alltaf hálf óörugg, geri sömu mistökin aftur og aftur og þrói jafnvel fælni gagnvart tilteknum rannsóknum eða tækjum.

Markviss endurþjálfun nauðsynleg
Með markvissri þjálfun í stuttan tíma, jafnvel aðeins viku, má koma í veg fyrir þetta. Einhver sem mamma geislafræðingur treystir þarf að sjá um þjálfunina og eftir grunnþjálfun er mikilvægt að athuga markvisst og með reglulegu millibili hvort mamma geislafræðingur hefur fengið svör við spurningum sínum og er á leið í þá átt að verða örugg um færni sína.

“Great comeback”

#img 4 #Stelpur, þið sem eruð ungar núna og að eiga börn, hikið ekki við að fá næsta yfirmann til að skipuleggja með ykkur endurþjálfun þegar þið komið til vinnu eftir að hafa verið heimavinnandi. Það fer illa með alla að ná ekki fullu sjálfsöryggi í starfi en hinsvegar er alveg frábær tilfinning að hafa fulla stjórn á hlutunum, hversu erilsamur sem dagurinn er. Mamma geislafræðingur á að geta átt “great comeback” í vinnuna!!

12.06.06 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *