Má hann fara“?“


Geislafræði er nám á háskólastigi og allsstaðar í myndgreiningarheiminum virðist stefnan vera sú að geislafræðingar axli sífellt meiri ábyrgð.
Á RSNA 2003, sem lauk fyrir viku, var starfssvið og menntun geislafræðinga eitt af því sem mikið var fjallað um. Í Bandaríkjunum er verið að fara af stað með framhaldsnám sem skilar geislafræðingum (radiologic technologist = RT) starfsheitinu „radiologist assistant“ = RA. Við undirbúning hefur verið litið til þess hvernig menntun og starfssviði geislafræðinga í Bretlandi (radiographers) er háttað. Hérlendis hefur nám geislafræðinga einnig verið sniðið að hluta til eftir breskri fyrirmynd og hefur vottun samkvæmt þarlendum stöðlum.

Starfssvið RA í Bandaríkjunum
Hið bandaríska RA nám er hugsað sem „post graduate“, fyrir þá sem hafa BSc próf, og í því er lögð áhersla á tæknilega þætti, geislavarnir og stjórnun. Tilgangurinn er að geislafræðingar eigi möguleika á löggildingu sem veitir þeim mikið sjálfstæði í starfi þó þeir séu alltaf í samstarfi við röntgenlækna og það sé læknirinn sem ber ábyrgð á lokaniðurstöðum allra rannsókna. Starfssvið RA verður að yfirfara beiðnir um stærri rannsóknir (t.d. urografiur, tölvusneiðmyndatöku, segulómskoðanir o.s.fr.), skipuleggja tímagjafir og veita sjúklingum upplýsingar. Einnig að framkvæma tilteknar rannsóknir sjálfstætt, þar á meðal, en ekki eingöngu, skyggnirannsóknir. Auk þess munu RA meta sjálfir hvort/hvenær rannsókn er heppnuð og sjúklingurinn má fara af myndgreiningardeild. Þeir munu gæta að hvort rannsóknin leiðir í ljós eitthvað sjúklegt og greina röntgenlækni frá ef slíkt sést. „Radiologist Assistant“ verður ekki staðgengill röntgenlæknis heldur samstarfsmaður og tengill læknisins við sjúkling. 
Nánari upplýsingar eru á vefsíðu American Society of Radiologic Technologists, notið leitarvélina þar og leitarorðin „radiologist assistant“.

Starfssvið „senior radiographer“ í Bretlandi
Í Bretlandi er löng hefð fyrir meiri ábyrgð geislafræðinga en hefur tíðkast hérlendis og mun meiri tíðkast í Bandaríkjunum. Liðin eru meira en þrjátíu ár síðan byrjað var að mennta ómtækna sem gera rannsóknir sjálfstætt og í dag taka þeir einnig sýni ómstýrt. Síðastliðin tuttugu ár hafa sérmenntaðir geislafræðingar meðal annars framkvæmt bariumrannsóknir sjálfstætt, ásamt ísótóparannsóknum, sjálfir ákveðið hvort/hvenær rannsókn er heppnuð og sent „sína“ sjúklinga af myndgreiningardeild eða í aðrar myndgreiningarrannsóknir eftir því sem við á. Svokallað „Red dot system“ er almennt notað en það felur í sér að geislafræðingur merkir við á röntgenmynd ef hann sér eitthvað sem hann telur sjúklegt. Það er alltaf röntgenlæknir sem gefur skriflegt lokasvar en geislafræðingur skilar oft þessu svari og vinnur með fólki úr öðrum heilbrigðisstéttum að því að ákveða framhald meðferðar og e.t.v. frekari rannsóknir. Í Bretlandi er mikill stuðningur við meiri ábyrgð geislafræðinga og þeir fá hrós fyrir að taka virkan þátt í greiningu og meðferð.
Góðar upplýsingar eru á vefsíðu Salford háskóla.

Starfssvið GF á Íslandi
Hérlendis er starfssvið geislafræðinga talsvert mismunandi eftir stöðum. Á mörgum minni myndgreiningardeildum vinna GF án þess að hafa alltaf röntgenlækni á staðnum og verða þá að axla meiri ábyrgð en ella. Þróunin á stærri stöðum er einnig á þá átt að GF vinni meira sjálfstætt, en nokkuð hefur skort á skýra stefnumótun hvað það varðar. Sumsstaðar eru geislafræðingar nú þegar mjög nálægt því að vinna jafn sjálfstætt og gert er ráð fyrir að RA geri í Bandaríkjunum og tíðkast í Bretlandi. Skoðanir eru skiptar og hvergi á myndgreiningardeildum hérlendis virðast vera til ákveðnar vinnureglur, til dæmis um það í hvaða tilvikum skal skilyrðislaust kalla til röntgenlækni og í hvaða tilvikum geislafræðingur metur sjálfur hvort það er nauðsynlegt. Á RSNA 2003 var aftur og aftur minnst á mikilvægi þess að setja upp samræmdar vinnureglur, bæði varðandi þetta og margt annað, og gæta þess að allir færu eftir þeim. Sjálfstæði í starfi kallar á samstarf og samræmingu, ekki einstaklingshyggju. Einnig var lögð mikil áhersla á að grundvallarþáttur í sjálfstæðum vinnubrögðum geislafræðinga væri að þekkja sín takmörk og óska hiklaust eftir þátttöku samstarfsfólks, annarra geislafræðinga, lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks, þegar þess væri þörf.

Mismunur á námi
Bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum geta geislafræðingar nýtt þau námskeið sem tilheyra „radiologist assistant“ eða „senior radiographer“ sem hluta mastersnáms. Í mars á þessu ári birti ISRRT skýrslu um samanburð á námi geislafræðinga í hinum ýmsu evrópulöndum og fljótt á litið virðist BSc nám á Íslandi standa námi í öðrum löndum fyllilega á sporði. Enn eigum við ekki nema einn geislafræðing með masterspróf, tveir eru í skráðir í slíkt nám og a.m.k. þrír í viðbót eru að „safna“ námskeiðum með masterspróf í huga. Ef til vill mætti hugsa sér að koma hér einnig upp diplomanámi á sérsviðum, svipað og tekið var upp í hjúkrunarfræði við HÍ í september síðastliðnum.

Hlutverk stjórnenda
Í flestum, ef ekki öllum, heimshlutum er skortur á bæði röntgenlæknum og geislafræðingum og því mikil þörf á að nýta þessa starfsmenn sem best. Stjórnendur myndgreiningardeilda hérlendis, hvort sem er í einkageiranum eða hjá ríkinu, mundu að mínu viti gera ómælt gagn með því að skilgreina betur starfssvið síns fólks og láta setja upp verklagsreglur varðandi undirbúning, framkvæmd og frágang rannsókna. Á mjög mörgum stöðum mundi það til dæmis spara geislafræðingum mikil hlaup á eftir röntgenlæknum og röntgenlæknum ótal truflanir frá öðrum störfum eingöngu til að svara spurningunni: „Má hann fara?“ 

15.12.03 Edda Aradóttir (edda@raforninn.is)


      

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *