LSH og FSA bjóða sameiginlega út segulómtæki


Þessi fréttatilkynning barst frá Halldóri Benediktssyni á Myndgreiningardeild FSA:

Búið er að auglýsa útboð á segulómtækjum fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala – Háskólasjúkrahús. Mun þetta vera í fyrsta sinn sem þessar stærstu sjúkrastofnanir landsins standa saman að stóru útboði á lækningatækjum en áður hafa rekstrarvörur verið boðnar út sameiginlega.

Óskað eftir tilboðum í þrjú 1.5 Tesla tæki
FSA sækist eftir rekstrarleigu á 1,5 Tesla segulómtæki sem á að hafa búnað til rannsókna á öllum helstu líffærakerfum. Tilkoma segulómtækis breytir möguleikum til rannsókna mjög mikið og eykur þjónustu við sjúklinga á upptökusvæði FSA. LSH óskar eftir tilboðum í tvö 1.5 Tesla segulómtæki og gefur bæði möguleika á rekstrarleigu eða kaupum. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um hvort fengið verði eitt eða tvö tæki til LSH að þessu sinni en það mun að nokkru leyti ráðast af fjárhagslegum ávinningi þess að kaupa fleiri en eitt tæki. Klinisk þörf á tveim tækjum til LSH innan skamms tíma liggur þó fyrir.

Niðurstaða á haustmánuðum
Tilboð verða opnuð 2. júlí og reiknað er með að niðurstaða um val á tækjum liggi fyrir á haustmánuðum. Uppsetning tækis á FSA ætti að geta hafist í byrjun árs 2004. Reiknað er með uppsetningu segulómtækja á LSH vorið 2004 í Fossvogi og fyrri hluta árs 2005 á Hringbraut.
 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *