Ljósið


Lýsing er eitt af því mikilvægasta sem huga þarf að á myndgreiningareiningum. Það hefur hún alltaf verið en með síaukinni notkun stafrænnar tækni gefst tækifæri til að taka þetta mál föstum tökum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ritstjóri Arnartíðinda tekur sig til og fer að predika um ljósið. Orðalagið minnir á trúboð og það getur talist bærilega viðeigandi þegar önnur af tveim stærstu hátíðum þjóðkirkjunnar fer í hönd. Hér er þó engin píslarsaga á ferð því undirrituð hefur hreint ekki þurft að þjást vegna sannfæringar sinnar en reyndar skapað sér ofurlitlar óvinsældir í nánasta umhverfi fyrir þá áráttu að “þurfa ævinlega að slökkva á öllu”.

Fyrir um það bil hálfu öðru ári birti ritstjórinn grein um þetta efni en var þá fyrst og fremst með ljósaskápa í huga, sem eru víða enn í notkun og staðreyndir varðandi þá í fullu gildi. Einnig má yfirfæra sumar þessara staðreynda yfir á staði þar sem fyrst og fremst er unnið við stafrænar vinnustöðvar, því það sem ekki hefur breyst er að við þurfum að þjóna auganu. Augað, sjónin, er það sem öllu máli skiptir.

Á námskeiði um stafræna röntgenmyndgerð sem haldið var fyrir skömmu var Smári Kristinsson með fyrirlestur um gæðatryggingu og kom þar inn á mikilvægi lýsingarinnar, bæði á skjám og í umhverfi. Þar kom fram að rétt umhverfisbirta er auganu mjög mikilvæg og litur ljóssins getur haft veruleg áhrif á hvort og/eða hversu mikið það truflar. Mannsaugað virðist vera afskaplega sátt við blátt ljós og ljósgjafar með stöðugri, litaðri birtu eru auðfengnir í dag. Einnig er verulega snjallt að mála veggi með ofurlítið mattari og dimmari litum en gamaldags spítalahvítu sem hefur gljástig 40. Myndgreiningarfólk verður svo bara að búa sig undir alla þá brandara um “blátt” umhvefi sem eiga eftir að dynja á því, þeir gefa tækifæri til að létta bæði sér og öðrum lundina í dagsins önn.
Stöðugleiki birtunnar er mikilvægur, það tekur augað um tvær mínútur að venjast breyttri lýsingu, þannig að þar sem ljósaskápur hefur verið glóandi við hlið stafrænnar vinnustöðvar borgar sig að gefa sér svolítinn tíma frá því að slökkt er á honum þar til byrjað er að skoða rannsóknir á skjánum.

Það er um að gera fyrir myndgreiningarfólk að líta í kringum sig og gefa gaum því sem betur má fara, því oft er sáraeinfalt að bæta vinnuaðstöðu sína heilmikið með smávægilegum aðgerðum eins og að slökkva/kveikja ljós, færa lampa eða snúa skjá ofurlítið. Umhverfið skiptir meira máli við úrlestur en margir gera sér grein fyrir og sem dæmi um það má nefna að þó sjón okkar allra versni með aldrinum þá sér sextugur röntgenlæknir myndir betur við réttar aðstæður heldur en annar mun yngri við rangar.

Nú þegar fleiri og fleiri myndgreiningareiningar verða alstafrænar er upplagt tækifæri til að huga mjög vel að umhverfislýsingu, litum og öðru sem hefur áhrif á lesaðstæður röntgenlækna og myndmatsaðstæður geislafræðinga. Þegar ljósaskápum fækkar, eða þeir hverfa alveg, verður einfaldara að halda umhverfislýsingu stöðugri því ekki er verið að kveikja og slökkva á skápum hér og þar. Ef vandað er til lýsingar og litavals umhverfis skjái verður vinnan okkar léttari og sjúkdómsgreining öruggari.

Lifi ljósið! 
05.04.04 Edda Aradóttir.    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *