Lídókaín gel til að minnka óþægindi við brjóstamyndatökur.

Sársauki fælir konur frá brjóstamyndatöku.
Mörgum konum finnst óþægilegt eða sársaukafullt að fara í brjóstamyndatöku og ótti við sársauka er ein af helstu ástæðum þess að konur mæta ekki í hópleit að brjóstakrabbameini. Í grein sem birtist nýlega á www.medicalnewstoday segir hjúkrunarfræðingurinn Colleen Lambertz, á St. Luke’s Mountain States Tumor Institute í Idaho, USA, að því kvíðnari sem konurnar séu þegar þær mæta í rannsókn þeim mun meiri sársauka upplifi þær. Sjálf tek ég töluvert af brjóstamyndum og kannast vel við það sem Colleen er að tala um.

Verkjalyf og/eða húðdeyfigel til undirbúnings.
Colleen og félagar fengu 418 konur á aldrinum 32 – 89 ára til að taka þátt í tilraun þar sem markmiðið var að athuga hvort verkjalyf í töfluformi (acetaminophen, ibuprofen) og/eða að bera gel með staðdeyfilyfi (lidocaine) á húð gerði brjóstamyndatökuna bærilegri. Allar konurnar höfðu áður farið í brjóstamyndatöku og 54 af þeim fundist hún svo sársaukafull að þær frestuðu því að mæta aftur.
Valið var af handahófi hvaða konur fengu verkjatöflur og/eða deyfigel og hverjar fengu lyfleysu. Gelið var borið á brjóst og bringu kvennanna, 30 – 65 mínútum fyrir myndatöku, en þurrkað af fyrir hana og hafði engin áhrif á myndgæði.

Eingöngu húðdeyfigel gerði gagn.
Niðurstöður urðu þær að inntaka verkjalyfja breytti engu um sársaukann sem konurnar fundu fyrir en marktækt fleiri konur sem deyfigelið var borið á sögðu sársaukann minni en án gelsins. Colleen segir þetta mjög ánægjulega niðurstöðu því þarna sé komin auðveld leið fyrir konur til að hafa stjórn á aðstæðum þegar þær mæta í hópleit. Lidocain gel fæst lyfseðilslaust í apótekum og konan getur borið það á heima, klukkustund fyrir bókaðan tíma, til að minnka óþægindi og þar með kvíða. 

Sannfærandi niðurstöður. 
Grein um þessa rannsókn birtist nýlega í vefútgáfu Radiology og kemur út á prenti í septemberútgáfu blaðsins. Rannsakendur fengu stuðning frá vinnustað Colleen og deyfigelið fengu þau sér að kostnaðarlausu en ekki er tekið fram hvort St. Luke’s Mountain States Tumor Institute greiddi fyrir það eða hvort framleiðandi Topicaine gelsins lagði það til.
Mér finnst ekki ástæða til að efast um þessar niðurstöður og finnst mjög líklegt að notkun lidocain gels geti haft jákvæð áhrif, þó ekki væri nema til að minnka kvíða og gefa konum tækifæri til að hafa meiri stjórn á því sem að brjóstamyndatökum snýr. 

Innlegg frá Baldri F. Sigfússyni.
Ég spurði Baldur F. Sigfússon, yfirlækni röntgendeildar hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands, um skoðun hans á niðurstöðum ofangreindrar rannsóknar. Hann sagðist aðeins hafa aðgang að samantekt um rannsóknina, ekki greininni sjálfri, og ætti þess vegna erfitt með að taka afstöðu til hennar. Baldur nefndi einnig að almenna reglan í læknisfræði væri sú að treysta ekki einni stakri rannsókn heldur bíða með meðmæli eða meðferðarákvarðanir uns fleiri hefðu rannsakað málið og árangur teldist fullsannaður eða því sem næst, þótt frá því væru undantekningar.

Baldur sagði mikil óþægindi eða sársauka við brjóstamyndatökur að mestu leyti vera af tvennum toga: Annars vegar vegna strekkingar á húð þar sem brjóstið er fastast tengt bolnum, hins vegar vegna þrýstings á sjálfan brjóstkirtilvefinn, einkum hjá konum með mikla fibroadenosu og eymsli í brjóstum.
„Það væri fróðlegt  að vita hvernig tækni var beitt við myndatökuna í þessari rannsókn, sérstaklega hvaða hámarkspressuþrýsting var miðað við og hvort mismunandi þrýstingi var beitt eftir því hve búist var við miklum óþægindum hverju sinni,“ sagði Baldur. „Það gæti auðvitað haft áhrif á rannsóknarniðurstöður.“
„Þess má geta að hámarksþrýstingur hjá okkur erum 140N, sem samsvarar um 14kg á allt brjóstið, en það er talsvert minna en stundum hefur sést mælt með í erlendum texta. Einnig er alltaf reynt að beita sem minnstum þrýstingi hjá konum með mikil eymsli.“
Baldur telur ekki ólíklegt að staðdeyfing á húð geti minnkað óþægindi vegna strekkingar á húð en segir hins vegar mjög ósennilegt að hún geti haft áhrif á eymsli í kirtilvef sem sé trúlega meira vandamál.
„Ég tel ótímabært að gefa út bein meðmæli með þessari deyfiaðferð að svo komnu máli, þótt auðvitað sé öllum konum frjálst að reyna hana“, sagði Baldur að lokum.

27.08.08 Edda Aradóttir
edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *