Á sínum tíma varð gríðarleg umræða um NSF (Nephrogenic Systemic Fibrosis) en undanfarið hefur umræðan um þessa áhættu sem fylgir skuggaefnum fyrir segulómun (MR) verið mun minni. Í síðustu viku gaf Food and Drug Administration (FDA) út tilkynningu um uppfærslu á aðvörunarmiðum sem gadolinium skuggaefni þurfa að hafa á Bandaríkjamarkaði. Stofnunin leggur áherslu á mikilvægi þess að mæla nýrnastarfsemi sjúklinga áður en þeim er gefið skuggaefni.
Höldum vöku okkar varðandi skuggaefni í æð
Áhættan sem fylgir notkun skuggaefna í æð er eitt af því sem myndgreiningarfólk þarf ávallt að hafa í huga til að tryggja öryggi sjúklinga eins og mögulegt er. Það á bæði við um MR skuggaefni og joðskuggaefni. Það er því gott að nota hvert tækifæri til að halda huganum vakandi hvað þetta varðar og fyrrnefnd tilkynning FDA hentar einmitt prýðilega til þess.
Varúðarmiðar á gadolinium skuggaefnum uppfærðir
Frá árinu 2007 hafa gadolinium skuggaefni á Bandaríkjamarkaði þurft að bera aðvörunarmiða og nú þarf að uppfæra miðana á þrem tegundum: Magnevist, Omniscan og Optimark. Fram kemur að þessar þrjár tegundir séu algengastar og valdi meiri áhættu en aðrar tegundir hjá ákveðnum sjúklingahópum. Hinsvegar er tekið fram að NSF geti komið í kjölfar notkunar á hvaða gadolininum skuggaefni sem er.
Reikna þarf út nýrnastarfsemi
FDA leggur áherslu á mikilvægi þess að leggja mat á nýrnastarfsemi (estimate kidney function through laboratory testing) hjá sjúklingum sem mögulega gætu verið með skerta starfsemi og forðast að gefa skuggaefni ef starfsemin er skert eða grunur er um að hún gæti verið það.
Í þessu sambandi er gott að hafa í huga að se-kreatínin gildi nægir ekki til að leggja mat á nýrnastarfsemi, hana þarf að reikna út t.d. með hjálp forrita eins og Omnivis.
Annað sem FDA undirstrikar er að ekki skuli gefa sjúklingi skuggaefni oftar en einu sinni við hverja MR rannsókn.
Í dagsins önn
Eins og titillinn ber með sér er tilgangur þessa greinarkorns að vekja myndgreiningarfólk til umhugsunar í dagsins önn. Við vitum öll af áhættunni sem fylgir notkun skuggaefna í æð, hvort sem það eru gadolininm skuggaefni eða joðskuggaefni, en það er hollt að láta pikka aðeins í sig öðru hverju.
13.09.10 Edda Aradóttir edda@raforninn.is