LEONARDO

Starfsmenntaáætlun Evrópusambandsins felur meðal annars í sér eflingu símenntunar og innleiðingu nýjustu tækni í starfsmenntun. Þverfaglegt samstarf er mikilvægt og ef til vill gæti myndgreiningarfólk tekið þátt. Þóra Ákadóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, segir frá þátttöku FSA.

Opinberir aðilar, einkaaðilar og stofnanir sem tengjast starfsmenntun og starfsþjálfun geta sótt um stuðning við verkefni sem falla að markmiðum áætlunarinnar, til dæmis að auka fagkunnáttu og færni fólks. Upplýsingar má til dæmis nálgast á vefsetri Landsskrifstofu Leonardo á Íslandi.

Fjarvinnsla athyglisverð
Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri hefur tekið þátt í þrem tilraunaverkefnum og þó ekkert þeirra tengist myndgreiningu beint er athyglisvert að á ráðstefnu í Caen fluttu þáttakendur frá Íslandi fyrirlestur um fjarvinnsluverkefni. Í fámennum, dreifðum faghópi, eins og hjá myndgreiningarfólki, hlýtur fjarvinnsla að vera mjög mikilvægur þáttur.

Samstarf við Frakka
Sjúkrahúsið hefur verið í samvinnu við Háskólann á Akureyri og er Þorleifur Björnsson verkefnastjóri þar. Nýjasta verkefnið er unnið með frönskum hópi og er Frakkland upphafsland (pilot) en þar eru starfandi sterk samtök um menntun heilbrigðisstétta (ANFH). Það er þó galli á samstarfi við Frakka hversu tregir þeir eru að nota önnur mál en frönsku í samskiptum. Meginmarkmið með þátttöku í þessum verkefnum hefur verið að gefa starfsmönnum FSA tækifæri á að sjá nýjungar á sínum sviðum og segja frá verkefnum sínum heima.

Starfsmannaskipti
Mannaskipti eru einnig snar þáttur í LEONARDO áætluninni og er um 40% af heildarfjármagni áætlunarinnar úthlutað í styrki vegna mannaskiptaverkefna. Fyrir Ísland þýðir það um 30 milljónir króna á ári. Yfir 1000 íslendingar hafa nýtt sér möguleika á starfsþjálfun og símenntun í flestum Evrópusambandsríkjum og myndgreiningarfólk ætti ekki síður en aðrir heilbrigðisstarfsmenn að nýta sér þennan möguleika. Boðið er upp á tvo umsóknartímabil árlega, í febrúar og að hausti.

Nánari upplýsingar
Þeim sem hafa áhuga á nánari upplýsingum er velkomið að hafa samband við Þóru Ákadóttur, thora@fsa.is 

21.02.05 Edda Aradóttir / Þóra Ákadóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *