Fyrir réttu ári birtist hér grein til að vekja athygli á myndgreiningar-leitarvélunum Yottalook og Goldminer. Goldminer er sérhæfð og takmörkuð en Yottalook stækkar og þróast með hverjum deginum sem líður. Mikil vinna hefur verið lögð í þróunarvinnu og sífellt er boðið upp á fleiri möguleika. Á RSNA 2007 var kynningarbás fyrir Yottalook og aðstandendur hennar gerðu mikið til að laða til sín myndgreiningarfólk.
Eins og fram kom í greininni í fyrra gat Yottalook í fyrstu ekki birt smámyndir (thumbnails) og slóð að mynd á upprunalegum stað en sá möguleiki er nú löngu kominn og um miðjan nóvember 2007 voru 460.000 myndir aðgengilegar á Yottalook Images. Í dagblaði RSNA ráðstefnunnar, Daily Bulletin, kemur fram að Yottalook hafi það fram yfir Google að geta leitað í „peer reviewed“ læknisfræðiritum og birt myndir sem bundnar eru höfundarrétti.
Einnig er boðið upp á möguleikana Yottalook Book, sem eingöngu vísar á bækur um myndgreiningu, og Yottalook Anatomy, sem leitar að efni um líffærafræði á víðari grunni en aðeins því sem tengist myndgreiningu.
Höfundar Yottalook segjast, í Daily Bulletin, nota athuganir á leitaraðferðum notenda til að koma til móts við þarfir þeirra og láta leitarvélina stinga upp á því sem líklegast er að verið sé að leita að.
08.01.08 Edda Aradóttir edda@raforninn.is