Leiðir til Mastersgráðu – Jónína Guðjónsdóttir


Allir vegir færir fyrir íslenska geislafræðinga

Læknadeild HÍ býður upp á rannsóknatengt nám fyrir heilbrigðisstéttir sem er 60 einingar, af því eru 30 til 45 einingar rannsóknarverkefni. Nokkrir geislafræðingar eru nú þegar langt komnir í þessu námi, en meira um nám við læknadeild má lesa á vef HÍ, td. reglur um meistaranám (http://www.laeknadeild.hi.is/page/reglurMS)

Hægt er að fara í einn og einn áfanga á mastersstigi í gegn um Endurmenntun HÍ, t.d. með það að markmiði að fá þá metna þegar formlegt nám hefst. Yfirleitt boðið upp á tvo á önn. (http://www.endurmenntun.is/Forsida/Namsframbod/Namameistarastigi/)

Margir skólar í Evrópu bjóða upp á mastersnám í geislafræðum. Oftast er þar um að ræða nám sem snýr að einu sviði geislafræðinnar fremur en öðru, t.d. tölvusneiðmyndum, segulómun, úrlestri, ómskoðunum, geislameðferð o.s.frv. Hver skóli er yfirleitt með nokkrar leiðir í boði.
Algengt er að námið spanni tæknilegar hliðar og hagnýtingu á sviðinu (t.d. CT eða MRI), auk almenns grunns hvað varðar rannsóknarvinnu og síðan er endað á rannsóknarverkefni sem oftast er hlutfallslega minna en reiknað er með hér heima. Mitt mastersverkefni verður t.d. 1/3 af heildinni.

Hægt er að finna nám sem er eingöngu fjarnám (þar er ég) eða nám sem er alveg bundið viðkomandi stað, og ýmislegt þar á milli. Það er nokkuð misjafnt eftir sviðum hvort fjarnám er í boði, t.d. virtist ekki vera auðvelt að finna fjarnám í ísótóparannsóknum, ég leitaði svolítið að því, það nám var oftast byggt upp þannig að kennt var hluta úr degi eða nokkrum sinnum í viku, og unnið á viðurkenndri ísótópastofu þess á milli. Þess má þó geta að þau tvö ár sem ég var að koma mér af stað í þetta þá fannst mér að möguleikum varðandi námstilhögun færi fjölgandi, a.m.k. í Bretlandi þar sem ég var mest að fylgjast með.

Ég hef mest skoðað möguleika á mastersnámi í Noregi og í Bretlandi, en í þeim löndum er komin nokkur hefð á mastersnám innan geislafræði. Þeim sem vilja kynna sér skóla þar bendi ég á eftirfarandi leiðir:
• Vef Society of Radiographers (www.sor.org) þar má finna lista yfir framhaldsnám sem þeir viðurkenna (sjá listann hér: http://www.sor.org/public/pdf/postgrad.pdf). Þessi listi ætti að vera fyrsti áfangastaður þeirra sem hyggja á nám í Bretlandi.
• Vef Norsk Radiografforbund (www.radiograf.no), þar má undir “Högskolene” finna lista yfir þá skóla sem bjóða upp á framhaldsnám (viderutdanning).

Svo er bara að drífa sig af stað!
10.10.05 Jónína Guðjónsdóttir, geislafræðingur.  

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *