Látum gott af okkur leiða


Jólin eru kölluð hátíð ljóss og friðar. Hátíðin er bæði forn og ný, og í jólasiðunum blandast hefðir margra menningarheima frá öllum heimsins hornum. Við viljum að allir geti notið jólanna, lausir við hversdagslegar áhyggur. Á þessum tíma er gjarnan hugað að stöðu okkar bræðra og systra sem bágstödd eru vegna áfalla af ýmsu tagi.
Á hverju ári berast glöggar fréttir af því að bágstöddum sem ekki eiga fyrir mat fjölgi. Þetta truflar okkar jólaglansmynd og ef til vill líka okkar fornu hetjudýrkun sem er ein af undirstöðum okkar menningar. Íslenskar biðraðir eftir ókeypis súpu snerta okkur illa.

Tekjulágir eru ekki í  tísku
Við búum í litlu landi, í flóknu umhverfi sem við ætlumst til að jafni kjör manna. Við stöndum undir viðamiklu félagskerfi sem á að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, þannig að við þurfum sem minnst að taka beinan þátt í vanda nágrannans. Í því kerfi er aðalreglan að allir eigi skilgreindan rétt, óháð tekjum, til að ekki verði um fátækraölmusu að ræða. Þetta þýðir að margir fá bætur af ýmsu tagi, en upphæðirnar eru smáar og þeir sem kunna ekkert á kerfið fá ekki neitt. Það hefur ekki heldur tekist að halda í prinsippið um jafnt aðgengi að þjónustu, óháð tekjum. Aðgangsstýringu í formi komugjalda er sífellt beitt í meira mæli í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Þau stýra þó eingöngu aðgengi tekjulágra að kerfinu. Aukin komugjöld hafa leitt til þess að langsjúkir og tekjulitlir einstaklingar greiða ótrúlegar fjárhæðir á hverju ári fyrir heilbrigðisþjónustu.
Til að halda kerfinu uppi greiðum við skatta sem verða að teljast þungir, því hjá meðal Jóni og Gunnu fer meira en helmingurinn af hýrunni til ríkisins (virðisaukaskattur og tollar með talið).
Ef haldið verður áfram á sömu braut stefnir í kerfi sem tekur alla okkar fjármuni í skatt en hjálpar fáum og gerir það illa.

Fálmkennt velferðarstarf
Margar opinberar aðgerðir til hjálpar bágstöddum eru gerðar án nægilegs skilnings á því flókna gangverki sem að baki liggur og gera oft meira gagn en ógagn. Ljóst er að okkar kerfi hefur ríka tilhneigingu til að vaxa og hneppa bæði þá sem borga skatta og þá sem þiggja bætur í ánauð. Þannig hafa nútíma vísindi sýnt fram á að þeir sem fá tímabundna aðstoð þurfa oft á verulegri hjálp að halda til að losna úr viðjum velferðarkerfisins. Engin trygging er fyrir því að fjármunir eða þekking til að vinna það góðverk sé fyrir hendi þegar á þarf að halda og skjólstæðingarnir eru gjarnan skildir eftir klæðlitlir í fátæktargildrum á berangri manngæskunnar.
Líknarfélög sinna margskonar starfi í almanna þágu. Þau hringja m.a. látlaust í fyrirtæki allt árið til að biðja um peninga (ég fæ upp í 5 símtöl á dag). Þessi fjáröflunarstarfsemi er mjög frumstæð, jafnvel þegar stór samtök eins og SÁÁ eiga í hlut. Í staðinn fyrir að bjóða aðgang að vel skilgreindu kostunarverkefni er einfaldlega beðið um peninga, yfirleitt 3 til 10 þús kr. Sá sem greiðir veit yfirleitt ekkert til hvers peningarnir fara og móttakandinn deilir hvorki með mönnum áætlunum né árangri. Sjaldgæft er að þakkarskjöl sem stundum er lofað berist en oft berast illa unnin tímarit. Þróunin á þessu sviði er langt að baki því sem best gerist í nálægum löndum.

„Sá yðar sem syndlaus er“
Eftir að skattar á fyrirtæki hafa lækkað er ljóst að þau verða enn viljugri til að styðja góð málefni en krafan um að koma að vel undirbúnum málum, þar sem stjórnun og árangur verkefna er uppi á borðinu, hlýtur að verða sett á oddinn af æ fleiri fyrirtækjum. Töluverð umræða fer nú fram um siðferðiskennd manna og fyrirtækja hérlendis og saka menn þar hver annan um siðleysi. Hefur þetta gerst í kjölfar þess að þingmenn hneyksluðust mjög vegna kjara bankastjóra, sem boðin var hlutdeild í velgengni síns fyrirtækis, en þingmenn bættu síðan eigin kjör rausnarlega með handauppréttingu skömmu síðar. Hefur leikhús þetta aukið mjög á skemmtan alþýðunnar í skammdeginu.
Ríkisskattstjóri grípur til ferskeytlunnar til að lýsa þvi ástandi sem hann telur að ríki. Í hans heimi eru allir vafasamir þar til annað sannast.

Hans var jafnan höndin treg
að hjálpa náungunum.
Gekk hann aldrei glæpaveg
en götuna meðfram honum.

Auður okkar þjóðfélags skapast líka vegna þeirra sem við teljum hafa orðið undir, líka krimmanna. Álit nútímafólks á glæpamönnum er oftast meira en á þeim sem við köllum heiðarlega verkamenn, enda glæponar oft í hetjuhlutverkum í bíó en verkamenn mjög sjaldan. Eftirspurn “heiðarlegra” eftir þýfi skapar framboð á þjófstolnum vörum. Eftirspurn almennings eftir glæpaefni í kvikmyndum leiðir til glæpa samkvæmt vel rökstuddum rannsóknum. Hvar stæði Hollywood án morða? Hvað væri hægt að sýna í sjónvarpinu ef ekki væru til almennilegir glæpaþættir?

Það er erfiðara að fá fjárframlög til rannsókna á lyfjum og aðferðum sem lækna heldur en til lyfja og aðferða sem halda sjúkdómum niðri, því með því að vernda sjúkdóminn verður að jafnaði til meiri uppspretta auðs hjá heilbrigðisiðnaðinum.
Það er tálsýn að það félagslega kerfi sem nú er notað nái besta árangri því það myndi þrengja að þeim sem við kerfið starfa.
Myndu starfsaðferðir lögreglu t.d. ekki batna mikið ef fjárveitingar hækkuðu við fækkun brota en ekki við aukningu brota eins og nú er? Hvað ef fjárveitingar til félagskerfisins væru tengdar tekjum þeirra sem búið er að hjálpa og komnir eru út úr kerfinu? Er ekki ríkið sjálft statt á vafasömum stíg með sinn óskilvirka rekstur þar sem lausnin er  oftast eins og hjá Molbúunum forðum að gera sífellt meira af því sem ekki skilar árangri. en eykur sóun.
“Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum”
Nútíma stjórnmálamenn sem hannaðir eru á auglýsingastofum eru hluti af þeim sýndarheimi sem framtíðarfræðingar segja að verði hinn viðtekni raunveruleiki á fyrsta fjórðungi þessarar aldar. Ótilneyddir virðast þeir ekki líklegir til að gera þjóðfélagið réttlátara, gagnsærra og skilvirkara.  Þannig að það er okkar að vísa þeim veginn.

Treystum ekki á að aðrir leysi málin.
Reynum að láta gott af okkur leiða um jólin með beinum hætti. Treystum ekki á að ríkið eða sjálfskipuð líknarfélög leysi allan vanda. Verum virkir þjóðfélagsþegnar.

Gleðileg jól.


22.12.03 Smári Kristinsson.    

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *