Á nýafstöðnu þingi voru samþykkt lög um landlækni. Þau marka tímamót að því leyti að Landlæknisembættið er eitt elsta embætti landsins en um það hafa hingað til ekki gilt sérstök lög. Hins vegar hefur embættið átt sér lagastöð í lögum um heibrigðisþjónustu þar sem áhersla er m.a. á hlutverk embættisins um að hafa eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Jafnframt er kveðið á um að landlæknir sé ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar varðandi heilbrigðismál.
Þess má geta að undir eftirlit landlæknis heyra um 350 rekstraeiningar. Landlæknisembættið notar margvíslegar leiðir til að sinna þessum lagaákvæðum og styðst m.a. við gæðaviðmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Með eftirlitsstarfi sínu hefur embættið það að leiðarljósi að árangursríkasta leiðin til að bæta gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu er að efla samstarf og samráð við stjórnendur og starfsfólk heilbrigðisstofnana. Nýlega var tekin saman skýrsla um verkefni Landlæknisembættisins sem nálgast má á vefsetri embættisins: www.landlaeknir.is
Landlæknisembættið hefur ætíð lagt mikla áherslu á gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu eins og sjá má á vefsetri embættisins. Embættið hefur vakið athygli á niðurstöðum erlendra rannsókna á öryggi sjúklinga þar sem vísbendingar eru um að allt að hundrað eintaklinga hafi látist vegna þess að hlutir fóru ekki eins og ætlað var á sjúkarhúsum víðsvegar um heiminn.
Á ráðstefnu um öryggi sjúklinga sem haldin var í Barcelona 18.- 20. apríl sl. af BMJ og IHI (Institute for Healthcare Improvement) var litið á öryggi sjúklinga út frá margvíslegum sjónarhornum. Segja má að sjúklingurinn sjálfur hafi verið í brennidepli og er það vel þar sem sjónarhorn hans er það sem oftast gefur gleggsta mynd af gæðum þjónustunnar og því hvernig fór ef ekki var allt sem skyldi. Þannig var lögð rík áhersla á að hlustað væri á rödd sjúklinga ef eitthvað færi úrskeiðis.
Þá er ánægjulegt að sjá að hægt er að skila árangri af sérstökum verkefnum eins og björgum 100.000 lífum sem IHI stóð fyrir. Stofnunin hefur metið sem náðst hafi að bjarga 112.000 lífum með því átaki. Nú er stofnunin að leggja af stað með verkefni sem miðar að þvi að bjarga 500.000 lífum frá skaða sem rekja má til meðferðar “500.000 saving lives from harm campaign”. Þar er lögð áhersla á að fá stjórnendur með í lið, “Boards on board”. Í því sambandi er áhugavert að nefna vinnusmiðju sem undirrituð sótti en þar kom skýrt fram nauðsyn þess að stjórnendur legðu áherslu að forgangsraða verkefnum til að bæta þjónustuna og höguðu fjármögnun samkvæmt því. Oft er það þannig að menn skoða fjármagn og ákveða þjónustu út frá því sem er ekki endilega í réttri forgagnsröð.
Þá voru menn hvattir til að hugsa frumlega og huga að nýbreytni í öllu skipulagi þjónustu og verkferla. Oft verða atvik vegna þess að unnið er eftir kerfi sem viðheldu líkum á að eitthvað fari úrskeiðis. Paul Plsek, einn aðalfyrirlesarannna sagði meðal annars: Health care routinely takes the lates, 21 st century medical and surgical technology.. .. and embeds it in a service delivery process that often has had little fundamental innovation since the 1960s.
Segja má að áhersla ráðstefnunnar hafi verið á að hlusta á rödd notandans og að til að tryggja gæði og öryggi í þjónustu sé affarasælast að byggja á faglegum sjónarmiðum og fjölfaglegu samstarfi.
Anna Björg Aradóttir yfirhjúkrunarfræðingur, Landlæknisembættinu