Lágir geislaskammtar – IARC niðurstöður


IARC (International Agency for Research on Cancer), hin virta rannsóknastofnun krabbameina, sem heyrir undir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, WHO, hefur birt niðurstöður sögulegrar rannsóknar á dánartíðni vegna krabbameina meðal 400 þúsund starfsmanna í kjarnorkuiðnaði í 15 löndum. Niðurstöðurnar birtust í BMJ (sjá tengil hér fyrir neðan). Beðið hefur verið eftir þessari rannsókn og niðurstöðum hennar með nokkurri eftirvæntingu. Segja má að niðurstöðurnar styðji þá aðferðafræði sem tíðkast hefur alþjóðlega í geislavörnum þegar skaðsemi jónandi geislunar er metin.

Skaðsemi geislunar frá geislavirkum efnum og geislatækjum er fyrst og fremst þekkt vegna atvika þar sem einstaklingar hafa orðið fyrir mjög mikilli geislun á skömmum tíma. Í geislavörnum er engu að síður og af eðlilegum ástæðum gert ráð fyrir að lítil geislun í langan tíma geti einnig verið skaðleg (línulegt samhengi hvað varðar aukningu krabbameina). Til að sýna vísindalega að lítil aukning í geislun hafi marktæk áhrif á aukna tíðni krabbameina þarf að gera þeim mun fjölmennari rannsóknir sem geislunin er minni.

Rannsókn IARC er ein stærsta rannsókn sinnar tegundar sem gerð hefur verið. Í henni tóku þátt þeir starfsmenn í kjarnorkuiðnaði sem borið hafa á sér geislamæli (filmur) til að meta gammageislun. Meðalgeislaálag á mann var 19 millisievert (yfir langan tíma). Til samanburðar má geta þess að geislun af náttúrulegum völdum er metin vera um 2,4 millisievert á ári á hvern jarðarbúa.
Rannsóknin sýndi að 1 til 2% af krabbameinsdauðsföllum meðal umræddra starfsmanna mætti kenna geislun. (Áhætta í kjarnorkuiðnaði er þó minni nú vegna þess að geislun þar hefur minnkað.) Hin litla en marktæka aukning í áhættu á krabbameini vegna lítillar geislunar reyndist vera af sömu stærðargráðu og mælst hefur í rannsóknum á eftirlifendum kjarnorkusprengjanna í Japan.

Niðurstaða IARC er að krabbameinstíðni aukist lítilega jafnvel við þá lágu geislun sem starfsmenn í kjarnorkuiðnaði verða fyrir. Í alþjóðlegu skipulagi geislavarna hefur einmitt verið gert ráð fyrir þessu.

Tenglar:
Niðurstöður IARC birtust í British Medical Journal, sjá: http://bmj.bmjjournals.com/cgi/rapidpdf/bmj.38499.599861.E0v1

Frá skýrslunni er m.a. sagt á slóð norsku geislavarnanna:
http://www.nrpa.no/

06.07.05 Þorgeir Sigurðsson 
  thorgeir@gr.is
Rafmagnsverkfræðingur, Geislavarnir ríkisins. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *