Fyrir tveim mánuðum birtist hér grein þar sem vakin var athygli á tilskipun Evrópusambandsins um takmörkun vinnu í rafsegulsviði, sem hefði gert vinnu við MR tæki nær óframkvæmanlega. Lög á grunni tilskipaninnar áttu að taka gildi í apríl næstkomandi en því hefur nú verið frestað.
Mikil ánægja með frestunina
Evrópusambandið tilkynnti þetta formlega þann 26. október sl. og um leið að breytingum yrði bætt við tilskipunina þannig að takmarkanir kæmu ekki niður á framkvæmd MR-rannsókna. Sama dag sendu samtökin Alliance for MRI frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur ánægja allra aðila innan þeirra með ákvörðun Evrópusambandsins. Að þessum samtökum standa þingmenn innan Evrópulanda, sjúklingahópar, vísindamenn og aðrir innan heilbrigðisgeirans.
Mikilvægt að taka öll áhrif með í reikninginn
Prófessor Gabriel Krestin, röntgenlæknir, er einn af leiðtogum Alliance for MRI og segist hann hlakka til frekara samstarfs við Evrópusambandið þegar tekið verður til við breytingar á umræddri tilskipun en Alliace for MRI hefur unnið hörðum höndum við að koma í veg fyrir að tilskipunin fengi fram að ganga óbreytt. Hann bendir á að hafa verði í huga öll áhrif sem lagasetning á grunni slíkra tilskipana komi til með að hafa, félagsleg, efnahagsleg og umhverfisáhrif.
Ekki nógu vel unnið hjá EU
Markmiðið með tilskipuninni EU Physical Agents Directive (EMF) 2004/40/EC er að koma í veg fyrir að fólk verði fyrir skaðlegum áhrifum rafsegulbylgja við vinnu sína, t.d. í sambandi við farsímakerfi og háspennulínur. Af orðalagi margra í fyrrnefndri fréttatilkynningu Alliance for MRI má ráða að fólki finnist hafa verið kastað til höndum við undirbúning tilskipunarinnar og segja má að Evrópusambandið viðurkenni mistök sín með því að lengja frest til lagasetningar og gera breytingar á tilskipuninni. Fresturinn er fjögur ár, þ.e. til 30. apríl 2012.
05.11.07 Edda Guðbjörg Aradóttir edda@raforninn.is