Lækna-óheilsa á Læknadögum.

 
Undirritaður sótti fróðleg og á tíðum bráðskemmtileg erindi um andleg veikindi lækna. Hér á eftir ætla ég að reyna að koma einhverju af þessum fróðleik til skila. Vona að þið takið viljan fram yfir verkið enda er efnið langt utan við mitt sérsvið en á klárlega erindi til allra lækna og jafnvel annars myndgreiningarfólks. Fyrirlesarar voru geðlæknarnir Halldóra Ólafsdóttir, Bjarni Össurarson, Óttar Guðmundsson, Páll Matthíasson en ég missti því miður af erindi Ferdinads Jónssonar. Fundarstjóri var Þórgunnur Ársælsdóttir.

Þunglyndi.
Halldóra fjallaði aðallega um þunglyndi og sjálfsvíg. Tíðni þunglyndis er aukin á 2 fyrstu árum í læknanámi. Í áhættu eru ekki síst þeir sem teljast mjög metnaðarfullir og gjarnan eru “vinnualkar” og svo þeir sem hneigjast til uppgjafar þegar á móti blæs. Taugaveiklun og mikil samviskusemi hefur fylgni við aukna streitu á námstíma.
Vandi þunglyndra lækna felst m.a. í því að um þriðjungi finnst þeir ekki valda starfinu en jafnframt finnst um helmingi að vinnan hjálpi sem leiðir gjarnan til þess að menn sökkva sér ennþá meira í starfið. Þunglyndinu fylgir skert dómgreind og neikvæðar hugsanir sem gjarnan hafa áhrif á frammistöðu í starfi auk almennra einkenna eins og þreytu, slens og framtaksleysis.
Sjálfsvígstíðni er vægt aukin hjá karllæknum en verulega aukin hjá konum. Talið er að konur séu í aukinni áhættu m.a. vegna þess að starfsumhverfi sé karllægt (“macho”) og henti konum oft á tíðum illa. Læknar gera færri og alvarlegri sjálfsvígstilraunir en gengur og gerist í samfélaginu. Þeir kunna til verka og hafa aðgang að banvænum efnum.

Fíkniraskanir.
Bjarni fjallaði um lækninn sem drekkur of mikið. Fíkniraskanir meðal lækna eru langalgengasta orsök vanhæfni í starfi. Grein í BMJ 2008 sýndi að af þessum hópi misnota um 50% áfengi, 37% ópíöt og um helmingur er í blandaðri neyslu. Læknarnir eru líklegir til að misnota lyfseðilsskyld lyf. Læknar koma seint til fíknimeðferðar og hafa áður en að því kemur gjarnan greint sjálfa sig og meðhöndlað. Læknar fá gjarnan minni stuðning en aðrar stéttir þegar fíkn er annars vegar.
Í BNA eru starfrækt meðferðarprógrömm í hverju fylki sem nefnast Physician Health Program. Læknirinn fer þá inn í 5 ára meðferð. Tölur frá BNA benda til þess að læknar hafi betri horfur eftir fíknimeðferð en gengur og gerist. Þannig eru 70-90% þurrir eftir 5 ár. Á Spáni er sérstök meðferðarstofnun fyrir lækna. Bjarni setti fram hugleiðingar um hvernig standa mætti betur að málum hér á landi t.d. með “heilbrigðisnefnd” sem hefði fíknivandamál á sinni könnu.

Læknirinn sem virðir ekki mörkin.
Óttar fjallaði um lækninn sem virðir ekki mörkin og stundar náin persónuleg samskipti við sjúkling sem hafa áhrif á störf hans. Fókusinn var á kynferðisleg samskipti. Í siðareglum lækna stendur að ótilhlýðilegt sé að læknir stofni til kynferðislegs sambands við sjúkling. Á fyrri hluta 20. aldar kom upp hreyfing þar sem kynferðislegt samband læknis við sjúkling var beinlínis notað í læknandi tilgangi og þá sem hluti af psýkóanalýtiskri meðferð. Þetta var síðan fordæmt með því að verið væri að misnota traust og veikleika sjúklings. Venjulega er um að ræða samband sem þróast á löngum tíma. Umfang vandans er óljóst eins og nærri má geta en rannsóknir hafa bendlað allt að 7% karllækna við svona athæfi. Á síðustu 20 árum hafa 4 læknar verið sviptir lækningaleyfi hér á landi vegna kynferðislegs sambands við sjúkling.
Gjarnan er um að ræða lækna sem eiga við að stríða fíknivandamál, kvíða, félagslega erfiðleika eða jafnvel kynlífsfíkn. Óttar vísaði til bókarinnar Sálumessu syndara eftir Esra Pétursson geðlækni enda lítið annað til á prenti um þetta efni á íslenskri tungu.
Það sem helst er hægt að gera er að vera meðvitaður um vandamálið og ekki þagga það niður. Hægt er að bjóða upp á áfengismeðferð eða viðtalsmeðferð. Einnig er til 12 spora kerfi fyrir kynlífsfíkla. Nauðsynlegt er að gefa hinum brotlega tækifæri til að bæta sig.

Að brenna út í starfi.
Páll fjallaði um lækninn sem brennur út. Hinn útbrunni er tilfinningalega uppgefinn og þurrausinn. Fagleg geta er skert. Tengsl eru við kvíða og þunglyndi. Rannsóknir hafa sýnt að um 10% HNE-deildarlækna á ákveðinni erlendri deild þjáðist af útbruna á háu stigi. Allt að 48% kanadískra heimilislækna taldi sig vera með útbruna á einhverju stigi.
Áhættuþættir útbruna eru taldir tengjast að nokkru því hverjir velja að fara í læknisfræði. Þetta eru gjarnan einstaklingar með fullkomnunaráráttu og mikinn metnað. Læknakúltúrinn með áherslu á vinnuhörku og iðni er ekki til að bæta ástandið. Konur eru útsettari en karlar og kemur þar tenging yfir í fyrsta erindið um þunglyndi og sjálfsvíg.
Norsk rannsókn hefur sýnt að tiltölulega einföld inngrip geta virkað vel. Þar má telja einkaviðtöl eða hópviðtöl, fræðslu og hvatningu. Einnig má velta fyrir sér fyrirbyggjandi aðgerðum svo sem vali inn í læknaskóla og mótun lækna í náminu.


Seltjarnarnesi 25. janúar 2009.

Halldór Benediktsson.
Myndgreiningarlæknir.
Landspítala.
 

Unnið 26.01.09 Edda Aradóttir edda@raforninn.is

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *