Viðtökurnar sem geislafræðingar fengu á 3L EXPO undirstrika enn einu sinni þörfina á að kynna myndgreiningu og gera störf okkar myndgreiningarfólks sýnilegri í þjóðfélaginu. Fólk sýndi mikinn áhuga og lét í ljós furðu á hversu lítið áberandi myndgreiningin er þó hún sé augljóslega einn af máttarstólpum nútíma læknisfræði.
Við viljum öll vera sýnileg
Ég hef oft skrifað pistla um nauðsyn þess að kynna störf myndgreiningarfólks, hvaða fagstétt sem um er að ræða. Á 3L EXPO gafst geislafræðingum tækifæri til slíkrar kynningar og þó störf geislafræðinga hafi verið miðpunkturinn í þetta sinn þá kom að sjálfsögðu fram með hvaða stéttum við vinnum og hvernig myndgreining byggir á að allir innan hennar séu samhentir.
Skemmtilegt tækifæri
Það var skemmtilegt að fá tækifæri til að halda fyrirlestur um störf myndgreiningarfólks. Markmið mitt var að hafa hann einfaldan og skýran, svara sem flestum af þeim spurningum sem ég hef oftast fengið í gegnum árin og koma á framfæri nokkrum grundvallaratriðum sem fáum dettur í hug að spyrja um.
Kynning í framhaldsskólum
Þeir sem á hlýddu voru ánægðir og bæði Katrín, formaður Félags geislafræðinga, og Díana, umsjónarmaður geislafræðináms við HÍ, komu að máli við mig með hugmyndir um skipulagðar heimsóknir til útskriftarárganga framhaldsskóla landsins til að kynna geislafræðinámið.
Samstarf myndgreiningarfólks og HÍ?
Hugmyndin er góð og sjálfsagt að setja vinnu í að útfæra hana. Mig langar að víkka þetta út og kynna unga fólkinu ekki aðeins geislafræðinámið heldur einnig þann möguleika að fara í læknisfræðinám með það í huga að verða röntgenlæknir. Myndgreiningarfólk er ein heild og við græðum öll á kynningu. Samvinna fagfélaga geislafræðinga og röntgenlækna, ásamt Háskóla Íslands, um slíka kynningu mundi vafalaust skila góðum árangri.
Hvað finnst ykkur?
Þetta er spennandi verkefni og mig langar mikið að sjá svona kynningarferðir verða að veruleika. Allir sem hafa góðar hugmyndir varðandi þetta eru beðnir að hafa samband í síma 860 3748 eða um netfangið edda@raforninn.is
11.09.06 Edda Guðbjörg Aradóttir, geislafræðingur.