Kransæða-CT og brjóstakrabbi

Fréttatilkynningar og umfjöllun vegna nýrrar skýrslu sem birtist í JAMA (Journal of the American Medical Association) 18 júlí sl. hefur verið áberandi á röntgensíðum netsins undanfarið. Skýrslan snýst um geislaálag af kransæðarannsóknum í CT og mögulega aukna hættu á krabbameini, en fyrirsagnir á netinu fjalla flestar um að kransæða-CT auki hættu á brjóstakrabbameini.

Kransæða-CT
Fyrsti höfundur skýrslunnar ber hið þekkta ættarnafn Einstein og eiginnöfnin Andrew J. Hann vinnur við Columbia University of Physicians and Surgeons, í New York ríki Bandaríkjanna, og gerði, ásamt félögum sínum, rannsókn til að meta hvort kransæðarannsókn í CT auki hættu fólks á að fá krabbamein síðar á lífsleiðinni (lifetime attributable risk).

Aukin hætta á krabbameini

Fyrsta niðurstaða er sú að framtíðarhætta á krabbameini hjá þeim sem farið hafa í kransæða-CT nær frá 1 á móti 3261 (um 0.03 %), fyrir 80 ára karlmann, upp í 1 á móti 143 (um 0.7 %), fyrir 20 ára konu. Með forriti sem lækkar geislaskammt með hjálp hjartalínurits (ECTCM) minnkar áhættan niður í 1 á móti 5017 (um 0.02 %) til 1 á móti 219 (um 0.5 %).
Þessar upplýsingar sjást í abstract úr skýrslunni hjá JAMA.

Til umhugsunar fyrir tilvísandi lækna
Í vefútgáfu Diagnostic Imaging birtist grein um þetta efni þann 17. júlí sl. þar sem álits er leitað hjá Cynthiu McCollough, aðstoðarprófessor í geislaeðlisfræði við Mayo Clinic í Rochester, MN. Hún segir, eins og líklega margir sem lesa þessi orð, að þessar niðurstöður varðandi brjóstakrabba komi myndgreiningarfólki ekki á óvart, enda hefur fólk í faginu lengi vitað að brjóstvefur kvenna er viðkvæmur fyrir geislun og viðkvæmari hjá ungum konum en eldri. Hún telur helsta kost greinarinnar í JAMA vera að undirstrika þessa staðreynd fyrir tilvísandi læknum og minna þá á að panta ekki rannsóknir með jónandi geislun nema af góðri og gildri ástæðu.

Til umhugsunar fyrir myndgreiningarfólk
Niðurstöðurnar bera einnig í sér skilaboð til myndgreiningarfólks um að nýta allar aðferðir til að minnka geislaskammt af CT rannsóknum, í þessu tilviki kransæða-CT sem er í eðli sínu geislaþung rannsókn. Bæði tækjaframleiðendur og þeir sem vinna rannsóknir leitast við að finna aðferðir til að ná fram sem mestum upplýsingum með sem lægstum geislaskammti og það er á ábyrgð myndgreiningarfólks að fylgjast grannt með framförum og nýta allt sem mögulegt er til hagsbóta fyrir sjúklinga.

Aðferðir til lækkunar geislaskammta
Í framhaldi af ofangreindu má benda á fréttir í Diagnostic Imaging frá nýliðnu ársþingi SCCT (Society of Cardiovascular computed Tomography) af rannsóknaniðurstöðum sem benda til þess að aðferðir til að minnka geislaálag af kransæða-CT beri árangur og sýni stöðugleika. 

30.07.07 Edda Aradóttir edda@raforninn.is 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *